Reglur um styrki Orkustofnunar vegna smávirkjanaverkefnis

Almennt

Reglur þessar eru settar af orkumálastjóra og gilda um veitingu styrkja vegna rannsókna eða námsverkefna til meistaraprófs (MSc.) á sviði smávirkjana til raforkuframleiðslu. 

Markmið

Markmið með styrkveitingu á grundvelli reglnanna er að stuðla að aðgengilegu efni fyrir þá sem hyggjast nýta landgæði til framleiðslu raforku í byggðum landsins.

Eru styrkirnir veittir í þeim tilgangi að fjölga verkefnum og rannsóknum á sviði smávirkjana, sem eru til þess fallnar að stuðla að auknu raforkuframboði og raforkuöryggi út um land, auk þess sem þær gefa landeigendum kost á að nýta betur landgæði.

Fjárhæð

Árið 2019 voru auglýstir tveir styrkir og var fjárhæð þeirra allt að 500.000 kr. fyrir hvort verkefni.

Skilyrði úthlutunar

Styrkirnir standa til boða öllum sem stunda rannsóknir á meistarastigi svo fremi sem verkefnin styðja við smávirkjanaverkefni Orkustofnunar.

Viðfangsefni geta til dæmis tengst, litlum jarðvarmavirkjunum, áhrifum dreifðrar raforkuframleiðslu á flutnings- og dreifikerfi raforku, áhrif á orkuöryggi, þróun raforkuverðs og áhrif á arðsemi smærri virkjana, líkan fyrir kostnað við uppbyggingu og rekstur á smærri virkjunum, áhrif upprunavottorða á  aukna uppbyggingu smávirkjana, hvernig hægt er að stuðla að aukinni virkni raforkumarkaðar og þannig mætti lengi telja.

Rannsóknaráætlun (synopsis) skal fylgja umsókninni og í henni skal gera glögga grein fyrir því hvað á að rannsaka, hvernig rannsókninni verður háttað og hvar gagnanna verður aflað. Jafnframt skal sýnt fram á tengingu rannsóknarinnar við smávirkjanaverkefni Orkustofnunar. Þessu til viðbótar skulu fylgja upplýsingar um hvaða rannsóknarsviði verkefnið tilheyrir, um hugsanlegan leiðbeinanda og fyrirhugaðan tímaramma. 

Eyðublað

Umsóknum um styrk skal skila til Orkustofnunar á tölvupóstfangið os@os.is  á þar til gerðu eyðublaði.

Útborgun styrkjanna

Styrkir verða greiddir út í tvennu lagi. Fyrri helmingur verður greiddur við samþykkt umsóknar og að frágengnu samkomulagi um styrkveitinguna. Síðari helmingurinn verður greiddur út þegar verkefnið (skýrslan/ritgerðin) hefur staðist mat viðkomandi menntastofnunar. Orkustofnunar skal getið í skýrslunni og hugsanlegum greinarskrifum í framhaldi af henni og stofnunin skal fá rafrænt eintak af skýrslunni/ritgerðinni og er heimilt að nýta efni hennar og vitna til efnis hennar og niðurstaðna í ræðu og riti. 

Kynning á niðurstöðum

Niðurstöður rannsóknar eða verkefnis sem styrkur er veittur til samkvæmt reglum þessum skulu kynntar samkvæmt nánara samkomulagi.