Jafnlaunastefna

Stefna Orkustofnunar í launamálum er að tryggja stofnuninni hæft starfsfólk í hvetjandi starfsumhverfi. Ákvarðanir í launamálum skulu teknar með málefnalegum hætti í samræmi við kjarasamninga og stofnanasamninga við stéttarfélög starfsmanna. Launakerfið sé gagnsætt og nægjanlegur sveigjanleiki í launamálum til að bregðast við breyttum ytri og innri aðstæðum. Kröfur til starfa byggja m.a. á hæfni s.s. menntun og starfsreynslu, ábyrgð og álagi. 

Stefna stofnunarinnar er að laun, önnur starfskjör eða hlunnindi alls starfsfólks séu jöfn fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun feli ekki í sér kynjamismunun eða aðra ómálefnalega mismunun.

Orkustofnun skuldbindur sig til að:

  •  Skjalfesta, innleiða og viðhalda jafnlaunakerfi sem byggir á kröfum staðalsins ÍST 85.
  • Sinna stöðugum umbótum, eftirliti og viðbrögðum innan skilgreinds umfangs jafnlaunakerfisins.
  • Fylgja viðeigandi lagalegum kröfum og öðrum kröfum sem stofnunin undirgengst varðandi meginregluna um að laun kvenna og karla skuli vera jöfn fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
  • Framkvæma árlega launagreiningu og bregðast við óútskýrðum launamun.
  • Framkvæma innri úttekt og halda rýni stjórnenda árlega þar sem jafnlaunamarkmið eru m.a. rýnd.