Virkjanir í rammaáætlun
Í þeim áfanga sem nú er lokið (sjá skýrslur Orkustofnunar og vef Rammaáætlunar) voru teknar fyrir virkjanir í jökulám með miðlunarlón á hálendinu. Fyrir þeim er gerð grein í viðauka A-1 um vatnsorkukosti. Á kortinu eru sýndir virkjunarkostir sem var fjallað um í ritinu Innlendir orkulindir til vinnslu á raforku (Iðnaðarráðuneytið 1994).
Hér að neðan er sá hluti virkjunarkostanna sem fjallað var um í Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma listaðar með örstuttri grein fyrir tilhögun.
A-Jökulsá í Skagafirði (Skatastaðavirkjun): Virkjun af Hofsafrétt að inntakslóni Villinganesvirkjunar með veitum af Nýjabæjarfjalli, úr drögum Hofsár og e.t.v. frá V-Jökulsá.
Villinganesvirkjun: Verkhönnuð (190-250 GWh/a); hærri talan á við miðlað vatn, þ.e. eftir að A-Jökulsá hefur verið virkjuð.
Virkjanir í Skjálfandafljóti: Virkjun niður í Bárðardal. Efst er virkjun með litlum miðlunarlónum við Fljótshaga og sunnan Fljótshnúks. Neðar virkjun frá lóni við Hrafnabjörg með frárennsli í Mjóadalsá. Ekki er hér gert ráð fyrir að nýta Íshólsvatn sem inntakslón eins og í fyrri áætlunum.
Jökulsá á Fjöllum: Virkjun frá miðlunarlóni norðan Krepputungu við Arnardal, með göngum í tveimur áföngum niður í Fljótsdal, þeim fyrri niður á Jökuldal. Í þessum áætlunum er gert ráð fyrir að tryggja visst lágmarksrennsli um Dettifoss. Aurburður er takmarkandi þáttur fyrir mögulegar útfærslur. Einnig hefur verið gerð áætlun um rennslisvirkjun, þar sem inntaksmiðlun takmarkast við að tryggja rekstraröryggi, m.a. vegna aurskolunar. Sú virkjun yrði um helmingi minni en fyrri hugmyndir gerðu ráð fyrir og dýrari á orkueiningu.
Jökulsá á Dal (Kárahnjúkavirkjun): Virkjun frá Hálslóni sunnan Kárahnúka niður í Fljótsdal.Veitt er til virkjunarinnar frá Jökulsá í Fljótsdal og innstu drögum Kelduár. Framkvæmdir hafnar og gert ráð fyrir að virkjun taki til starfa á árinu 2007.
Jökulsá í Fljótsdal og Hraunavatn: Fljótsdalsvirkjun var áformuð með miðlun á Eyjabökkum og veitum af nálægum vatnasvæðum, einkum úr efstu drögum Kelduár á Hraunum. Öllum undirbúningi var lokið þegar ákveðið var að slá virkjuninni saman við Kárahnjúkavirkjun, hætta við miðlun á Eyjabökkum, en stækka í þess stað Hálslón.
Í athugun á vegum Orkustofnunar hafði komið fram að hagkvæmt er að veita til virkjunar meira vatni af Hraunum; útfærslur sem höfðu vinnuheitið Hraunavirkjun. Hún er ekki lengur á dagskrá, heldur verður að skoða nýjar útfærslur á að nýta þetta vatn með meira en 500 m falli niður á láglendi.
Hverfisfljót: Í áætlunum um virkjun var gert ráð fyrir miðlun við Fremri eyrar og inntaks- og miðlunarlóni í lægðum norðvestan Miklafells. Fyrirsjáanleg eru mikil vandkvæði vegna leka ofan í víðtækt hellakerfi sem m.a. nær inn undir efra lónstæðið og telur Orkustofnun þessa virkjun ekki raunhæfa.
Djúpá: Ánni veitt til inntaks og miðlunarlóns í Álftárdal. Þangað er veitt úr Hvítá sem safnað er í lón í Vestari Hvítárdal. Frárennsli virkjunar sameinast Djúpá aftur skammt innan þjóðvegar.
Skaftá: Margar leiðir eru til að nýta Skaftá. Í fyrsta lagi með veitu hluta jökulvatns til Tungnaár (Skaftárveita), og í öðru lagi með virkjun grunnrennslis og neðri draga árinnar frá lóni á Þveráraurum í Tungufljóti til baka til Skaftár við Búland (Skaftárvirkjun).
