Vatnsaflsvirkjanir - leyfi og skilyrði – staðan í árslok 2017

24/4/2018

Skýrsla þessi um vatnsaflsvirkjanir er tekin saman af Orkustofnun, í því skyni að safna á einn stað yfirliti yfir vatnsaflsvirkjanir á Íslandi, sem tengdar eru við flutnings- eða dreifikerfi raforku í landinu

Ríflega öld er liðin frá því að Íslendingar hófu virkjun vatnsafls til rafmagnsframleiðslu. Jóhannes J. Reykdal byggði fyrstu vatnsaflsvirkjun landsins árið 1904 (Helgi M. Sigurðsson, 2002) í því skyni að knýja vélar í trésmiðju sinni í Hafnarfirði. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, bæði í eiginlegri merkingu en ekki síður varðandi umfang framleiðslu, framkvæmdir tengdar vatnsaflsvirkjunum og stjórnsýslu hins opinbera.

Laxárstöð II (Ljósmynd: LV) 

Skýrsla þessi um vatnsaflsvirkjanir er tekin saman af Orkustofnun, í því skyni að safna á einn stað yfirliti yfir vatnsaflsvirkjanir á Íslandi sem tengdar eru við flutnings- eða dreifikerfi raforku í landinu og draga saman helstu ákvæði í virkjunarleyfum og sambærilegum heimildum til virkjunar vatnsfalla sem kalla á eftirlit af hendi Orkustofnunar. Auk skilyrða í virkjunarleyfum fer eftirlit stofnunarinnar eftir atvikum samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003, vatnalögum nr. 15/1923 og lögum um Orkustofnun nr. 87/2003 og þau eru á hverjum tíma. Í landinu er einnig talsverður fjöldi smærri vatnsaflsvirkjana sem ekki eru tengdar flutnings- eða dreifikerfi raforku en um þær verður ekki fjallað hér.

Vatnsaflsvirkjanir sem tengdar voru við flutnings- eða dreifikerfi raforku 31. desember 2017 voru samtals 67 og eru þær af ýmsum stærðum, allt frá því að vera undir 100 kW og upp í 690 MW. Auk þess gaf Orkustofnun úr leyfi á árinu 2017 fyrir 5 virkjanir sem tengjast munu kerfinu. Samtals eru því virkjanir sem fjallað er um í þessari skýrslu 72 og af þeim eru 46 með formlegt leyfi eða tæplega 64%. Af þeim virkjunum sem eru með virkjanaleyfi er í 10 tilvikum tilgreind skilyrði sem Orkustofnun hefur eftirlit með. 

Reiðhjallavirkjun (Ljósmynd: OV)

Elsta virkjunin sem tengd er kerfinu og framleiðir inná það í dag er virkjunin í Búðará sem starfrækt hefur verið síðan 1930. Nokkrar gamlar virkjanir eru ennþá tengdar kerfinu, þó að þær framleiði ekki raforku og má búast við því að þær verði lagðar niður á næstu árum.

Árið 2012 tók Orkustofnun við því hlutverki að gefa út virkjunarleyfi en fyrir þann tíma sá Iðnaðarráðuneytið um útgáfu leyfanna og enn fyrr, eða framan af síðustu öld, grundvölluðust leyfin á lögum. Fyrir sumar virkjanir finnast leyfisbréf ráðherra með vísan til viðeigandi laga en ekki hafa fundist formleg leyfi fyrir allar virkjanir. Í 2. kafla er stuttlega rakin þróun á stjórnsýslu og veitingu hins opinbera á leyfum og annars konar heimildum til framleiðslu raforku með virkjun vatnsfalla.

Leyfi þau sem Orkustofnun hefur gefið út frá árinu 2012 má finna á vef stofnunarinnar, en í 3. kafla þessarar skýrslu eru teknar saman helstu staðreyndir um allar virkjanir sem tengdar eru flutnings- eða dreifikerfi raforku í árslok 2017 auk tiltækra upplýsinga um virkjanir sem Orkustofnun veitti leyfi fyrir á árinu 2017 en höfðu ekki hafið framleiðslu í árslok.

Hér má sjá skýrsluna.