Smávirkjanir

Í desember 2016 kynnti Orkustofnun fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hugmynd að smávirkjanaverkefni sem hefði það að markmiði að stuðla að aukinni raforkuframleiðslu á landsbyggðinni. Hugmynd að verkefninu er til komin vegna alvarlegrar stöðu í raforkuöryggismálum landsins. Fáir álitlegir virkjunarkostir eru í nýtingarflokki í þeirri tillögu að þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar sem lögð hefur verið fram á Alþingi, auk þess sem erfiðlega gengur að gera endurbætur á flutningskerfi raforku. Kerfið eins og það er í dag getur ekki staðið undir frekari uppbyggingu á atvinnustarfsemi út um land.

Stöðvarhús Dalsorku (Upps. afl 550 kW. Ljósm. Dalsorka ehf.)


Það er því mat Orkustofnunar að nauðsynlegt sé að horfa einnig til staðbundinna lausna og kanna hvaða smærri virkjunarkostir í vatnsafli eru í boði. Hugmyndin er að fá sveitarfélögin, Byggðastofnun og fleiri aðila til samstarfs um kortlagningu á möguleikum til svæðisbundinnar raforkuframleiðslu.

Þessari hugmynd var vel tekið og hefur verkefnið verið fjármagnað af nýrri ríkisstjórn. Verkefnið gæti orðið lyftistöng fyrir bæði bændur og aðra atvinnustarfsemi víða um land, auk þess sem það gæti stuðlað að auknu orkuöryggi í landinu.  Síðan árið 2003 hefur framleiðsla og sala á raforku verið á frjálsum markaði, þannig að eigendur smærri virkjana geta gert orkusölusamninga við sölufyrirtæki um sölu á sinni framleiðslu. Víða um land er skortur á framboði á raforku farinn að standa byggðaþróun fyrir þrifum en ekkert nútíma samfélag getur vaxið og dafnað án þess að eiga greiðan aðgang að tryggri raforku. Smærri vatnsaflsvirkjanir gætu orðið mikilvægur þáttur í því að tryggja vaxtarmöguleika í dreifðari byggðum landsins.

Glerárvirkjun (Uppsett afl 290 kw, Ljósm. Norðurorka)

 

Orkustofnun ákvað að gera tilraun til að kalla eftir hugmyndum að smærri virkjunarkostum í gegnum landshlutasamtök sveitarfélaga og bárust stofnuninni nokkrar hugmyndir. Fjórar þessara hugmynda voru útfærðar að nokkru til þess að sýna á hvern hátt Orkustofnun hyggst vinna með virkjunarhugmyndir í smávirkjanaverkefni, ef til þess fæst fjármagn. Stöðuskýrsla um verkefnið fyrir árið 2017 er því dæmi um það sem hægt væri að gera víðar til að ýta undir fjölgun smávirkjana. Rétt er þó að leggja áherslu á að Orkustofnun getur aðeins unnið almennt að undirbúningi smávirkjana á hugmynda- og forathugunarstigi. Hönnun og annar undirbúningur, bygging og rekstur virkjana er í höndum viðkomandi aðila á frjálsum markaði.