Græn skref

Orkustofnun hefur verið þátttakandi í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri frá árinu 2016. Innleiðing verkefnisins fór rólega af stað en settur var aukinn kraftur í verkefnið síðla árs 2021.

Græn skref í ríkisrekstri er verkefni fyrir opinbera aðila til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Með þátttöku í Grænum skrefum gefst stofnunum tækifæri á að innleiða öflugt umhverfisstarf með kerfisbundnum hætti með því að vinna eftir skýrum gátlistum sem skipt er upp í fimm skref. Hvert skref inniheldur á bilinu 20-40 aðgerðir sem stofnanir þurfa að innleiða í sinn rekstur og miða einkum að venjulegri skrifstofustarfsemi.

Aðgerðum Grænna skrefa er skipt í 7 flokka sem ná yfir helstu umhverfisþætti í venjulegum skrifstofurekstri. Skref 1-4 innihalda aðgerðir í öllum þessum flokkum en fimmta skrefið tekur á þeim aðgerðum sem þarf að innleiða til að byggja upp umhverfisstjórnunarkerfi hjá viðkomandi stofnun. Viðurkenning er veitt fyrir hvert skref sem ávinnst.

Nú þegar hefur Orkustofnun náð fyrsta skrefinu og er að vinna að öðru skrefinu auk þess sem stofnunin hefur sett sér metnaðarfulla umhverfis- og loftslagsstefnu. Samhliða þessu hefur Orkustofnun fengið silfur í Hjólavottun vinnustaða en öflug hjólreiðamenning er til staðar meðal starfsfólksins og góð aðstaða er fyrir reiðhjól á stofnuninni.

Orkustofnun skilar grænu bókhaldi til Umhverfisstofnunar árlega en þar eru teknar saman ýmsar tölulegar upplýsingar um innkaup á margvíslegri rekstrarvöru og þjónustu auk losunar vegna samgangna á vegum stofnunarinnar. Með því að færa grænt bókhald gefst stofnunum tækifæri til að fylgjast með þýðingarmestu umhverfisþáttunum í starfsemi sinni og um leið að leita tækifæra til hagræðingar.

Nánari upplýsingar um verkefnið Græn skref er hægt að finna á vefsíðu verkefnisins.