Ferðastyrkir vegna verkefna á sviði endurnýjanlegrar orku í Rúmeníu

27/9/2018

Verið er að undirbúa kynningu á nýjum verkefnum Uppbyggingarsjóðsins í Rúmeníu fyrir árin 2014–2021, og af því tilefni hefur verið opnað fyrir ferðastyrki fyrir þá aðila sem ætla að finna samstarfsaðila í Rúmeníu vegna væntanlegra verkefna á tímabilinu 2014 – 2021. 

Frá árinu 2010 hefur Orkustofnun, að beiðni utanríkisráðuneytisins, haft aðkomu að og tekið þátt í orkuverkefnum Uppbyggingarsjóðs EES í nokkrum löndum Austur- og Suður-Evrópu og er starfið kostað af sjóðnum, sem stofnaður var á grundvelli  EES samningsins. Vinna Orkustofnunar hefur verið í formi aðstoðar við mótun, framkvæmd, útboð og eftirlit áætlana á sviði endurnýjanlegrar orku í viðkomandi löndum.

Þau verkefni sem fyrirtæki hafa unnið að á umliðnum árum í áætlun fyrir 2009–2014, hafa aðallega verið í formi aðstoðar við uppbyggingu á hitaveitum, aðstoðar við útboð verkefna, eftirliti með framkvæmd, þekkingaruppbyggingar með námskeiðum og auknum samskiptum og tengslum með heimsóknum hópa frá Íslandi til þessara landa og hópa frá löndunum hingað til lands.

Einnig hefur Orkustofnun í samvinnu við erlenda og innlenda aðila, unnið að tvíhliða verkefnum í formi úttektar og stefnumótunar í sjö borgum og bæjum í Rúmeníu, Póllandi og Króatíu, sem nýtast vel við undirbúning stærri fjárfestingar- og útboðsverkefna fyrir aðila á markaði. Skýrslur um þetta má sjá á vefsíðu Orkustofnunar, undir Uppbyggingarsjóður EES.

Nýtt tímabil Uppbyggingarsjóðs EES 2014–2021

Á umliðnum mánuðum hefur utanríkisráðuneytið og Orkustofnun unnið að undirbúningi fyrir nýtt tímabil Uppbyggingarsjóðs EES 2014–2021 er varðar endurnýjanlega orku, í samstafi við sambærilegar stofnanir í Noregi, viðkomandi lönd í Austur- og Suður- Evrópu og Uppbyggingarsjóð EES í Brussel. Megin markmið er að draga úr  losun gróðurhúsaloftegunda og auka orkuöryggi viðkomandi landa, með því að auka notkun endurnýjanlega orku, með sérstaka áherslu á jarðvarma og vatnsafl.

Ferðastyrkir vegna verkefna á sviði endurnýjanlegrar orku í Rúmeníu og kynningarráðstefna 24. október í Búkarest    

Verið er að undirbúa kynningu á nýjum verkefnum Uppbyggingarsjóðsins í Rúmeníu fyrir árin 2014–2021, og af því tilefni hefur verið opnað fyrir ferðastyrki fyrir þá aðila sem ætla að finna samstarfsaðila í Rúmeníu vegna væntanlegra verkefna á tímabilinu 2014 – 2021.         

Innovation Norway er umsjónaraðili verkefnisins í Rúmeníu (programme operator) og undirbýr og auglýsir ferðastyrki, útboð verkefna, heldur utan um greiðslur til þátttakenda og framkvæmd áætlunarinnar. Eitt af markmiðum Uppbyggingarsjóðs EES er að efla samvinnu og skapa tengsl milli ríkja Evrópu, sem um leið færir aðilum aukna þekkingu og kunnáttu til að vinna að samstafsverkefnum á ýmsu sviðum, en ferðastyrkir á sviði endurnýjanlegrar orku auðvelda slíkt samstarf.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um ferðastyrki til Rúmeníu fyrir fyrirtæki og einstaklinga frá Íslandi, Noregi og Lichtenstein, vegna verkefna á sviði endurnýjanlegrar orku.  Markmiðið er að koma á tengslum milli fyrirtækja og einstaklinga í þessum löndum fyrir komandi tímabil og undirbúa möguleg verkefni fyrir áætlunina.  

Orkustofnun vekur jafnframt athygli á því að þann 24. október 2018 verður haldinn sameiginlegur kynningarfundur í Búkarest (networking event). Þar verður lögð áhersla á að byggja upp tengsl milli fyrirtækja og aðila frá EFTA / EES löndunum og í Rúmeníu, sem hafa áhuga á að undirbúa verkefni og  umsóknir fyrir komandi áætlun. Mikilvægt er að þeir aðilar sem áhuga hafi kynni sér vel þessar upplýsingar sem fyrst.    

Sjá nánari upplýsingar um Rúmeníu á vefsíðu Orkustofnunar www.os.is  undir Uppbyggingarsjóður EES https://nea.is/eea-grant