Vatnsaflsvirkjanir

Rannsóknir og þekkingarstig

Rannsóknar- og þekkingarstigin segja mest um það hversu vel ígrunduð einstaka tilhögun er. Í rannsóknum á vatnsorku leiða almennar rannsóknir í ljós upplýsingar um rennslisorku. Almennar vatnarannsóknir eru nú á ábyrgðarsviði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Með forathugun liggur fyrir nánari útfærsla á tilhögun virkjunar og í henni felast m.a. rannsóknir á aðstæðum sem ráða hagkvæmni og áhrifum á umhverfið. Nýting vatnsorku er eins og fyrr á ábyrgðarsviði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og á höndum Orkustofnunar. Stofnunin segir fyrir um tilhögun virkjana í rammaáætlun og stýrir sértækum rannsóknum er tengjast nýtingu vatnsorku og jarðhita og nýsköpun á því sviði.

Varðandi jarðhita leiða almennar rannsóknir til afmörkunar á jarðhitasvæðum eftir ummerkjum á yfirborði, en í forathugun er leitast við að afmarka líkleg vinnslusvæði og setja fram þau atriði í tilhögun virkjunar, sem hægt er að segja fyrir um áður en til háhitaborana kemur. Með forathugun og forsögn um tilhögun, eða eftir atvikum samþykki fyrir tilhögun að forsögn orkufyrirtækis, er hlutverki Orkustofnunar í undirbúningi almennt lokið, og virkjunarstaðir tilbúnir til þeirra rannsókna sem þarf vegna hönnunar og rekstraráætlana og þar taka orkufyrirtækin við.

Nánari útlistun á áföngum undirbúningsrannsókna vatnsafls og jarðhita má sjá í skýrslu iðnaðarráðuneytisins: Álit samstarfsnefndar um orkurannsóknaáætlun frá desember 1998. Umfjöllun um rammaáætlun er t.d. í skýrslu Orkustofnunar um virkjunarkosti til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar

Möguleg orkuvinnslusvæði

Heildaryfirlit um stóra og meðalstóra orkuvinnslukosti var tekið saman í ritinu Innlendar orkulindir til vinnslu raforku, sem iðnaðarráðuneytið gaf út 1994. Tillögur Orkustofnunar um virkjunarkosti til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar byggja að hluta á þessu riti. Engin úttekt liggur þó fyrir um mögulegar meðalstórar virkjanir (um 2-10 MW að afli). Möguleikar á smávirkjunum (undir 2 MW) hafa verið kannaðir allvíða, en heildstætt yfirlit liggur ekki fyrir.