Niðurgreiðslur á raforku til gróðurhúsalýsingar

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, f.h. ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtök Íslands/Samband garðyrkjubænda gerðu með sér samning um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða skv. 30. gr. búvörulaga nr. 99/1993, með síðari breytingum. Samkvæmt 3. lið, 5.gr þessa samnings gegnir Orkustofnun því hlutverki að sjá um afgreiðslu umsókna er varða niðurgreiðslu á raforkunotkun til gróðurhúsalýsingar. Skilyrði fyrir niðurgreiðslu eru:

  1. Að orkukaupin séu vegna atvinnustarfsemi.
  2. Að niðurgreidd raforka sé sérmæld og fari einungis til lýsingar plantna í gróðurhúsi til að örva vöxt þeirra.
  3. Að framleiðslan sé ætluð til sölu.
  4. Að ársnotkun til lýsingar sé meiri en 100 MWh á ári.

Í 1. lið, 5. gr. samningsins er kveðið á um að framleiðendur garðyrkjuafurða skuli greiða öll fastagjöld og að lágmarki 5% af kostnaði við flutning og dreifingu raforku til gróðurhúsalýsingar. Þó getur hver framleiðandi ekki fengið hærri niðurgreiðslu en sem nemur 15% af þeirri heildarfjárhæð sem til ráðstöfunar er á viðkomandi rekstrarári (sjá 1. lið, 6. gr.).

Samkvæmt samningi frá 2005 milli Landbúnaðaráðuneytisins, Sambands garðyrkjubænda og dreifiveitnanna RARIK og Orkuveitu Reykjavíkur hefur Orkustofnun ákveðnar skyldur umfram það að hafa umsjón með niðurgreiðslum til garðyrkjubænda. Ber Orkustofnun skylda til að hafa eftirlit með liðum a. og c. (sjá ofar). Til þess að geta sinnt því hlutverki þurfa framleiðendur garðyrkjuafurða, sem hafa niðurgreiðslu, að skila árlega gagnaframtali til stofnunarinnar. Það þarf að gera í gegnum þjónustugátt Orkustofnunar og fá framleiðendur frekari upplýsingar um framkvæmd þess eftir að umsókn er samþykkt.

Gagnaframtal skal berast Orkustofnun árlega eigi síðar en 1. desember ár hvert.

Ofangreindar upplýsingar eru birtar með fyrirvara um mögulegar breytingar. Nú liggur fyrir vinna, í Landbúnaðarráðurneytinu, á breytingu á reglugerð um stuðning við garðyrkju og er vænt þess að nýja reglugerðin taki gildi 1. janúar 2017.

 Orkustofnun hefur allt að mánuð, frá því umsókn berst henni, til að afgreiða umsókn.

 Sækja um niðurgreiðslu á raforkunotkun til gróðurhúsalýsingar hér.

Til þess að geta sótt um þarf viðkomandi að framkvæma nýskráningu í upphafi.

Leiðbeiningar fyrir umsóknarferlið má nálgast hér.