Smávirkjanaverkefni Orkustofnunar kynnt á sýningunni Íslenskur landbúnaður 2018, 12.-14. október í Laugardalshöll

11/10/2018

Í desember 2016 kynnti Orkustofnun fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hugmynd að smávirkjanaverkefni sem hefði það að markmiði að stuðla að aukinni raforkuframleiðslu á landsbyggðinni.

Hugmynd að verkefninu er til komin vegna alvarlegrar stöðu í raforkuöryggismálum landsins. Fáir álitlegir virkjunarkostir eru í nýtingarflokki í þeirri tillögu sem lögð hefur verið fram á Alþingi, auk þess sem erfiðlega gengur að gera endurbætur á flutningskerfi raforku. Kerfið eins og það er í dag getur ekki staðið undir frekari uppbyggingu á atvinnustarfsemi út um land.

Það er mat Orkustofnunar að nauðsynlegt sé að horfa til staðbundinna lausna og kanna hvaða smærri virkjunarkostir í vatnsafli eru í boði. Hugmyndinni var vel tekið og fékkst fjármagn til verkefnisins í ársbyrjun 2018. Smærri virkjanir geta orðið lyftistöng fyrir bæði bændur og aðra atvinnustarfsemi víða um land, auk þess sem þær geta stuðlað að auknu orkuöryggi í landinu.

Smávirkjanaverkefni  Orkustofnunar hefur það að markmiði að stuðla að aukinni raforkuframleiðslu sem víðast á landsbyggðinni og er verkefnið fjórþætt.

  1. Safnað er saman gagnlegum upplýsingum og þeim miðlað áfram
  2. Boðið er upp á að stilla upp frumhugmynd að vatnsaflsvirkjun
  3. Veittir eru styrkir til meistaraprófsverkefna á sviði smávirkjana
  4. Haldnir eru fundir og kynningar út um land                                                                           

Á vef stofnunarinnar á vefslóðinni: https://orkustofnun.is/raforka/smavirkjanir/gagnlegur-frodleikur/

Má finna margvíslegar gagnlegar upplýsingar og verður safnað í sarpinn á meðan verkefnið hefur fjármagn til þess. Ný skýrsla um borholur þar sem mögulega væri hægt að vinna raforku úr sjóðandi lághita er væntanleg um miðjan mánuðinn auk þess sem unnið er að framsetningu á hugmyndum að ýmsum virkjunarkostum í vatnsafli.

Þeir sem eru með hugmynd að vatnsaflsvirkjun geta óskað eftir því að Orkustofnun meti lágmarksrennsli fyrir virkjunina og stilli upp hugmynd að henni. Leiðbeiningar um hvernig slík umsókn er send inn um gátt stofnunarinnar er að finna á vefslóðinni: https://orkustofnun.is/raforka/smavirkjanir/leidbeiningar-um-vefgatt/

Veittir verða styrkir til meistaraprófsverkefna til að stuðla að því að til verði aðgengilegt efni fyrir þá sem hyggjast nýta landgæði til framleiðslu raforku í byggðum landsins. Viðfangsefni geta til dæmis tengst, litlum jarðvarmavirkjunum, áhrif dreifðrar raforkuframleiðslu á flutnings- og dreifikerfi raforku, áhrif á orkuöryggi, þróun raforkuverðs og áhrif á arðsemi smærri virkjana, líkan fyrir kostnað við uppbyggingu og rekstur á smærri virkjunum, áhrif upprunavottorða á aukna uppbyggingu smávirkjana, hvernig er hægt að stuðla að aukinni virkni raforkumarkaðar og þannig mætti lengi telja.

Orkustofnun hefur haldið fundi víða um land til að vekja athygli á verkefninu og mætir á fundi um tengd efni ef eftir því er óskað.

Upphaflega var verkefnið hugsað sem stuðningur við uppbyggingu á vatnsaflsvirkjunum eingöngu, en í millitíðinni hefur komið fram fyrirtækið Varmaorka sem undirbýr rekstur á jarðvarmavirkjun sem nýtir nýja tækni til framleiðslu raforku úr sjóðandi lághita. Fyrsta virkjunin verður væntanlega tekin í notkun í vetur á Flúðum og verður þessi nýja tækni kynnt í fyrirlestri á vegum stofnunarinnar á sýningunni Íslenskur landbúnaður 2018 .

Orkustofnun verður með bás á sýningunni og verða þar sérfræðingar frá stofnuninni, Landssamtökum raforkubænda og Varmaorku til viðtals, auk þess sem haldnir verða fyrirlestrar um smávirkjanir klukkan 13 laugardaginn 13. október.

Fyrirlestrarnir verða eftirfarandi:

        1.  Smávirkjanaverkefni Orkustofnunar, Erla Björk Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri hjá Orkustofnun,

        2.  Smávirkjanir nútímans, Birkir Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri AB fasteigna,   

        3.  Raforkuframleiðsla úr sjóðandi lághita, Ragnar Sær Ragnarsson, framkvæmdastjóri Varmaorku