Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið staðfestir ákvörðun Orkustofnunar um að sekta Orku náttúrunnar ohf.

13/4/2018

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið staðfestir ákvörðun Orkustofnunar um að sekta Orku náttúrunnar ohf. vegna ólögmætar og saknæmrar háttsemi við tæmingu á lóni um botnloku á stíflu Andakílsárvirkjunar.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur með úrskurði sínum þann 4. apríl 2018, vegna stjórnvaldskæru Orku náttúrunnar ohf. til ráðuneytisins, staðfest þá ákvörðun Orkustofnunar að sekta Orku náttúrunnar ohf. um eina milljón króna vegna ólögmætar og saknæmrar háttsemi við tæmingu á lóni um botnloku á stíflu Andakílsárvirkjunar í maí 2017. 

Með úrskurði ráðuneytisins er fallist á málsátæður og lagarök Orkustofnunar í málinu. Að mati Orkustofnunar var umrædd framkvæmd háð leyfi bæði Orkustofnunar, samkvæmt ákvæðum vatnalaga og Fiskistofu, samkvæmt ákvæðum laga um lax- og silungsveiði. Leyfa var ekki aflað. Starfsmenn ON sýndu af sér verulegt gáleysi við tæmingu lónsins. Fram kom í ákvörðun Orkustofnunar að tjónþolar eigi sjálfstæða skaðabótakröfu vegna tjóns sem þeir kunna að hafa orðið fyrir við tæmingu lónsins við virkjunina.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.