Jafnlaunastefna


Stefna Orkustofnunar í launamálum er að tryggja stofnuninni hæft starfsfólk í hvetjandi starfsumhverfi. Ákvarðanir í launamálum skulu teknar með málefnalegum hætti í samræmi við kjara- og stofnanasamninga við stéttarfélög starfsfólks. Launakerfið er gagnsætt og nægjanlegur sveigjanleiki í launamálum til að bregðast við breyttum ytri og innri aðstæðum.

Stefna stofnunarinnar er að laun, önnur starfskjör eða hlunnindi alls starfsfólks séu jöfn fyrir sömu eða jafnverðmæt störf til að tryggja þau réttindi sem kveðið er á um í 6. grein laga nr. 150/2020. Með jöfnum launum er átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir allt starfsfólk og að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun feli ekki í sér kynjamismunun. Störf skulu metin út frá þeim kröfum sem störf gera og greind.

Orkustofnun skuldbindur sig til að:

  • Skjalfesta, innleiða og viðhalda með eftirliti og stöðugum umbótum jafnlaunastjórnunarkerfi sem byggir á kröfum staðalsins ÍST 85 .
  • Fylgja viðeigandi lögum, reglum og kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma og staðfesta árlega hlítni við lög.
  • Framkvæma árlega launagreiningu og bregðast við óútskýrðum kynbundnum launamun sé hann til staðar. Kynna skal niðurstöður launagreiningar sem er til úttektar fyrir starfsfólki nema persónuverndarhagsmunir mæli gegn því.
  • Framkvæma innri úttekt á öllum útgefnum skjölum sem tilheyra jafnlaunastjórnunarkerfi eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.
  • Framkvæma rýni stjórnenda árlega þar sem jafnlaunamarkmið eru sett fram og rýnd.
  • Kynna stefnuna fyrir öllu starfsfólki árlega og birta á vefsíðu stofnunarinnar.

Jafnlaunastefna er jafnframt launastefna stofnunarinnar. Rekstrar- og starfsmannastjóri er fulltrúi jafnlaunastjórnunarkerfis og skal starfsfólk leita til hans með athugasemdir eða fyrirspurnir.