Jafnréttisáætlun Orkustofnunar

Jafnréttisáætlun Orkustofnunar byggir á lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Markmið

Að allir starfsmenn hafi sömu tækifæri og sambærileg réttindi, óháð kynferði, þjóðerni, stöðu og högum. Þannig verði allir metnir á grundvelli einstaklingsbundinna eiginleika. Þetta skal gilda um rétt til starfa, aðstöðu, endurmenntun og kjör fyrir sambærileg störf. Svo og að enginn verði fyrir misrétti af neinu tagi.

Orkustofnun stefnir að þessu markmiði með eftirfarandi aðgerðum:

  • Með því að gæta jafnréttis við ákvarðanatökur sem snúa að starfsfólki.
  • Að konum og körlum sé gert kleift að samræma atvinnu og fjölskyldulíf. Þetta skal gert með sveigjanlegum vinnutíma og með því að kynna starfsmönnum reglur um fæðingarorlof og tryggja að þeir geti samræmt vinnuna og sínar þarfir.
  • Með skipulagningu atburða sem starfsmenn geti sótt er unnið að því að auka samstöðu á meðal starfsmanna, og að þess sé gætt að þeir höfði til beggja kynja og allra aldurshópa.
  • Með því að gæta þess að starfsfólk lendi ekki utan hópsins og að tryggja að enginn verði fyrir einelti af hópnum.
  • Að brýna fyrir starfsmönnum að hvorki einelti né kynferðisleg áreitni verði liðin og eru starfsmenn upplýstir um það hvernig þeir eigi að bregðast við verði þeir fyrir slíku
Með því að auglýsingar séu hlutlausar á kyn nema þegar ætlunin er að ráða frekar annað kynið til að jafna kynjaskiptingu og er það þá tekið fram í auglýsingu.

Ráðningar

Orkustofnun mun, við auglýsingar  á lausum störfum á stofnuninni, hér eftir sem hingað til, vekja athygli á því markmiði stofnunarinnar að jafna hlut kynjanna.

Markmið Ábyrgð/starfsmenn Aðgerð, tími Kynning, eftirfylgni
Að jafna hlut kynjanna í störfum á stofnuninni. Orkumálastjóri/ starfsmannastjóri, jafnréttisfulltrúi.

Í auglýsingum eru störf ókyngreind og bæði kynin höfð í huga við gerð þeirra.

Árlega aflar jafnréttisfulltrúi upplýsinga um kynjahlutfall í störfum á stofnuninni. Jafnréttisfulltrúa skal einnig veittur aðgangur að yfirliti yfir auglýst störf, kyn umsækjenda og niðurstöður ráðninga.

Árlega kynnir jafnréttisfulltrúi kynjahlutfall starfsmanna stofnunarinnar og tekur við ábendingum frá starfsfólki um mögulegar aðgerðir til úrbóta og vinnur aðgerðaáætlun ef þörf er á.

Jafnréttisfulltrúi kynnir orkumálastjóra mögulegar úrbætur.

Kjaramál

Orkustofnun mun sjá til þess að laun og önnur starfskjör eða hlunnindi séu jöfn fyrir sömu eða sambærileg störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun feli ekki í sér kynjamismunun.

Markmið Ábyrgð/starfsmenn Aðgerð, tími Kynning, eftirfylgni
Karlar og konur njóti sömu kjara fyrir sambærileg og jafn verðmæt störf. Orkumálastjóri/ starfsmannastjóri, jafnréttisfulltrúi.

Athugun á hugsanlegum kynbundnum launamun og þörf til að innleiða jafnlaunavottun.

Undirbúningur að innleiðingu jafnlaunavottunar.

Niðurstöður undirbúnings kynntar öllu starfsfólki.

Árlega kynnir jafnréttisfulltrúi niðurstöður um launajafnrétti og tekur við ábendingum frá starfsfólki um mögulegar aðgerðir til úrbóta og vinnur úrbótatillögur.

Jafnréttisfulltrúi kynnir mögulegar úrbætur fyrir orkumálastjóra.

Endurmenntun

Það er markmið Orkustofnunar að hafa ávallt í sínu starfsliði hæfasta starfsfólkið á hverju sviði. Til að svo megi verða hvetur stofnunin starfsfólk til að afla sér endur- og símenntunar. Orkustofnun hvetur konur jafnt sem karla til að auka á þekkingu sína með þessum hætti. Þá leitast Orkustofnun við að láta starfsmenn vita af slíkum möguleikum, og jafnvel bjóða uppá ýmislega almenna fræðslu sem öllum gagnast t.d. um vellíðan á vinnustað, almenna fræðslu um starfsmannaréttindi o.fl.

