Starfsreglur Raforkueftirlits Orkustofnunar (ROE)

Inngangur

Í þriðju raforkutilskipuninni, tilskipun 2009/72/EB, um sameiginlegar reglur fyrir innri markað með raforku, sem innleidd hefur verið í íslensk lög með breytingu nr. 112/2019 á raforkulögum, er kveðið sérstaklega á um sjálfstæði eftirlitsaðila og að valdi sé beitt af óhlutdrægni og á gagnsæjan hátt. Þannig þurfa eftirlitsaðilar á sviði orkumála að geta tekið óháðar ákvarðanir í tengslum við öll viðeigandi mál. Þannig gerir tilskipun 2009/72/EB ekki einungis kröfu um að eftirlitsaðilinn sé sjálfstæður gagnvart raforkufyrirtækjum heldur einnig gagnvart stjórnvöldum sbr. 35. gr. tilskipunarinnar. 

Tilgangur þessa skjals er að lýsa starfsreglum sem Raforkueftirlit Orkustofnunar (hér eftir ROE) fylgir við ákvarðanatöku sína og á að tryggja sjálfstæði þess. 

Starfsreglur þessar koma því við viðbótar við þá kröfu sem gerð er um sjálfstæði eftirlitsaðila samkvæmt þriðju raforkutilskipuninni, auk ákvæða raforkulaga nr. 65/2003 sem færa ROE valdheimildir til að taka bindandi ákvarðanir á því sviði sem lögin ná til. Starfsreglurnar eru settar með stoð í 24. gr. raforkulaga nr. 65/2003.

Gildissvið

Starfsreglur þessar taka til alls starfsfólks ROE, þ.m.t. starfsmenn sem starfa tímabundið fyrir stofnunina sem og starfsnema. Reglurnar gilda einnig um ráðgjafa, verktaka og samstarfsaðila eftir því sem við á. Upplýsa skal þessa aðila um reglur þessar.

Skyldur og ferli við ákvarðanatöku

Skyldur og hlutverk ROE eru skilgreind í raforkulögum.

Orkumálastjóri er forsvarsmaður ROE og ber ábyrgð á starfsemi þess.

ROE er sjálfstætt í ákvarðanatöku. Ákvarðanir skulu endurspegla faglegt mat raforkueftirlitsins sem óháðs og sjálfstæðs eftirlitsstjórnvald.

Ráðherra getur ekki gefið bein eða óbein fyrirmæli um framkvæmd raforkueftirlits ROE.

Til þess að tryggja sjálfstæði ROE má starfsfólk ROE ekki undir neinum kringumstæðum láta bein tilmæli né þrýsting frá opinberum stofnunum eða aðilum á markaði hafa áhrif á undirbúning eða ákvarðanir. 

Ákvarðanir ROE eru kæranlegar til úrskurðarnefndar raforkumála og skulu úrskurðir nefndarinnar birtir á heimasíðu ROE.

Samstarf Raforkueftirlits Orkustofnunar og annarra eininga Orkustofnunar

ROE er heimilt að sækja skjöl, upplýsingar og sérfræðiþjónustu frá öðrum einingum Orkustofnunar. Í slíkum tilfellum sendir ROE skriflega beiðni með lýsingu á beiðninni/fyrirspurninni. Skrásetja skal bæði fyrirspurnina og afgreiðsluna í skjalakerfi ROE . Innsend gögn/skjöl skal skrá sem hluta af málinu.

Umfangsmikil samvinna raforkueftirlitsins og annarra eininga Orkustofnunar sem fer fram að frumkvæði ROE skal skilgreina sem afmörkuð verkefni. ROE gerir verkefnislýsingu og hefur umsjón með verkefninu. Bæði verkefnislýsingin og framvinduskýrslur skulu skjalfærðar.

ROE getur tekið þátt í samstarfsverkefnum sem verða til að frumkvæði annarra eininga Orkustofnunar.

Mál sem ROE kynnir opinberlega og snerta aðrar einingar Orkustofnunar skulu fyrst kynnt innan stofnunarinnar. Umsagnir skulu vera skriflegar og skjalfærðar á viðkomandi mál.

Starfsmönnum ROE er heimilt að taka þátt í alþjóðlegum verkefnum á vegum Orkustofnunar.

ROE hefur sjálft umsjón með lögfræðilegum málum. ROE getur nýtt ýmsa aðra þjónustu sem er í boði hjá Orkustofnun.

Stjórnun upplýsinga

Gerður skal skýr greinarmunur á skjölum og upplýsingastreymi á vegum ROE og á skjölum og upplýsingastreymi annarra eininga Orkustofnunar. 

ROE skal hafa sitt eigið svæði í skjalakerfi Orkustofnunar. Skjöl, gögn og upplýsingar skuli vistuð þar. Aðrir starfsmenn Orkustofnunar geta undir vissum kringumstæðum fengið aðgang að viðkomandi skjölum sé þess talið þörf til að styðja starfsemi ROE. Aðrar einingar Orkustofnunar skulu einnig fá aðgang að upplýsingum ROE í þeim tilvikum þegar þess er krafist í lögum eða reglugerðum.

Aðgangur að skjalasvæði ROE skal vera aðgangsstýrður. 

ROE hefur eigið svæði á heimasíðu Orkustofnunar þar sem birtar eru skýrslur, umsagnir og tilkynningar auk almenns upplýsingaefnis.

Samráðsferli

Raforkueftirlit Orkustofnunar getur sett leiðbeiningar raforkueftirlits í samráðsferli. Þá skal vera ljóst út á við að Raforkueftirlit Orkustofnunar heldur utan um samráðsferlið.

Umsagnir ROE í opinberu samráðsferli eru sendar í nafni ROE. Þá skal vera ljóst að um sé að ræða faglegt mat ROE sem sjálfstæðs eftirlitsaðila.

Samskipti

Öll samskipti skulu vera í nafni ROE. 

Eingöngu starfsmenn ROE og forsvarsmaður þess tjá sig opinberlega um málefni sem heyra undir það.