Leiðbeiningar til raforkubænda um mælingar á vatnsrennsli

Hér má lesa og/eða sækja PDF-skjal með endurskoðuðum leiðbeiningum um mælingar á vatnsrennsli í smáám og lækjum, ásamt meðfylgjandi Excel skjali til útreiknings á rennsli út frá vatnshæð við mismunandi gerðir af mælistíflum. Um er að ræða endurskoðun á bæklingi Sigurjóns Rist frá árinu 1953, og kemur töflureikniskjalið í staðinn fyrir handvirka útreikninga út frá töflum og línuritum, sem þar þurfti að beita.

Gefinn er út prentaður bæklingur með þessum sömu leiðbeiningunum ásamt tilheyrandi disklingi eða geisladiski, ætlaður þeim sem ekki eru nettengdir.

Litlar vatnsaflsvirkjanir: Kynning og leiðbeiningar um undirbúning


Árið 2010 kom út önnur útgáfa handbókar sem bar heitið Litlar vatnsaflsvirkjanir: Kynning og leiðbeiningar um undirbúning.  Fjallað er um undirbúningsrannsóknir, mannvirki, vél- og rafbúnað, samskipti við opinbera aðila og áætlanagerð. Jafnframt eru settar fram leiðbeiningar um hvernig haga beri undirbúningi. Þegar að hönnun kemur ættu menn að leita sér ráðgjafar eða afla sér ítarlegri hönnunargagna.

Tilgangur kversins er að kynna uppbyggingu smárra vatnsaflsvirkjana. Farið er yfir lausnir m.t.t. til staðhátta og stærðar. Leiðbeint er um það hvernig menn geta á grundvelli fyrstu upplýsinga um rennsli og fall gert sér hugmynd um stærð virkjunar og tilhögun með hliðsjón af staðháttum. Lýst er helsta vélbúnaði og við hvaða aðstæður mismunandi vélagerðir henta. Farið er yfir helstu grundvallarlögmál rafmagnsfræðinnar og mikilvægi þess að vanda val á rafbúnaði. Þá er fjallað ítarlega um tengingu við raforkukerfið og viðskipti með raforku. Farið er yfir þau leyfi sem þarf að afla og samskipti við opinbera aðila. Þá er kafli með tilbúnum sýnidæmum um stofn- og rekstraráætlanir, og síðast en ekki síst leiðbeiningar um það hvernig best er að bera sig að til að nálgast að lokum skynsamlega framkvæmdaáætlun sem hægt er að leggja fyrir styrk- og lánveitendur. .

Tenging við raforkukerfið

Viðskipta og tækniskilmálar

Gert er grein fyrir forsendum tengingar og skilmálum, sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa. Þar er meginreglan sú að þessi viðskipti leiði ekki til hækkunar á rafmagnsverði til viðskiptavina veitunnar. Þá er minnt á ný raforkulög þar sem lögð er áhersla á jafnræði þeirra sem stunda viðskipti með raforku, hvort sem er á framleiðslu- eða dreifingarstigi, og þar geta hvorki smáar né stórar virkjanir gengið að því sem vísu að geta selt alla sína framleiðslu.

Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Sjóðurinn styður frumkvæði og vænleg viðfangsefni til atvinnusköpunar á bújörðum. Skilyrði fyrir stuðningi sjóðsins við minni vatnsaflsvirkjanir eru þau að virkjunin sé í eigu og byggð á ábýlisjörð umsækjanda. Gerð er krafa um traustar forsendur fyrir verkefninu.

Lánasjóður landbúnaðarins

Hlutverk sjóðsins er að tryggja landbúnaðinum aðgang að lánsfé til fjárfestinga á hagstæðum kjörum og stuðla þannig að æskilegri þróun atvinnuvegarins. Sjóðurinn veitir m.a. lán til byggingar smávirkjana í sveitum svo fremi að sýnt sé fram á traustar forsendur í framkvæmda- og rekstraráætlun.

Byggðastofnun

Hlutverk stofnunarinnar er að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni. Stofnunin veitir lán til byggingar smávirkjana og hugsanlega styrki ef um er að ræða verkefni sem felur í sér nýmæli af einhverju tagi. Með umsóknum þarf að fylgja greinargerð með kostnaðar og viðskiptaáætlun.

Orkusjóður

Hlutverk sjóðsins er fjármögnun grunnrannsókna á sviði orkumála og fjárhagslegur stuðningur við ýmsar framkvæmdir og verkefni. Heimilt er að styrkja sérstök verkefni á sviði hagkvæmrar orkunotkunar, þar með talda fræðslu og upplýsingastarfsemi, svo og hagrænar athuganir í orkumálum og umhverfisathuganir í tengslum við orkurannsóknir. Sjóðurinn leggur áherslu á almennar athuganir fremur en fjármögnun einstakra framkvæmda.