Samgöngustefna Orkustofnunar
Orkustofnun er leiðandi afl í þjóðfélaginu varðandi orkuskipti í samgöngum. Í því hlutverki ber stofnuninni að sýna gott fordæmi og setur því eftirfarandi samgöngustefnu með það að leiðarljósi að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum.
- Starfsmenn sem skuldbinda sig til að ferðast á vistvænan hátt til og frá vinnu eiga rétt á samgöngustyrk frá stofnuninni. Með vistvænum samgöngum er átt við allan ferðamáta annan en að ferðast til og frá vinnu á einkabíl, svo sem að ganga, hjóla eða ferðast með strætisvögnum.
- Starfsfólk Orkustofnunar skal, þegar kostur er, nýta almenningssamgöngur á vinnutíma á kostnað stofnunarinnar og leitast við að hjóla eða ganga styttri vegalengdir nema sérstakar aðstæður kalli á annað.
- Leitast verður við að draga úr ónauðsynlegum ferðum með hjálp upplýsingatækni og aukinni samnýtingu ferða.
- Orkustofnun tryggir góða aðstöðu fyrir reiðhjól fyrir starfsfólk og gesti stofnunarinnar.
- Fyrir það starfsfólk sem að jafnaði notar vistvænan samgöngumáta greiðir stofnunin leigubílakostnað þegar nauðsyn ber til á vinnutíma, t.d. vegna veikinda og/eða slysa.
- Til að auðvelda starfsmönnum að nýta sér vistvæna ferðamáta til og frá vinnu mun Orkustofnun sjá um farkosti vegna ferða starfsmanna á vinnutíma, s.s. með rafhjólum, deilibílum, bílaleigubílum eða leigubílum.
- Þegar leigðar eru bifreiðar, deili-, bílaleigu- eða leigubílar, skal ávallt leitað þjónustu fyrirtækja sem bjóða upp á bifreiðar knúnar endurnýjanlegum orkugjöfum og/eða bifreiðum með útblástursgildi undir 100 g CO2/km. Ávallt skal óskað eftir slíkum bifreiðum nema sérstakar aðstæður kalli á stærri bifreiðar.
- Stefna Orkustofnunar er að reka ekki eigin bifreiðar.
- Starfsmenn skulu ávallt á vinnutíma og í ferðum á vegum stofnunarinnar gæta fyllsta öryggis við val á samgöngutækjum og fylgja lögum og almennum reglum við notkun þeirra.
15. desember 2017
Guðni A. Jóhannessonorkumálastjóri