Orkustofnun

Orkustofnun starfar í þágu samfélagsins og í takt við orkustefnu Íslands. Hlutverk hennar er að skapa skýra umgjörð um orkumál, stuðla að nýsköpun og upplýstri umræðu og að veita stjórnvöldum faglega ráðgjöf í þágu almannaheilla.

Stefna Orkustofnunar er að byggja upp þekkingu á fagsviðum stofnunarinnar svo sem á sviðum orkuvinnslu, orkunýtingar og loftslagsmála, stunda skilvirka og gagnsæja stjórnsýslu, sem og sjálfstætt vandað eftirlit. Orkustofnun leggur áherslu á að vera framsýn, traust og skilvirk stofnun.

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn  Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt  lögum um Orkustofnun og samkvæmt  reglugerð um Orkustofnun. Auk þess er kveðið á um hlutverk stofnunarinnar í öðrum lögum.


Hlutverk Orkustofnunar:

 

  • Orkustofnun fer með stjórnsýslu í orkumálum og aflar þekkingar á orkulindunum og öðrum jarðrænum auðlindum
  • Safnar gögnum og heldur gagnagrunn um orkulindir og aðrar jarðrænar auðlindir.
  • Stendur fyrir rannsóknum á orkulindum og öðrum jarðrænum auðlindum landsins og öðrum viðfangsefnum á sviði orkumála.
  • Vinnur að áætlanagerð til langs tíma um orkubúskap þjóðarinnar.
  • Er ríkisstjórn til ráðuneytis um orkumál og önnur auðlindamál.
  • Fer með leyfisveitingar vegna rannsókna og nýtingar á auðlindum og orkuvinnslu.
  • Annast stjórnsýslu sem stofnuninni er falin með lögum, svo sem auðlindalögum, vatnalögum, raforkulögum, lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins og lögum um kolvetni.
  • Annast eftirlit með framkvæmd raforkulaga, sérstaklega sérleyfishluta þeirra, flutningi og dreifingu raforku, sem og framangreindum sérlögum á sviði auðlindamála.
  • Fer með umsýslu Orkusjóðs, jarðhitaleitarátaks, niðurgreiðslna vegna húshitunar og sér um vettvang um vistvænt eldsneyti