Upplýsingastefna

Upplýsingastefnu Orkustofnunar er ætlað að stuðla að því að verkefnum verði komið í framkvæmd með sem skilvirkustum hætti þar sem ábyrgð, nákvæmni, gagnsæi og góð samskipti eru höfð að leiðarljósi.

Áherslur

  • Við starfsemi Orkustofnunar verði til faglegur og traustur upplýsingagrunnur um orkumál og nýtingu orkuauðlinda
  • Gögn sem Orkustofnun hefur látið vinna og greitt hefur verið fyrir með opinberu fé verði opin öðrum
  • Upplýsingar séu settar fram á skýran og auðskiljanlegan hátt og gerðar aðgengilegar fyrir notendur bæði innanlands sem utan
  • Nýta skal rafrænar leiðir og veflausnir við gagnaöflun og upplýsingamiðlun
  • Ákvarðanir, leyfisveitingar og upplýsingar um ný gögn innan fagsviða Orkustofnunar skulu birtar á vefnum um leið og þær liggja fyrir
  •  Ný lög og reglugerðir á sviði orkumála skulu birtar og kynntar sérstaklega
  • Varðveisla gagna, heimilda og annarra upplýsinga um orkumál sé skipuleg og örugg
  • Starfsmenn hafi greiðan aðgang að upplýsingum innan stofnunarinnar til að geta unnið að verkefnum á sem skilvirkastan hátt og miðlað þekkingu áfram
  • Leitast skal við að auka skilning á orkumálum og skapa traust milli almennings, sérfræðinga, fjölmiðla og stjórnvalda

Ábyrgð

Orkumálastjóri eða staðgenglar hans koma fram fyrir hönd stofnunarinnar útá við og eru almennt ábyrgir fyrir svörum við fyrirspurnum sem henni berast.

Um hlutverk Orkustofnunar

Orkustofnun fer með stjórnsýslu í orkumálum og aflar þekkingar á orkulindum og öðrum jarðrænum auðlindum á Íslandi. Stofnunin stendur fyrir rannsóknum, safnar gögnum og annast stjórnsýslu sem henni er falin með lögum. Orkustofnun fer með leyfisveitingar og eftirlit vegna rannsókna og nýtingar á auðlindum og í orkuvinnslu. Á vegum stofnunarinnar er unnið að áætlanagerð til langs tíma um orkubúskap þjóðarinnar.

Guðni A. Jóhannesson
Orkumálastjóri
1. júlí 2013