Saga orkuspárnefndar

Haustið 1975 beitti Jakob Björnsson orkumálastjóri sér fyrir stofnun nefndar sem skyldi hafa það hlutverk að gera samræmdar raforkuspár fyrir einstaka landshluta og landið í heild og var nefndin kölluð orkuspárnefnd. Einnig hvatti Landsvirkjun til stofnunar nefndarinnar og vann Jóhann Már Maríusson að þessu máli fyrir þeirra hönd.

Fyrstu árin

Í upphafi voru fulltrúar frá eftirfarandi aðilum í nefndinni:

 • Orkustofnun
 • Landsvirkjun
 • Laxárvirkjun
 • Rafmagnsveitum ríkisins
 • Rafmagnsveitu Reykjavíkur
 • Sambandi íslenskra rafveitna

Fyrstu drög að raforkuspá lágu fyrir á árinu 1976 og síðan var fyrsta formlega spáin gefin út á árinu 1977. Ný spá kom síðan út ári seinna. Fyrir tilkomu orkuspárnefndar voru margir aðilar hér á landi að útbúa raforkuspár og voru þær oft gerðar út frá mismunandi forsendum. Þörf var því á að samræmingu á þessu sviði sem kom með stofnun nefndarinnar.

Fljótlega fór nefndin að huga að spám um aðra orkugjafa og var þá fyrst litið á orkunotkun við húshitun enda tengist sá þáttur mikið raforkuspánni. Spá um notkun olíu kom síðan út árið 1980. Fyrsta jarðvarmaspáin kom síðan út árið 1982. Skipan nefndarinnar var haldið óbreyttri þrátt fyrir þessa útvíkkun starfssviðsins.

Endurskipulagning nefndarinnar

Er nefndin hafði starfað í rúman áratug var ákveðið að horfa yfir farinn veg og endurskipuleggja nefndina í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hafði af starfinu. Starf nefndarinnar var orðið mun víðtækara en upphaflega var hugsað þar sem það náði nú til allra orkugjafa auk þess sem vægi hagstærða var orðið mikið við gerð spánna. Nýtt skipulag tók síðan gildi á árinu 1988. Skipaðir voru þrír hópar undir orkuspárnefnd til að fjalla um einstaka orkugjafa eða raforkuhópur, jarðvarmahópur og eldsneytishópur.


Hlutverk orkuspárnefndar er síðan að samræma störf hópana, taka saman almennar forsendur sem notaðar eru í öllum spánum og leggja meginlínurnar í starfinu. Ný orkuspárnefnd var skipuð fulltrúum frá eftirtöldum aðilum:

 • Hagstofu Íslands
 • Hitaveitu Reykjavíkur
 • Landsvirkjun
 • Orkustofnun
 • Rafmagnsveitu Reykjavíkur
 • Rafmagnsveitum ríkisins
 • Sambandi íslenskra hitaveitna
 • Sambandi íslenskra rafveitna
 • Þjóðhagsstofnun

Vægi raforkugeirans var áfram mikið í orkuspárnefnd en aukin áhersla er þó á jarðvarma og hagstærðir í nýju nefndinni. Í hópunum áttu síðan sæti fulltrúar frá fyrirtækjum í viðkomandi grein.

Breytingar í kjölfar nýrra raforkulaga

Þetta skipulag nefndarinnar hélst síðan næsta einn og hálfan áratug, þó með smávægilegum breytingum á skipan nefndarinnar, en þá var farið að huga að breytingum þar sem ný raforkulög voru að taka gildi. Á árinu 2004 var haldið málþing um störf nefndarinnar og koma þar fram að menn voru almennt ánægðir með störf hennar og töldu skipulagið hafa reynst vel. Ákveðið var því halda að  mestu óbreyttu skipulagi en þó var skipan orkuspárnefndar breytt þannig að meira jafnvægi væri milli einstakra þátta.

Eftirfarandir aðilar eiga nú fulltrúa í orkuspárnefnd:

 • Efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytis
 • Fasteignamat ríkisins
 • Hagstofu Íslands
 • Orkustofnun
 • Sérfræðingur í eldsneytismálum
 • Sérfræðingur í hitaveitumálum, Samorka
 • Sérfræðingur í raforkumálum, Samorka

Jafnframt var raforkuhópi breytt þannig að þar eiga sæti fulltrúar frá sérleyfisþáttum rafveitna en engir frá samkeppnisþáttum.

Orkuspárnefnd hefur alla tíð verið samstarfsvettvangur þeirra aðila sem taka þátt í starfinu og hefur hún því ekki verið formlega skipuð af stjórnvöldum. Starf hennar hefur verið opið og allar niðurstöður hafa undanfarin ár verið birtar á heimasíðu nefndarinnar auk þess sem allir hafa geta lesið fundargerðir nefndarinnar og hópanna þar. Nefndin hefur í starfi sínu reynt að gera sem raunhæfastar spár um notkunina en spárnar hafa ekki verið stefnumótunarskjal stjórnvalda hvað varðar óskir þeirra um þróun orkunotkunar eins og gert hefur verið hjá sumum nágrannaþjóðanna. Að flestra áliti hefur þetta sjálfstæði nefndarinnar verið mjög jákvætt. Orkustofnun hefur frá upphafi verið í forsvari fyrir nefndinni og kostað störf hennar að stórum hluta. Þegar raforkuhópur var stofnaður tóku þó rafveitur að sér rúman helming kostnaðarins af störfum þess hóps.