Raforkueftirlit

Hlutverk Orkustofnunar samkvæmt raforkulögum

Með raforkulögunum, sem komu til framkvæmda um mitt ár 2003, var Orkustofnun falið víðtækt umsjónarhlutverk í raforkumálum, einkum eftirlit með sérleyfisþáttum, þ.e. flutningi og dreifingu raforku.

Umsjónarhlutverki Orkustofnunar má skipta í eftirtalda þætti:

  • Almennt eftirlit með framkvæmd raforkulaga
  • Eftirlit með aðskilnaði rekstrarþátta í bókhaldi flutningsfyrirtækis og dreifiveitna
  • Setning tekjumarka
  • Eftirlit með gjaldskrám fyrir flutning og dreifingu raforku
  • Eftirlit með afhendingargæðum raforku
  • Sinna ábendingum notenda sem telja að raforkufyrirtækin hafi brotið á sér

Þegar ágreiningur kemur upp vegna framkvæmdar raforkulaga

Hver sá sem telur raforkufyrirtæki brjóta á rétti sínum með ákvörðunum, framkvæmdum eða athafnaleysi getur borið málið undir Orkustofnun. Að undangengnum lögmæltum undirbúningi og rannsókn máls tekur Orkustofnun stjórnvaldsákvörðun um hvort sú starfsemi fyrirtækis, sem málið lýtur að, sé í samræmi við lög. Ef starfsemin er ekki í samræmi við heimildir raforkulaga getur Orkustofnun krafist þess að úr verði bætt að viðlögðum dagsektum. Stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar í raforkumálum eru kæranlegar til úrskurðarnefndar raforkumála.

Fyrirhugað er að birta kærur og önnur ágreiningsmál, ákvarðanir Orkustofnunar og niðurstöður úrskurðarnefndar raforkumála hér á síðunni í framtíðinni.


Netfang vegna fyrirspurna:   raforkueftirlit@os.is