Saga Orkustofnunar

Fossanefnd

Stórhuga áform í virkjunarmálum í upphafi 20. aldar hlutu að kalla á viðbrögð stjórnvalda. Árið 1917 skipaði Alþingi milliþinganefnd, svokallaða Fossanefnd, og skilaði hún fróðlegum álitsgerðum og samdi mörg frumvörp til laga um vatnamál og virkjanir. Sett voru vatnalög 1923 og lög um vatnsorkusérleyfi 1925.

Árið 1929 hóf Jakob Gíslason störf í þágu ríkisins við áætlanagerð um raforkuver og rafmagnsveitur og 1930 er honum falið eftirlit með raforkuvirkjum um allt land, en ekki var um að ræða stöðugar eða reglubundnar opinberar rannsóknir á þessu sviði fyrr en 1932 að embætti vegamálastjóra var falið með sérstökum lögum að rannsaka hvaða vatnsföll væru hentugust til virkjunar í hverjum landshluta.

Rafmagnseftirlit ríkisins hóf síðan starfsemi 1933 á grundvelli laga um raforkuvirki frá 1932 og var Jakob forstöðumaður þess. Í því starfi fléttuðust hin eiginlegu eftirlitsstörf fljótt saman við að rannsaka aðstæður víðs vegar um land til að afla rafmagns, flytja það og dreifa því.

Raforkumálastjóri

jakobbjornssonUndir lok heimsstyrjaldarinnar síðari var ljóst orðið, að þörf var á nýrri heildstæðri raforkumálalöggjöf hér á landi. Slík löggjöf kom með raforkulögum nr. 12 frá 2. apríl 1946 og var Jakob Gíslason skipaður raforkumálastjóri. Með þessum lögum var í fyrsta skipti mörkuð heildarstefna í raforkumálum á Íslandi.

Einn veigamesti þáttur í rannsóknum á vatnsafli landsins er kerfisbundnar, samfelldar mælingar á rennsli fallvatna, svonefndar vatnamælingar. Árið 1947 var upphaf Vatnamælinga raforkumálastjóra, og síðar Orkustofnunar, en með þeim hófust samfelldar skipulegar mælingar á rennsli þeirra fallvatna sem álitlegust þóttu til virkjunar. Hafa þær staðið síðan.

Fyrsta mæling á vatnsrennsli í ám sem vitað er um að gerð hafi verið á Íslandi var gerð af norskum jarðfræðingi, prófessor Amund Helland sumarið 1881. Fyrsta mæling fyrir rafmagnsvirkjun var gerð í Elliðaánum 21. október 1894 af Sæmundi Eyjólfssyni. Ekkert varð þó af virkjun þeirra þá. Á fyrstu tveim áratugum 20. aldar mældu verkfræðingarnir Jón Þorláksson og Guðmundur Hlíðdal margar ár hér á landi fyrir útlend fossafélög, auk mælinga erlendra manna á vegum þessara félaga. Langoftast var þar um einstakar rennslismælingar að ræða, en engar samfelldar mælingar um langan tíma fóru fram.

Saemundur EyjólfssonAð tillögu Fossanefndarinnar 1918 fól ríkisstjórnin vegamálastjóra að annast vatnamælingar í helstu fallvötnum landsins. Hann setti sumarið 1918 upp vatnshæðarmæla við nálega 20 fallvötn. Fjárveitingar voru þó takmarkaðar. Álestrum á vatnshæðarmæla þessa var haldið áfram í nokkur ár, og strjálar rennslismælingar gerðar. Ýmsir þessir mælar eyðilögðust eða mælingar féllu niður um tíma, þannig að samfelldar rennslisraðir fengust ekki.

Sundurslitnar og strjálar vatnamælingar héldu áfram hjá vegamálastjóra allt til 1947 er raforkumálastjóri tók við þeim. Fjárveiting til þeirra var alltaf lág og féll niður með öllu 1938-1943. Á fjárlögum ársins 1944 var Rafmagnseftirliti ríkisins í fyrsta sinn veitt fé til vatnsrennslismælinga sem síðan færðist til embættis raforkumálastjóra þegar það var stofnað 1947.

Fyrstu rannsóknir raforkumálastjóra á vatnsafli, aðrar en vatnamælingar, beindust að því að finna vænlega virkjunarstaði til að sjá ýmsum hlutum landsins utan Suðvesturlands fyrir rafmagni, en Sogsvirkjuninni var ætlað að sjá um þann landshluta. Nokkrar undirbúningsrannsóknir fóru fram við Sogið á vegum Sogsvirkjunarinnar og einnig við Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu, á vegum Laxárvirkjunar.