Hólmsá: Virkjun frá litlu lóni við Einhyrning niður í Tungufljót.
Markarfljót: Lón á Emstrum og Launfitjum. Hugsanlega tvær virkjanir, sú efri við Sátu en sú neðri við Einhyrning. Frárennsli neðri virkjunar líklega til Gilsár.
Efri hluta Þjórsár og Tungnaá: Virkjun ánna ofan Búrfells er langt komin. Það sem eftir stendur er Norðlingaölduveita og Búðarhálsvirkjun, auk virkjunar við Bjalla ofan Sigölduvirkjunar og virkjunar í veitu frá Hágöngulóni. Í rammaáætlun var fjallað um Norðlingaölduveitu frá lóni upp í 575 m y.s. Með úrskurði setts umhverfisráðherra var ákveðið að mannvirki veitunnar yrðu utan friðlandsmarka.
Neðri Þjórsá: Gert er ráð fyrir þriggja þrepa virkjun, annars vegar í tveimur þrepum frá lóni við Núp (Hvammsvirkjun og Holtavirkjun) niður fyrir Hestfoss og hins vegar frá lóni ofan Þjórsártúns niður fyrir Urriðafoss (Urriðafossvirkjun). Þessar virkjanir njóta þess að þegar er búið að miðla ofar á vatnasviðinu.
Efri Hvítá: Í áætlunum frá 6. og 7. áratug seinustu aldar var gert ráð fyrir stórri miðlun í Hvítárvatni, og mismunandi útfærslum á virkjun fallsins frá vatninu, þannig að bera mátti saman leiðir þar sem virkjun fallsins í Gullfossi var innan eða utan virkjunar. Í endurskoðaðri áætlun eru forsendur þær að ekki verði hækkað í Hvítárvatni og að miðlun sé svo lítil að virkjun hafi ekki umtalsverð áhrif á rennsli um Gullfoss.
Glámuvirkjun: Safngöng frá Vatnsdalsá að Fjarðará í Hestfirði. Staðsetning virkjunar í Hestfirði. Fleiri staðsetningar koma til greina. Forathugun (um 450 GWh/a); Líklega fremur óhagkvæm.
Hvalá í Ófeigsfirði: Virkjun með veitum af Ófeigsfjarðarheiði. Miðlunarmöguleikar líklega. takmarkandi; heppileg til áfangaskiptingar. Rennslisorkustig (a.m.k. 300 GWh/a). Líklega fremur óhagkvæm.
Í þessum hópi eru virkjanir yfirleitt á láglendi eða við hálendisbrún og flestar mun minni en þær sem teknar voru fyrir innan rammaáætlunar.
Mat á stærð og hagkvæmni er því marki brennt að leitast er við að hámarka nýtni rennslisorkunnar fremur en að leita að hagkvæmustu tilhögun. Ennfremur verðu að hafa í huga að þeir staðir voru eingöngu teknir með þar sem rennslisorka virtist geta orðið u.þ.b. 100 GWh/a eða meira.
Grímsá úr Reyðarvatni: Lítil virkjun sem ekki ber mikla mannvirkjagerð, og er líklega fremur óhagkvæm. Rennslisorkustig (um 75 GWh/a) .
Virkjun Norðlingafljóts: Lítil virkjun sem ekki ber mikla mannvirkjagerð, og er nokkuð örugglega óhagkvæm. Rennslisorkustig (um 100 GWh/a).
Hvítá í Borg. Brúarreykir (Kljáfoss): Forathugun/frumhönnun (140 GWh/a); fremur hagkvæm.
Hvítá í Borg. Norðurreykir: Rennslisorkustig (um 100 GWh/a); líklega fremur hagkvæm.
Vatnsdalsá: Fremur lítil virkjun niður í Forsæludal. Rennslisorkustig (300 GWh/a), líklega óhagkvæm. Veita úr vesturkvíslum Vatnsdalsár (Álftaskálará og Bríká).
Virkjanir í Blönduveitu: Lítið fall og litlar og fremur óhagkvæmar virkjanir, verkhannaðar.
Blanda við Blönduós: Rennslisorkustig (um 250 GWh/a); líklega fremur hagkvæm.
Blanda í Blöndudal: Rennlisorkustig (um 120 GWh/a); hagkvæmni óviss.
Héraðsvötn: Virkjun frárennslis Villinganesvirkjunar með veitum að Stokkhólma. Forathugun (um 250 GWh/a), álíka hagkvæm og Villinganesvirkjun.
