Starfsmannastefna Orkustofnunar

Markmið

Markmið Orkustofnunar er að hjá stofnuninni starfi fólk sem hefur hæfileika sem nýtast stofnuninni, er áhugasamt og tilbúið að miðla þekkingu sinni. Orkustofnun leggur áherslu á traust og heiðarleika og vill að starfsmenn séu sjálfstæðir, tilbúnir til að sýna frumkvæði og taka ábyrgð. Orkustofnun telur að til að ná þessum markmiðum sé m.a. mikilvægt að starfsmenn séu metnir á grundvelli einstaklingsbundinna hæfileika. Að lokum er mikilvægt vegna hlutverks stofnunarinnar að starfsmenn hafi vilja og getu til að vinna í hópum, sem eru skipaðir starfsmönnum sem hafa mismunandi sérþekkingu.

Orkustofnun vill laða til sín úrvals starfsfólk með því að:

  • Veita starfsmönnum færi á að axla ábyrgð og taka þátt í mótun verkefna
  • Veita starfsmönnum tækifæri á að eflast og þróast í starfi
  • Stuðla að jafnrétti meðal starfsmanna
  • Tryggja starfsöryggi eins og kostur er
  • Tryggja starfsmönnum góða vinnuaðstöðu og leggja kapp á að aðbúnaður, hollustuhættir og starfsaðstæður séu í samræmi við þarfir
  • Auðvelda starfsmönnum að samræma fjölskylduábyrgð og starf

Ráðningar, starfslýsingar og kjör

Orkustofnun auglýsir laus störf í samræmi við lög. Nákvæm skilgreining á starfinu liggur ávallt fyrir áður en starf er auglýst og þar með talið hvaða hæfniskröfur skulu liggja til grundvallar. Við mat á umsóknum er þess gætt að leita sérfræðiaðstoðar sé þess talin þörf.

Orkustofnun hefur að markmiði að ráða hæfa starfsmenn til starfa sem eru í stakk búnir að leysa þau verkefni sem þeim er ætlað og leggur mikið upp úr að launakjör séu sanngjörn og að jafnréttissjónarmiða sé gætt.

Vinnuaðstæður

Orkustofnun kappkostar að búa starfsmönnum sínum heilsusamlegt og gott umhverfi og skapa þar með vinnuaðstæður sem stuðla að velferð og árangri í starfi. Stofnun hefur að markmiði að fullnægja kröfum um öryggi, hollustu og vinnuvernd. Starfsmenn eru hvattir til að hreyfa sig og eiga möguleika á að fá líkamsræktarstyrk. Starfsmenn hafa aðgang að mötuneyti sem er hagkvæmt og vistlegt. Það er bæði í höndum starfsmanna og stofnunarinnar að leggja sitt af mörkum til að skapa gott félagslegt starfsumhverfi.

Fræðsla, endurmenntun og starfsþróun

Orkustofnun er meðvituð um að viðfangsefni starfsmanna eru breytileg og starfsmönnum er nauðsynlegt að búa sig undir að leysa ný viðfangsefni. Þetta er m.a. gert með því að yfirmenn og starfsmenn meta þörfina, í árlegum starfsmannasamtölum, fyrir að starfsmenn afli sér fræðslu og menntunar.

Orkustofnun tekur þátt í og greiðir kostnað vegna viðbótar- og endurmenntunar eins og við á hverju sinni samkvæmt stefnu stofnunarinnar. Það er jafnt á ábyrgð starfsmanna og stjórnenda að tryggja að starfs- og endurmenntun sé sinnt sem skyldi.

Jafnrétti

Orkustofnun hefur samþykkt jafnréttisáætlun og er því meðvituð um að gæta jafnræðis við alla ákvarðanatöku sem að starfsmönnum snýr, þ.m.t. ákvarðanir um ráðningar, kjaramál og endurmenntun og starfsþróun.

Samræming fjölskylduábyrgðar og starfs

Orkustofnun leitast við að skapa starfsmönnum aðstæður til að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu sinni. Starfsmenn eiga kost á sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri hagræðingu eftir því sem aðstæður leyfa. Stofnunin vill sporna gegn óhóflegu vinnuálagi og tryggja að starfsmenn fái nægjanlega hvíld. Konum og körlum er gert kleift að minnka við sig vinnu tímabundið til að sinna fjölskylduábyrgð svo sem umönnum barna eða annarra fjölskyldumeðlima.

Starfsmannaskipulag

Skipurit stofnunar er einfaldað þannig að verkefnaskipulag hvers starfsmanns sé skýrt og aðgengilegt. Starfslýsingar skulu vera greinagóðar og ábyrgðarsvið skulu afmörkuð. Með þessu móti er auðveldara að skipuleggja störf í samræmi við einstaklingsbundnar þarfir starfsmanna.

Móttaka nýliða

Orkustofnun leggur áherslu á að taka vel á móti nýjum starfsmönnum og að þeim líði vel í starfi frá byrjun. Nýir starfsmenn eru fræddir um starfsemi stofnunarinnar og þann hluta starfseminnar sem lýtur sérstaklega að starfssviði þeirra og um réttindi sín og skyldur. Starfsmannastjóri er ábyrgur fyrir því að nýjum starfsmanni sé veitt slík fræðsla. Lögð er áhersla á að starfsmenn fái strax nægilega þjálfun til þess að takast á við starfið og að starfslýsingar séu til staðar þannig að starfsmaðurinn geri sér grein fyrir hlutverki sínu og ábyrgð.

Upplýsingaflæði

Orkustofnun leggur kapp á öflugt og markvisst upplýsingaflæði til starfsmanna. Til þess er innra net stofnunarinnar notað, tölvupóstur og aðrir miðlar sem hæfa best hverju sinni. Almennir starfsmannafundir eru haldnir tvisvar á ári.

Starfslok

Við starfslok skal starfsmanni gert kleift að ganga sómasamlega frá sínum málum. Starfsmannastjóri og skjalastjóri skulu hafðir með í ráðum varðandi frágang.

Guðni A. Jóhannesson
Orkumálastjóri
Reykjavík, 13. júlí 2011