Starfshættir raforkuhóps

Orkuspárnefnd setur raforkuhópi eftirfarandi markmið:

 1. Útbúa raforkuspá byggða á gögnum um raforkunotkun og upplýsingum um hagræna þætti sem orkuspárnefnd skilgreinir. Spárnar skulu liggja fyrir í nóvember ár hvert. Á 5-7 ára fresti skal farið ítarlega yfir allar forsendur og útbúin ítarleg skýrsla. Þess á milli skulu forsendur endurskoðaðar eftir þörfum og tekið saman yfirlit um endurreiknaða spá.
 2. Safna árlega saman og setja inn í gagnagrunn okuspárnefndar rauntölum um:
  - Raforkuvinnslu einstakra virkjana sem skal liggja fyrir í lok febrúar.
  - Úttekt út úr flutningskerfinu eftir afhendingarstöðum, veitusvæðum og tegund orku sem skal liggja fyrir í lok febrúar.
  - Raforkunotkun eftir notkunarflokkum, orkuspársvæðum og tegund orku sem skal liggja fyrir í lok mars.
  - Meðalafl hvers klukkutíma ársins fyrir allar virkjanir og alla úttekt út úr flutningskerfinu eftir afhendingarstöðum, veitusvæðum og tegund orku.
  Þessi gögn skulu liggja fyrir í lok apríl.
  Tímasetningar miða við að gögn frá veitufyrirtækjum liggi fyrir tímalega en ef svo er ekki getur úrvinnslu seinkað.
 3. Bera saman rauntölur síðasta árs við spár. Samanburður varðandi heildartölur skal liggja fyrir í lok febrúar en ítarlegri tölur í byrjun maí.
 4. Taka ársfjórðungslega saman heildartölur um raforkunotkun.
 5. Láta okuspárnefnd vita ef nýjar tölur benda til þess að nýjasta raforkuspá muni ekki standast nógu vel til að hægt sé að meta hvort þörf sé á að gera breytingar á spánni til að lagfæra hana.
 6. Birta allar niðurstöður hópsins á heimasíðu nefndarinnar ásamt gögnum í samræmi við verklag hópsins varðandi birtingu gagna.

Hugsanleg breyting á tímaramma er að miða við að spá sé endurreiknuð í júní ár hvert og byggi þá ekki á gögnum um almennar forsendur síðast árs heldur eldri gögnum. Almennu forsendurnar yrðu þá uppfærðar seinni hluta árs og lægju fyrir um áramót. Þetta mundi samræmast kröfum iðnaðarráðuneytis um að fá gögn inn í skýrslu til Alþingis í samræmi við raforkulög.

Verklag raforkuhóps orkuspárnefndar varðandi birtingu gagna frá orkufyrirtækjum

Gildir um gögn sem eiga við tímabil frá 1. janúar 2005

Raforkuhópur okupárnefndar fylgir eftirfarandi reglum varðandi birtingu gagna sem hann safnar saman frá orkuvinnslufyrirtækjum, Landsneti, dreifiveitum eða söluaðilum. Ítarlegri gögn liggja fyrir í mörgum tilvikum.

 1. Raforkuvinnsla: Upplýsingar um heildarvinnslu raforku eftir mánuðum og tegund virkjunar (vatnsafl, jarðvarmi og eldsneyti). Sama sundurgreining verður miðað við varðandi álag á virkjanir. Ekki verður því lengur birt sundurgreining niður á virkjanir eins og gert hefur verið í viðauka 1 og viðauka 5 í raforkuspá.
 2. Raforkusala: Upplýsingar um raforkusölu eftir notkunarflokkum verða birtar ýmist eftir dreifiveitusvæðum eða eftir landshlutum. Þessi gögn verða ekki birt eftir söluaðilum. Einnig verður birt heildarálag dreifiveitusvæðis og landshluta. Sjá viðauka 2, 3 og 5 í raforkuspá.
 3. Raforkuafhending inn á dreifikerfið: Birtar verða upplýsingar um innmötun inn á dreifikerfið eftir aðveitustöðvum í flutningskerfinu, bæði orkutölur og afltölur eins og gert hefur verið í viðaukum 4 og 5 í raforkuspá.
 4. Almenn notkun og stóriðja: Heildarnotkun stóriðju og almennrar notkunar verða birtar og heildarálag auk sundurgreiningar niður á forgangs- og ótryggða orku.

Hópurinn mun ekki láta af hendi gögn til þriðja aðila sem ekki uppfylla þessar kröfur nema með samþykki þess aðila sem gögnin eiga við.

Samþykkt af raforkuhópi okuspárnefndar 5. apríl 2005