Skipt um raforkusala

Það kostar ekkert að skipta um raforkusala. Eina skilyrðið er að segja upp gildandi samningi með tilskyldum fyrirvara.

 • Hvorki sölufyrirtækjum rafmagns né dreifiveitum er heimilt að innheimta gjald af notendum fyrir að skipta um raforkusala. 

Dæmi I

Gangur mála miðað við þá sem skipta um raforkusala með tölvusamskiptum:

 1. Hjúin Jón og Gunna búa í fjölbýlishúsi á Reyðarfirði með póstnúmer 730. Þau hafa frá upphafi keypt rafmagn af Rafveitu Reyðarfjarðar en sú rafveita rekur dreifikerfið á svæðinu og flytur rafmagnið heim í hús til þeirra.
 2. Jón og Gunna ákveða að kanna það sem í boði er á raforkumarkaðinum. Þau fara á heimasíðu Neytendastofu og kanna það raforkuverð sem sölufyrirtækin auglýsa og láta reiknivél á heimasíðunni áætla árlegan rafmagnskostnað heimilis síns með því að finna póstnúmerið sitt efst til vinstri og tilgreina síðan gerð húsnæðis síns (fjölbýlishús).
 3. Hjúin telja það hagkvæmast að gerast viðskiptavinir Orkubús Vestfjarða; fara því inn á heimasíðu Orkubúsins beint af síðu Neytendastofu og senda fyrirtækinu tölvupóst þar sem þau gefa upp áætlaða rafmagnsnotkun heimilisins á ári og óska eftir tilboði að vestan.
 4. Orkubú Vestfjarða (nýja sölufyrirtæki þeirra hjúa) sendir tilboð til baka í tölvupósti. Jón og Gunna samþykkja það með tölvupósti.

Hvað gerist í framhaldinu?

 1. Orkubú Vestfjarða tilkynnir dreifiveitu þeirra Jóns og Gunnu um nýjan raforkukaupasamning. 
 2. Dreifiveitan sendir fyrra sölufyrirtæki, sem er Rafveita Reyðarfjarðar, tilkynningu um uppsögn samnings. 
 3. Rafveita Reyðarfjarðar annast áfram dreifingu á rafmagninu til þeirra hjúa þrátt fyrir nýjan sölusamning. Þau greiða henni þjónustugjald en gjaldið er undir opinberu eftirliti.
 4. Við önnur mánaðarmót eftir að Jón og Gunna gengu frá samningi sínum flytjast viðskipti þeirra frá Rafveita Reyðarfjarðar til Orkubús Vestfjarða.

Dæmi II

Gangur mála miðað við þá sem skipta um raforkusala með símtali ásamt bréflegri staðfestingu:

 1. Hjúin Jón og Gunna búa í fjölbýlishúsi á Reyðarfirði með póstnúmer 730. Þau ákváðu að kaupa rafmagn af Orkubúi Vestfjarða þegar rafmagnsmarkaðurinn opnaðist og fá það inn í hús um dreifikerfi Rafveitu Reyðarfjarðar.
 2. Nú sjá þau Jón og Gunna á neytendasíðu dagblaðs að HS Orka muni trúlega bjóða þeim hagstæðustu kjörin í rafmagnsviðskiptum. Þau fá þetta staðfest með símtölum við fulltrúa raforkusölufyrirtækja sem keppa á markaðinum og ákveða að söðla um í viðskiptum sínum.
 3. Hjúin gefa HS Orku símleiðis eða með bréfi upp áætlaða rafmagnsnotkun sína á ári og óska eftir tilboði. 
 4. Jón og Gunna samþykkja skriflega tilboð Hitaveitu Suðurnesja.

Hvað gerist í framhaldinu?

 1. HS Orka tilkynnir Rafveitu Reyðarfjarðar (dreifiveitu hjúanna) um áformaða breytingu og sendir rafveitunni jafnframt afrit af samningi sínum við Jón og Gunnu. 
 2. Rafveita Reyðarfjarðar tilkynnir Orkubúi Vestfjarða um að Jón og Gunna muni hætta viðskiptum við Orkubúið.
Við önnur mánaðarmót eftir að Jón og Gunna gengu frá samningi sínum flytjast viðskipti þeirra frá Orkubúinu til HS Orku. Ekkert rof verður á streymi rafmagnsins.