Umhverfis- og loftslagsstefna Orkustofnunar

Framtíðarsýn

Árið 2030 er Orkustofnun til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum og hefur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi stofnunarinnar um 40% miðað við árið 2019. Stofnunin hvetur til aðgerða í loftslagsmálum með því að stuðla að ábyrgri og upplýstri stjórnsýslu um orkumál og þeim áhrifum sem losunin hefur í för með sér. Orkustofnun leggur áfram sitt af mörkum til að markmiðum um loftslagsmál í lögum og stefnu stjórnvalda sé náð og tekur virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Markmið

Fram til 2030 mun Orkustofnun draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um samtals 40% miðað við árið 2019. Orkustofnun mun jafnframt kolefnisjafna alla eftirstandandi losun með kaupum á vottuðum kolefniseiningum frá og með árinu 2022. Stofnun mun einnig draga úr úrgangsmyndun um 3% árlega.

Umfang og aðgerðir

Umhverfis- og loftslagsstefnan tekur til umhverfisáhrifa af rekstri stofnunarinnar auk áherslna í starfi hennar að orkumálum í samræmi við áherslur laga, reglugerða og stefnu stjórnvalda.

Orkustofnun mun fyrst og fremst leggja áherslu á að draga úr losun í rekstri vegna eftirfarandi þátta starfsemi sinnar:

  • Losun gróðurhúsalofttegunda vegna flugferða starfsólks innanlands
  • Losun gróðurhúsalofttegunda vegna flugferða starfsfólks erlendis
  • Losun gróðurhúsalofttegunda vegna aksturs á bílaleigu- og leigubílum
  • Fjölda starfsfólks með samgöngusamninga
  • Rafmagns- og heitavatnsnotkun
  • Úrgangi sem fellur til
  • Innkaupum, plast og pappírsnotkun

Jafnframt mun Orkustofnun leggja sitt af mörkum til umhverfis- og loftslagsmála í víðara samhengi með eftirfarandi aðgerðum:

  • Orkusjóði þar sem verkefni til orkuskipta og loftslagsmála eru styrkt
  • Samstarfi við systurstofnanir, vísindasamfélagið og aðra aðila um vitundarvakningu og aðgerðir í loftslagsmálum
  • Fræðslu um umhverfis-, orku- og loftslagsmál innanlands og erlendis

Áherslur

Rekstur

Við einsetjum okkur að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum og úrgangi. Bein losun sem fellur til vegna rekstrar stofnunarinnar er kolefnisjöfnuð.

Við höldum myndun úrgangs í lágmarki. Við vinnum jafnt og þétt að því að draga úr pappírsnotkun og að plastnotkun sé í lágmarki. Sá úrgangur sem til fellur er flokkaður í viðeigandi úrgangsflokka.

Við viljum fjölga í hópi starfsfólks sem notar vistvæna ferðamáta til og frá vinnu og nýtir sér samgöngusamning. Starfsfólki býðst rafbíll vegna ferða á vinnutíma. Orkustofnun hvetur til skjáfunda til að draga úr flug- og ökuferðum.

Við miðlum upplýsingum og fróðleik um grænan lífsstíl og umhverfisvernd innan stofnunarinnar með því að taka þátt í viðburðum eins og nýtnivikunni, hjólað í vinnuna og sambærilegum viðburðum.

Við innkaup tökum við mið af stefnu ríkisins um vistvæn innkaup. Umhverfismerktar vörur og þjónusta eru valdar umfram aðrar.

Stjórnsýsla

Í ráðgjöf og í leyfisveitingum á vegum stofnunarinnar leggjum við áherslu á sjálfbæra og ábyrga nýtingu auðlinda, að gætt sé að náttúruvernd við auðlindanýtingu og umhverfisáhrif séu lágmörkuð.

Við vinnum að þróun rafrænnar stjórnsýslu við leyfisveitingar, eftirlit og miðlun á vegum stofnunarinnar.

Stefnumótun

Orkustofnun starfar í þágu samfélagsins og í takt við orkustefnu Íslands sem grundvallast á markmiðum um sjálfbæra þróun og í átt að kolefnishlutleysi. Hlutverk hennar er að skapa skýra umgjörð um orkumál, stuðla að nýsköpun og upplýstri umræðu og að veita stjórnvöldum faglega ráðgjöf í þágu almannaheilla.

Miðlun

Við miðlun upplýsinga og fagþekkingar leggjum við áherslu á aðferðir og faglega nálgun sem miðar að skilvirku samráði leyfishafa og eftirlitsþega stofnunarinnar.

Við kappkostum að hafa viðburði og útgáfu efnis á okkar vegum með vistvænum hætti og hvetjum þátttakendur til þess að nýta sér vistvæna ferðamáta á viðburði á vegum stofnunarinnar. Við leggjum áherslu á rafræna miðlun fyrir viðskiptavini og almenning. Við höldum grænt bókhald og birtum lykiltölur sem snúa að grænum rekstri.

Framfylgd

Orkustofnun gerir aðgerðaráætlun til þriggja ára um framfylgd umhverfis- og loftslagsstefnunnar.

Orkumálastjóri ber ábyrgð á stefnunni og felur umhverfisteymi stofnunarinnar framkvæmd hennar. Stefnan er rýnd árlega og yfirmarkmið og undirmarkmið uppfærð með tilliti til þróunar í losun GHL á milli ára. Stefnan er samþykkt af yfirstjórn og upplýsingum um árangur aðgerða er miðlað til starfsfólks og á heimasíðu Orkustofnunnar.

Orkustofnun skilar árlega grænu bókhaldi til Umhverfisstofnunnar og birtir árangur og aðgerðaráætlun á heimasíðu sinni.

Samþykkt í apríl 2022.