Undir lok sjötta áratugarins stefndi í að Sogið yrði fullvirkjað, og velja þyrfti næsta virkjunarstað á Suðvesturlandi. Jukust þá mjög vatnsorkurannsóknir á vegum raforkumálstjóra, og komust í það horf sem þær hafa verið í lengst af síðan.

Nýting jarðhita

Nýting jarðhita hefst ekki að ráði fyrr en gömlu Sundlaugarnar í Laugardal eru byggðar 1910. Veruleg nýting hans hefst þó fyrst með borun holna við Þvottalaugarnar í Reykjavík árið 1928. Í kjölfar þessara borana var Hitaveita Reykjavíkur stofnsett. Þar stjórnaði rannsóknum dr. Þorkell Þorkelsson veðurstofustjóri en sérstök lög um jarðhita og jarðhitarannsóknir voru sett 1940 og 1943 og Rannsóknaráði ríkisins þá falið að annast þær. Fyrsta yfirlitskönnun á íslenskum jarðhita á tuttugustu öldinni var einmitt gerð á þess vegum á þessum árum og er enn til hennar vitnað í rannsóknaskýrslum.

Fljótlega eftir að stofnað var embætti raforkumálastjóra hófust stórauknar jarðhitarannsóknir. Var sérstakt ríkisfyrirtæki, Jarðboranir ríkisins, sett á laggirnar undir yfirstjórn raforkumálastjóra til að annast boranir eftir jarðhita. Hann átti og veigamikinn þátt í að ríkið og Reykjavíkurborg tóku höndum saman um að kaupa til landsins stóran jarðbor til að bora eftir gufu, en fram til þess hafði einkum verið borað eftir heitu vatni. Þessi bor kom til landsins 1958 og hét lengi vel einfaldlega ,,Gufuborinn", en var síðar nefndur Dofri þegar annar stærri gufubor kom til landsins 1975. Sá fékk nafnið Jötunn.

Jarðhitadeild Raforkumálaskrifstofunnar var sett á fót í byrjun árs 1956.

Orkulögin 1967

Um miðjan sjöunda áratuginn þótti tímabært að taka raforkulögin frá 1946 til endurskoðunar. Kom þar hvorttveggja til, að með stofnun Landsvirkjunar hafði breyst mjög sú stefnumörkun sem fólst í raforkulögunum, og svo hitt að hjá embætti raforkumálastjóra fór þá orðið fram mun veigameiri og víðfeðmari starfsemi en fjallað er um í þeim lögum. Hin nýju orkulög nr. 58/1967 tóku gildi 1. júlí 1967. Jakob Gíslason sat í nefnd þeirri sem endurskoðaði lögin og hafði þar veigamikil áhrif. Endurskoðuninni lauk 1966.

Í orkulögunum er fjallað bæði um vinnslu raforku og jarðhita; um rafveitur og hitaveitur og um jarðboranir. Sérstakur kafli er þar um Rafmagnsveitur ríkisins. Embætti raforkumálstjóra var lagt niður, en ný stofnun, Orkustofnun, tók við hlutverki embættisins, öðru en umsjón með rekstri Rafmagnsveitna ríkisins, sem voru gerðar að sjálfstæðri stofnun. Jakob Gíslason var skipaður orkumálastjóri um leið og lögin tóku gildi.

Í orkulögunum er Orkustofnun falið að hafa með höndum rekstur Jarðborana ríkisins og Jarðvarmaveitna ríkisins sem urðu til við stofnun Kísiliðjunnar við Mývatn, en bæði þessi fyrirtæki voru rekin sem svokölluð B-hluta fyrirtæki undir yfirstjórn Orkustofnunar uns Jarðboranir hf. voru stofnsettar í febrúar 1986 og Jarðvarmaveitur lagðar niður í árslok 1986. Þá var Rafmagnseftirlit ríkisins í umsjá orkumálastjóra allt til ársins 1979 en þá var það endanlega gert að sjálfstæðri stofnun.

Samkvæmt lögunum tók Orkusjóður við öllum eigum Raforkusjóðs og Jarðhitasjóðs

Aukin umsvif

Fljótlega eftir að Orkustofnun tók til starfa fór rannsóknarstarfsemi hennar að aukast mjög. Verkefnin voru flest tengd orkumálum, rannsóknir vegna vatnsaflsvirkjana og jarðhitarannsóknir fyrir hitaveitur og einstaklinga. Orsakirnar fyrir örum vexti voru margar en einkum vaxandi þýðing orkumála í nútíma samfélagi. Í fyrsta lagi kom til aukin nýting vatnsaflsins til raforkuframleiðslu til almennra nota og til stóriðju. Í öðru lagi var lögð mikil áhersla á aukna nýtingu jarðhita til hitunar vegna gífurlegra hækkana á olíuverði, og í þriðja lagi bein nýting jarðhita til iðnaðar. Jafnframt hefur stofnunin sinnt að verulegu leyti rannsóknum á hagnýtum jarðefnum og annast rannsóknir á köldu vatni til neyslu og atvinnurekstrar.

