Spurningar og svör

Spurning: Hvers vegna sendi Orkustofnun virkjunarkosti í núverandi verndar- og orkunýtingarflokki inn til verkefnisstjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar?

Svar:
Í lögum er ekkert sem skyldar Orkustofnun til að leggja virkjunarkost í verndarflokki síðustu rammaáætlunar fyrir verkefnastjórn að nýju vegna næstu áætlunar, hins vegar er ekkert í lögunum sem bannar slíkt. Beiðni um að verkefnisstjórn fjalli um virkjunarkost skal send Orkustofnun, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 482011. Beiðninni skal fylgja lýsing á fyrirhugaðri virkjun, áætluðum virkjunarstað, helstu mannvirkjum og öðrum framkvæmdum sem henni tengjast og eftir því sem kostur er áætlun um afl og orkugetu og stofn- og rekstrarkostnað virkjunar. Um þetta skal nánar fyrir mælt í reglugerð. Ef virkjunarkostur er að mati Orkustofnunar nægilega skilgreindur skal verkefnisstjórn fá hann til umfjöllunar. Orkustofnun getur einnig að eigin frumkvæði falið verkefnisstjórn að fjalla um virkjunarkosti.

Sé það mat Orkustofnunar að beiðni um að virkjunarkostur í verndarflokki verði sendur verkefnastjórn til umfjöllunar, að því gefnu virkjunarkosturinn, sé nægjanlega skilgreindur, er ekkert sem bannar það að Orkustofnun vísi honum áfram til verkefnastjórnarinnar til mögulegrar nýrrar flokkunar. Það er þó háð mati Orkustofnunar hverju sinni sem byggir á málefnalegum sjónarmiðum. Orkustofnun metur aðeins fyrirkomulag virkjunar. Það getur breyst milli áfanga, t.d. aflsetning vegna markaðsaðstæðna, en jafnframt getur ýmislegt annað komið til sem er ekki Orkustofnunar heldur verkefnisstjórnar og faghópa hennar að meta. Þar má nefna  hvort nýjar upplýsingar eða ný sjónarmið hafi komið fram um t.d. náttúrufar á svæðinu eða samfélagsleg áhrif virkjunar, sem haft getur áhrif á flokkunina. Nefna má sem dæmi að nú mun liggja fyrir flokkun útbreiðslumynstra íslensku flórunnar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og einnig liggur fyrir stafrænt gróðurkort af miðhálendinu. Mikið starf hefur jafnframt verið unnið í flokkun og skráningu vistgerða. Áhrif þessara nýju upplýsinga hlýtur að þurfa að meta innan rammaáætlunar.

Hlutverk verkefnisstjórnar er að fjalla um virkjunarkosti skv. 2. mgr. og þau landsvæði sem viðkomandi virkjunarkostir hafa áhrif á að hennar mati. Verkefnisstjórn getur að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni endurmetið virkjunarkosti og landsvæði sem gildandi áætlun nær til og lagt til breytingar á henni. Það á þó ekki við ef gefið hefur verið út leyfi til viðkomandi virkjunar samkvæmt raforkulögum eða lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu eða friðlýsing skv. 4. mgr. 6. gr. bannar framkvæmdina.

Rétt er að benda á að ein meginástæða þess að Orkustofnun leggur nú til endurskoðun á virkjunarkostum í öllum flokkum, þar með talið verndarflokki, er að nú er í fyrsta skipti fjallað um virkjunarkostina á grundvelli gildandi laga og reglugerðar. Í fyrri áföngum snérist umfjöllun um einstaka virkjunarkosti um efnisatriði sem ekki tilheyra áætlunarstigi. Því má telja eðlilegt að fjallað sé að nýju um alla virkjunarkosti þannig að þeir séu metnir á grundvelli sömu matsáætlunar á sambærilegum forsendum sem miða við áætlunarstig. Mikilvægt er, að mati Orkustofnunar, að innbyrðis röðun allra virkjunarkosta sé tekin fyrir þannig að hægt sé að átta sig á því á hvaða forsendum einn virkjunarkostur er metinn og flokkaður í samanburði við annan. Á það til dæmis við um nýjan virkjunarkost á Vestfjörðum, Austurgilsvirkjun, sem æskilegt er að sé metinn samhliða Hvalárvirkjun þar sem um tvo vænlega kosti er að ræða á sama landsvæði.

Spurning: Óskað er eftir nánari  skilgreiningu á eftirfarandi hugtökum Framkvæmdasvæði, Iðnaðarsvæði, Nýtingarsvæði og Áhrifasvæði.

Svar:

Framkvæmdasvæði

Í Skipulagslögum nr. 123/2010 er víða fjallað um framkvæmdir en framkvæmdasvæði er þó ekki skilgreint. Samkvæmt lögunum skal:

"Afla skal framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Þó þarf ekki að afla slíks leyfis vegna framkvæmda sem háðar eru byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki." Framkvæmdasvæði er því víðfeðmt hugtak og iðnaðarsvæði eru samkvæmt skilningi Orkustofnunar á hugtakinu hlutmengi af því sem myndi flokkast sem framkvæmdasvæði.

