Áherslur og reglur um úthlutun um styrki til jarðhitaleitar 2010

Megintilgangur átaksins er að stuðla að enn frekari nýtingu jarðvarma til húshitunar í landinu með það að markmiði,  að bæta búsetuskilyrði og auka aðgengi að þeim gæðum og möguleikum sem nýting jarðhita hefur í för með sér,  að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis til húshitunar en jafnframt að draga út kostnaði ríkissjóðs vegna niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar.    


Áherslur:

 • Áhersla verði lögð á jarðhitaleit í  byggðakjörnum sem njóta niðurgreiðslna á rafhitun og eða kynda með olíu. 
 • Áhersla verði lögð á jarðhitaleit þar sem vænta má mikilla útgjalda vegna viðhalds eða úrbóta á núverandi orkukerfi.
 • Áhersla verði lögð á að rannsóknum á hverju svæði verði lokið sem mest í einni lotu þar sem sýnt þykir að hitaveita er hagkvæmur kostur. Í því skyni verði gerðar jarðhitaleitaráætlanir til allt að 3ja ára í senn.

Reglur um úthlutun         

Styrkir verða veittir til almennrar jarðhitaleitar með hitastigulsborunum og jarðvísindalegum aðferðum gegn mótframlagi umsækjanda


 1. Styrkur er ætlaður til jarðhitaleitar á köldum svæðum, þ.e. svæðum þar sem jarðhiti er ekki þekktur á yfirborði eða hitastig í volgrum er lágt. Boranir skulu vera vel undirbúnar. Vandað skal til áætlanagerðar og verkið skipulagt og unnið í samræmi við ráðleggingar jarðvísindamanna. Sé sótt um styrk til borunar hitastigulshola er miðað við 50-100 m djúpar holur.
 2. Styrkir eru veittir til sveitarfélaga, orkufyrirtækja, annarra fyrirtækja og einstaklinga.
 3. Umsækjandi þarf að sýna fram á að hitaveita sé hagkvæmur kostur fyrir þann stað sem veitan er ætluð fyrir. Óskað er eftir að það sé gert á stuttan og skilmerkilegan hátt. Tekið verður mið af niðurstöðum vinnuhóps á vegum Orkuráðs um hagkvæmni nýrra hitaveitna og af niðurstöðum vinnuhóps á vegum iðnaðarráðherra um ávinning og aðgerðir stjórn- valda til að lækka kostnað við hitun íbúðarhúsnæðis frá núní 2007.
 4. Styrkir eru hvorki veittir til borana, né virkjunar jarðhita án undangenginna rannsókna.
 5. Styrkir eru einungis veittir til nýrra verkefna þ.m.t. nýrra áfanga í jarðhitaleit. Ekki er veittur styrkur fyrir þegar áföllnum kostnaði vegna eldri verkefna eða áfanga.
 6. Styrkupphæð er að jafnaði ekki hærri en 5 m.kr. og er miðað við að framlag umsækjanda sé a.m.k. 50% af heildarkostnaði við verkefnið.
 7. Greiðsla styrks fer fram í áföngum og er miðað við að fyrsta greiðsla sé við undirritun samnings um styrkveitinguna eða upphaf framkvæmda og aðrar greiðslur miðast við framvindu verksins, sem nánar er kveðið á um í samningi. Síðasta greiðsla fer fram þegar verki er lokið og lokaskýrslu um framkvæmd þess er skilað. Þá þurfa afrit allra gagna að hafa borist Orkustofnun, borskýrslur, uppdrættir, skýrslur, greinargerðir o.þ.h.
 8. Hafi styrkur ekki verið nýttur innan eins árs frá því að hann var veittur fellur hann sjálfkrafa niður. Styrkþegi getur óskað eftir lengri fresti.  Orkuráð leggur mat á rökstuðning styrkþega.  Heimilt er að framlengja gildistíma styrkveitingarinnar um allt að eitt ár í senn.