Í samræmi við þetta var stofnuninni skipt í tvær rannsóknardeildir, jarðhitadeild og raforkudeild, auk skrifstofu- og hagdeildar.

Árið 1971 var stofnuð ný rannsóknardeild á Orkustofnun, jarðkönnunardeild, og var henni ætlað að stunda rannsóknir vegna öflunar neysluvatns og hagnýtra jarðefna. Var orkulögunum breytt 1972 í samræmi við það. Þessi deild var sameinuð raforkudeild stofnunarinnar 1981 í nýja deild, vatnsorkudeild.

Á grundvelli laga sem Alþingi samþykkti vorið 1985 var fyrirtækið Orkustofnun erlendis hf. stofnað hinn 8. ágúst það ár. Tilgangurinn var sá að markaðsfæra erlendis þá þekkingu sem Orkustofnun ræður yfir á sviði nýtingar og rannsókna á jarðhita, vatnsorku og áætlunargerðar í orkumálum.
Stjórn OS
Samtímis lögunum um Orkustofnun erlendis hf. var samþykkt breyting á Orkulögum nr. 58/1967 þess efnis, að ráðherra skipi þrjá menn í stjórn Orkustofnunar til tveggja ára í senn. Áður voru ekki ákvæði í lögum um stjórn yfir Orkustofnun, en ráðherra hefur sett henni stjórn frá 1981.

Myndin til hliðar er af fyrstu stjórn Orkustofnunar. Egill Skúli Ingibergsson formaður fyrir miðju, Kristmundur Halldórsson annar frá vinstri og Sveinbjörn Björnsson lengst til hægri, ásamt orkumálastjóra Jakobi Björnssyni yst til vinstri, og ritara stjórnar Páli Hafstað.

Orkumálastjórar

Það skipulag sem hér hefur verið lýst gilti í aðalatriðum til ársloka 1996. Orkumálastjóraskipti urðu í ársbyrjun 1973 er Jakob Gíslason lét af störfum fyrir aldurs sakir en nafni hans Jakob Björnsson tók við. Hann gegndi embættinu í nær aldarfjórðung þar til Þorkell Helgason leysti hann af hólmi í september 1996. Þorkell gegndi embættinu til ársloka 2007 og í byrjun árs 2008 tók Guðni A. Jóhannesson við. Guðni lét af störfum á miðju ári 2021 og við tók Halla Hrund Logadóttir.

Landmælingar Orkustofnunar 

Landmælingar á vegum Raforkumálaskrifstofunnar hófust skömmu fyrir 1950. Þær héldu áfram sem hluti af starfsemi Orkustofnunar 1967. Landmælingastarfsemi Orkustofnunar var hætt og gögn varðandi starfsemina afhent Landmælingum Íslands 2003.

Nýskipan

Gagngerð breyting á skipulagi Orkustofnunar tók gildi í ársbyrjun 1997. Tilgangur skipulagsbreytinganna var að aðskilja ráðgjöf til stjórnvalda og stjórnun á opinberu fé til orkurannsókna frá framkvæmd rannsóknanna. Rannsóknirnar voru eftir það stundaðar í orkurannsóknarhluta stofnunarinnar sem aftur skiptist í tvær sjálfstæðar rekstrareiningar: Rannsóknasvið og Vatnamælingar.  Hinn hluti stofnunarinnar, orkumálahlutinn, skiptist á hinn bóginn í auðlindadeild og orkubúskapardeild, auk Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna

Þann 1. júlí 2003 var næsta skref stigið og Rannsóknasvið Orkustofnunar var alveg skilið frá og gert að nýrri stofnun, Íslenskum orkurannsóknum.   Lög um Orkustofnun og lög um Íslenskar orkurannsóknir voru samþykkt á Alþingi vorið 2003. Starfsemi Vatnamælinga Orkustofnunar varð sjálfstæð eining og fjárhagslega aðgreind frá annarri starfsemi stofnunarinnar. Með lögum um Veðurstofu Íslands nr. 70/2008 sameinuðust Veðurstofa Íslands og Vatnamælingar í nýrri stofnun.


Þann 1. janúar 2020, tengdist Jarðhitaskólinn , ásamt Sjávarútvegs-, Landgræðslu- og Jafnréttisskólunum Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, í gegnum GRÓ - Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu Íslands (International Centre for Capacity Development) en það er ný miðstöð sem sett hefur verið á stofn.

Jarðhitaskólinn var rekinn á Orkustofnun frá upphafi fram til ársins 2021.