Iðnaðarsvæði

Svæði fyrir umfangsmikla iðnaðarstarfsemi eða starfsemi sem er talin geta haft mengun í för með sér, svo sem verksmiðjur, virkjanir, þ.m.t. vatnsfallsvirkjanir, jarðhitavirkjanir, sjávarfallavirkjanir og vindmyllur, tengivirki, veitustöðvar, skólpdælu- og hreinsistöðvar, endurvinnslustöðvar, brennslustöðvar, förgunarstöðvar, sorpurðunarsvæði, flokkunarmiðstöðvar og birgðastöðvar fyrir mengandi efni. (sbr. gr. 6.2 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013).

Nýtingarsvæði

Staðarmörk svæðis sem innifelur það svæði sem vinna má úr og nýta viðkomandi auðlind (jarðhita) í því magni og með þeim skilmálum sem tilgreind eru í nýtingarleyfi. Staðarmörk nýtingarleyfis eru innan nýtingarsvæðis. Iðnaðarsvæði og framkvæmdasvæði eru oftast innan nýtingarsvæðis.

Áhrifasvæði

Orkustofnun kallar ekki eftir upplýsingum um áhrifasvæði virkjunarkosta.

Spurning: Þegar virkjanakostir úr rammaáætlun 2 eru sameinaðir í einn kost vegna ramma 3, á að telja það breytingu með því að nota B í númerinu?

Svar: Ef útfærslu á þeim virkjunarkostum sem hafa verið sameinaðir hefur ekki verið breytt frá því sem var í rammaáætlun 2 skal nota bókstafinn A í númeri virkjunarkosts.

Ef útfærsla á einhverjum eldri virkjunarkosta sem eru sameinaðir hefur verið breytt verulega frá því sem var í rammaáætlun 3 skal nota bókstafinn B.

Spurning: Í hvaða ferli fara gagnakröfur vegna 3. áfanga rammaáætlunar, fara gögnin fyrst til OS og síðan til verkefnastjórnar?

Svar: Lög um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011 gera ráð fyrir verkaskiptingu milli Orkustofnunar og verkefnisstjórnar. Orkustofnun safnar upplýsingum um tilhögun virkjunarkosta og tryggir að þeir séu nægilega vel skilgreindir sem virkjunarkostir.  Umfjöllun aðra þætti en tilhögun virkjunar svo sem varðandi náttúruvernd, formminjar, náttúruminjar og ferðamennsku eru á borði verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar og faghópa sem heyra undir hana. Verndar- og orkunýtingaráætlun skal unnin samkvæmt umhverfismati áætlana og þar með takmarkast hvaða gagna er hægt að krefjast.

Spurning: Verður lögum breytt varðandi vindorku eða er hætt við lagalegri óvissu næstu árin?

Svar: Orkustofnun mun haga vinnu sinni í samræmi við gildandi lög á hverjum tíma.

Spurning: Hefur ferli varðandi jarðhitann breyst nýlega?

Svar: Ekki er hægt að fá rannsóknarleyfi til matsskyldra borana á jarðhitasvæðum nema virkjunarkostur sé í nýtingarflokki.

Spurning: Skiptir uppsett afl máli við matið, hvort að virkjun er til dæmis 40 MW eða 90 MW, þarf að senda inn bil eða dugar ein skilgreining varðandi uppsett afl?

Svar: Mikilvægt er að tillögur fyrir jarðvarmavirkjanir séu skilgreindar rúmt þannig að nýtingarsvæði og mögulegt uppsett afl rúmist innan þeirra skilgreininga sem valdar eru í nýtingarflokk í rammaáætlun, ella kann það að valda vandræðum á seinni stigum. Mælt er með að send sé inn ein tala sem miðar við mögulegt hámarks afl.

Spurning: Hvers vegna er óskað eftir kostnaðaráætlun og hvað verður um gögnin?

Svar: Fyrirtækin sjálf vinna kostnaðarmatið en Orkustofnun þarf að sinna stjórnsýsluskyldu sinni og sannreyna kostnaðarmatið. Farið verður með gögnin sem trúnaðarmál innan Orkustofnunar.

Spurning: Hvaða tryggingu hafa orkufyrirtækin fyrir því að gögn varðandi virkjunarkosti verði tekin til umfjöllunar af verkefnisstjórn.

Svar: Verkefnisstjórn tekur ákvörðun um það hvaða virkjunarkostir verða teknir til mats. Það er hins vegar skilningur Orkustofnunar að þurfi að liggja fyrir gildar málefnalegar ástæður  ef virkjanakostur er ekki tekinn til mats, ef hann uppfyllir þær almennu kröfur sem gerðar eru um skil á gögnum.

Tilhögun virkjunarkosta fjallar ekki um laxagöngur eða önnur mál sem tengjast náttúrufari

Í tengslum við virkjunarkosti sem Orkustofnun hefur lagt fram vegna þriðja áfanga rammaáætlunar hafa borist spurningar um stýringu á rennsli í tengslum við laxagöngur, af því tilefni vill Orkustofnun koma því á framfæri að umfjöllun um virkjunarkosti í þriðja áfanga rammaáætlunar skal fara fram á áætlunarstigi.

Nákvæmar útfærslur á stýringu rennslis til þess að tryggja laxagöngur tilheyra framkvæmdastigi en ekki verður unnið að slíkum útfærslum nema virkjunarkostur verði flokkaður í nýtingarflokk.