Virkjun úr Íshólsvatni: Virkjun með veitu úr Mjóadalsá og um 5 m hækkun á yfirfallshæð í vatninu gæfi 60-70 GWh/a orku. Fremur óhagkvæm.
Skjálfandafljót í Bárðardal og Kinn: Rennslisorkustig (allt að 900 GWh/a). Nokkur þrep. Nánast ókannað, og líklega fremur ólíklegt.
Hafralónsá og Sandá í Þistilfirði: Virkjanir með veitum frá nálægum ám í Þistilfirði. Rennlisorkustig. Nánast ókannað.
Virkjun Hofsár í Vopnafirði, með veitu af vatnasviði Selár og Vesturdalsár. Rennslisorkustig (600-700 GWh/a). Hagkvæmni er óviss.
Fjarðará í Seyðisfirði: Miðlun í Heiðarvatni og virkjun í fjarðarbotni frá inntakslóni á Efra-Staf (um 100 GWh/a). Leyfi hefur verið gefið fyrir um helmingi minni virkjun í tveimur þrepum.
Stækkun Lagarfossvirkjunar: Tengist veitum til Lagarfljóts vegna virkjunar Jökulsár á Dal. (um 100 GWh/a). Þessi virkjun er í byggingu.
Eystri Rangá: Virkjun í tveimur til þremur þrepum. Rennslisorka aðeins um 150 GWh/a, og virkjun er líklega ekki hagkvæm.
Ytri Rangá: Allt að fjögur þrep með 10-20 m falli í hverju. Rennslisorkustig (um 270 GWh/a); virkjun er líklega ekki hagkvæm.
Tungufljót við Faxa: Rennslisorkustig (100 GWh/a), líklega fremur óhagkvæm.
Stóra Laxá: Virkjun í tveimur þrepum, hinu efra frá lóni við Illaver og því neðra við bæinn Laxárdal. Rennslisorkustig (um 250 GWh/a). Lítið kannað.
Hvítá við Haukholt: Forathugun (350 GWh/a), óviss hagkvæmni.
Hvítá við Hestvatn: Forathugun (300 GWh/a), óhagkvæm.
Hvítá; lágfallsvirkjanir við Óra og Selfoss: Forathugun (hvor um sig allt að 200 GWh/a). óhagkvæmar?
Virkjun með veitu til Þjórsár: Orkustofnun hefur látið kanna lauslega að veita tilteknu vatni u.þ.b. frá Stóru Laxá yfir Skeiðin að fyrirhuguðu inntakslóni Urriðafossvirkjunar og bæta með því orkugetu þeirrar virkjunar, við byggingu hennar eða með stækkun síðar. Veita með 100 m3/s gefur um 300 GWh/a í virkjunarstæði Urriðafossvirkjunar. Slík veita kæmi í stað tveggja síðastnefndu virkjananna.
Brúará, Efstidalur: Rennslisvirkjun í göngum undir Efstadalsfjall. Forathugun (130 GWh/a); líklega fremur óhagkvæm.
Þarna eru allmargar virkjanir með samanlagða orkugetu tæplega 10.000 GWh/a. Flestar eru litlar og fremur óhagkvæmar eða óhagkvæmar. Ýmsar virkjanir njóta miðlana í efri hluta viðkomandi áa, svo sem virkjanir við Blönduós og í Blöndudal og Lagarfossvirkjun, og hagkvæmni ýmissa annarra kosta er háð því að áður verði virkjað ofar á vatnasviðinu, t.d. virkjanir í Héraðsvötnum, Skjálfandafljóti og Hvítá. Ef litið er yfir þennan lista er ljóst að það er mikil einföldun að halda því fram að umhverfisáhrif séu minni af virkjun á láglendi en á hálendi. Í fyrsta lagi er orkugeta og hagkvæmni oft háð virkjunum ofar á vatnasvæðinu, svo sem í fyrrnefndum dæmum. Í öðru lagi þarf oftar en ekki margar virkjanir á láglendi (lágfallsvirkjanir) til að ná sömu orkugetu og í einni háfallsvirkjun á hálendisbrúninni; jafnvel í sömu á. Í þriðja lagi eru oft miklir umhverfishagsmunir á láglendi, ekki síður en á hálendi, svo sem í Skjálfandafljóti og Neðri Hvítá, og hlunnindahagsmunir almennt meiri á láglendi en hálendi, svo sem í Rangánum. Þá má nefna útivistarhagsmuni, svo sem við Brúará, Tungufljót og Hvítá í Árnessýslu vegna nálægðar við frístundahúsasvæði