Eru deilibílar hluti af framtíðinni í samgöngum?

15/2/2018

Kynning á fyrirbærinu „deilibíl“ á Orkustofnun, mánudaginn 26. febrúar kl. 11:45-13:00. Fyrsta erindi ársins í fyrirlestraröð Orkustofnunar og Grænu orkunnar um orkuskipti.

Árni Sigurjónsson hjá Zipcar heldur fyrirlestur á vegum Orkustofnunar, í samstarfi við Grænu orkuna - samstarfsvettvang um orkuskipti, í Orkugarði, Grensásvegi 9, mánudaginn 26. febrúar.

Salurinn opnar kl. 11:45 og verður boðið upp á léttar veitingar í upphafi fundar. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:00 og verður góður tími til umræðna að honum loknum.

Nauðsynlegt er að skrá sig á fundinn . 


Deilibíll - hvað er nú það? Er þetta fyrir mig?

Um er að ræða nýjan, spennandi möguleika í samgöngum sem hentar bæði fyrirtækjum og einstaklingum. Áskrifendur geta bókað og leigt bíl til skemmri tíma, frá 1 klst, og borga fyrir tímann sem bílarnir eru notaðir.

Nú er fyrsti deilirafbíllinn kominn á Grensásveginn, fyrir aftan Orkustofnun, og kostar leigan á honum það sama og leiga á bensínbílum Zipcar. Þar sem um deilibíl að ræða þá geta allir áskrifendur bókað rafbílinn og notað hann til að skreppa á fundi, fara í búðina, o.s.frv. eftir þörfum.