Fjölskyldustefna

Orkustofnun hefur lagt mikla áherslu á að tryggja möguleika starfsfólks til að samræma starfskyldur þannig að þær samrýmist sem best þörfum fjölskyldunnar. Starfsmenn hafa sveigjanlegan vinnutíma, möguleiki er á því að vinna hlutastörf og stofnunin er opin fyrir fleiri möguleikum eftir því sem eðli starfs og aðstæður leyfa. Konum og körlum skal gert kleift að minnka við sig tímabundið til að sinna fjölskylduábyrgð t.d. vegna veikinda barna eða annarra fjölskyldumeðlima.

Gengið er út frá því að foreldrar ungbarna taki það fæðingarorlof sem þeir eiga rétt á og eru feður sérstaklega hvattir til að nýta sér sinn rétt til fæðingarorlofs. Karlar eru hvattir til að vera heima hjá veikum börnum til jafns við konur í samræmi við þá stefnu að allir starfsmenn njóti sömu réttinda óháð kyni.

Svo starfsmenn geti notið réttar sem að framan greinir skal m.a. auðveldað starfsfólki að koma aftur til starfa eftir fæðingar- eða foreldraorlof og eftir leyfi frá vinnu vegna óviðráðanlegra og nauðsynlegra fjölskylduaðstæðna.

Þá skulu starfsmenn minntir á að hvort foreldri um sig á rétt á launalausu foreldraorlofi þar til barnið nær 8 ára aldri skv. samkomulagi við vinnuveitanda.

Markmið Ábyrgð/starfsmenn Aðgerð, tími Kynning, eftirfylgni
Að konur og karlar geti samræmt starfsskyldur og fjölskyldulíf. Orkumálastjóri/ starfsmannastjóri, jafnréttisfulltrúi. Starfsmannastjóri kynnir rétt starfsfólks til sveigjanlegs vinnutíma, fæðingar- og foreldraorlofs. Starfsmannastjóri fylgist með hvort fjölskyldufólk er að nýta rétt sinn með eðlilegum hætti.

Vellíðan í starfi

Allir starfsmenn eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu og kynbundið ofbeldi, kynbundin eða kynferðisleg áreitni sbr. 22. gr. laga nr. 10/2008, einelti eða annað ofbeldi verður ekki liðið. Starfmaður sem verður fyrir einhvers konar misferli getur leitað til starfsmannastjóra sem leiðbeinir honum í slíkum málum og veitir nauðsynlega aðstoð. Einnig skal starfsmannastjóri fylgjast með og hlutast til um ef vísbendingar eru til misferlis. Þá eru aðrir starfsmenn hvattir til að láta vita af því ef þeir verða vitni af eða heyra af misferli gagnvart öðrum starfsmanni. Starfsmannastjóri skal taka við þeim upplýsingum sem honum berast með opnum hug.

Markmið Ábyrgð/starfsmenn Aðgerð, tími Kynning, eftirfylgni
Fylgst er með því hvort kynbundið ofbeldi, kynbundin eða kynferðisleg áreitni, einelti, annað ofbeldi eða mismunun af nokkru tagi eigi sér stað meðal starfsfólks Orkumálastjóri/ starfsmannastjóri, jafnréttisfulltrúi. Brugðist við ábendingum hið fyrsta eftir því sem efni standa til. Starfsmenn hafa samráð við orkumálastjóra um mögulegar almennar aðgerðir til úrbóta.

Kynning

Jafnréttisáætlun skal kynnt fyrir starfsmönnum stofnunarinnar. Nýjum starfsmönnum skal gerð grein fyrir efni áætlunarinnar. Jafnréttisáætlun skal vera á vef Orkustofnunar.

Endurskoðun

Fara skal yfir stöðu jafnréttismála hjá Orkustofnun og jafnréttisáætlun endurskoðuð þriðja hvert ár.

Ábyrgð

Ábyrgð á jafnréttismálum stofnunarinnar og framgangi þeirra er í höndum orkumálastjóra í samráði við starfsmannastjóra og jafnréttisfulltrúa stofnunarinnar.15. maí 2017,
Guðni A. Jóhannesson
orkumálastjóri