Leiðbeiningar vegna umsóknar um leyfi til að reisa og reka dreifikerfi

Samkvæmt 13. gr. raforkulaga (Opnast í nýjum vafraglugga) þarf leyfi Orkustofnunar til að reisa og reka dreifikerfi á tilteknu dreifiveitusvæði og til að hætta slíkum rekstri. Í leyfinu felst einkaréttur og skylda til dreifingar á viðkomandi svæði. Dreifiveita skal vera sjálfstæður skatt- og lögaðili og skal ávallt vera í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem eru alfarið í eigu þessara aðila.

Í sérleyfi samkvæmt til að reisa og reka dreifikerfi felst einkaréttur og skylda til dreifingar raforku á viðkomandi svæði. Sérleyfi samkvæmt má ekki framselja né setja til tryggingar fjárskuldbindingum nema með leyfi Orkustofnunar.

Í reglugerð um framkvæmd raforkulaga (Opnast í nýjum vafraglugga) er að finna leiðbeiningar varðandi umsóknir um leyfi til að reisa og reka dreifikerfi á tilteknu dreifiveitusvæði.

Umsókn um leyfi

Umsókn um leyfi til að reisa og reka dreifikerfi skal vera skrifleg og skulu fylgja henni eftirfarandi upplýsingar og gögn:

 1. Nafn, kennitala og heimili umsækjanda.
 2. Stofnefnahagsreikningur eða efnahags- og rekstrarreikningur næstliðins árs.
 3. Afmörkun starfssvæðis og lýsing á dreifikerfi.
 4. Áætlun um rekstur og uppbyggingu kerfisins til 3 ára.
 5. Samningur um tengingu við flutningskerfið.

Skilyrði sérleyfis

Dreifiveita skal uppfylla eftirfarandi skilyrði til að öðlast sérleyfi til dreifingar og halda þeim rétti:

 1. Dreifiveita skal vera sjálfstæður lög- og skattaðili.
 2. Dreifiveita skal geta sýnt fram á rekstrarhæfi á hverjum tíma og skal í því skyni vinna rekstraráætlun til 36 mánaða sem skal endurskoðuð árlega. Stjórn og framkvæmdastjórn dreifiveitu ber að tilkynna til Orkustofnunar ef upp kemur sú staða að fyrirsjáanlegt er að rekstrarhæfi dreifiveitu er ekki tryggt.
 3. Dreifikerfi skal tengjast flutningskerfinu. Orkustofnun getur þó veitt undanþágu frá þessu skilyrði við sérstakar aðstæður, svo sem ef um lítið einangrað svæði er að ræða.
 4. Kröfur sem gerðar eru til öryggis raforkuvirkja, gæða raforku og afhendingaröryggis á hverjum tíma skulu uppfylltar.
 5. Dreifiveita skal uppfylla skilyrði laga og stjórnvaldsfyrirmæla um umhverfisvernd sem í gildi eru á hverjum tíma.
 6. Dreifiveita skal fjarlægja mannvirki og búnað á eigin kostnað þegar notkun hans er hætt og fyrirsjáanlegt er að hann verður ekki notaður frekar. Orkustofnun getur þó að fengnu samþykki viðkomandi sveitarfélags heimilað að ekki þurfi að fjarlægja mannvirki og búnað.
 7. Önnur skilyrði sem leiða má af öðrum lögum en raforkulögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

Málsmeðferð og gjaldtaka

Leyfi skal veitt á grundvelli umsóknar sem skal metin á hlutlægan og gagnsæjan hátt. Áður en Orkustofnun veitir leyfi skal stofnunin leita umsagnar viðkomandi sveitarfélaga og skulu umsagnir berast innan tveggja mánaða frá því beiðni þar að lútandi var send.

Orkustofnun skal kynna umsókn um leyfi í Lögbirtingablaði þar sem þeim aðilum sem málið varðar er gefið færi á að kynna sér umsóknina og koma á framfæri sjónarmiðum sínum innan fjögurra vikna frá birtingu auglýsingar. Umsækjandi skal kosta birtingu slíkrar auglýsingar.

Orkustofnun skal á grundvelli framlagðra gagna, umsagna og athugasemda sem fram hafa komið meta hvort umsækjandi uppfylli skilyrði fyrir veitingu leyfis. Telji Orkustofnun svo ekki vera skal stofnunin synja um veitingu leyfis eða binda leyfið skilyrðum sem hún telur nauðsynleg í þessu sambandi. Synjun um veitingu leyfis skal rökstudd.

Ákvörðun Orkustofnun skal tekin innan tveggja mánaða frá því öll gögn hafa borist frá umsækjanda og allar umsagnir og athugasemdir liggja fyrir. Fyrir leyfið skal greiða 50.000 kr. auk 10 kr. fyrir hvern íbúa og skal gjaldið greitt við móttöku leyfis.

Ef leyfishafi fer ekki að skilyrðum raforkulaga, reglugerðar um framkvæmd raforkulagar eða skilyrðum leyfis, samningum sem tengjast því eða öðrum heimildum skal Orkustofnun veita honum skriflega aðvörun og hæfilegan frest til úrbóta. Ef leyfishafi sinnir ekki aðvörun Orkustofnun innan tilgreindra tímamarka getur stofnunin afturkallað leyfið eða breytt því. Ef um alvarleg brot eða vanrækslu er að ræða eða ljóst er að leyfishafi getur ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt leyfinu getur Orkustofnun þó afturkallað það án aðvörunar.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. raforkulaga sæta stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar samkvæmt lögunum kæru til iðnaðarráðherra. Kæra til ráðherra skal vera skrifleg og skal hún borin fram innan 30 daga frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.