Frumorkunotkun

hengill_nesjavellirFrumorkunotkun á Íslandi

Notkun íslendinga á frumorku hefur vaxið stórum skrefum á undanförnum áratugum. Frumorkunotkun árið 2010 nam tæplega 750 GJ á hvern íbúa landsins sem er með því mesta sem þekkist í heiminum. Ástæður þess eru einkum hátt hlutfall stóriðju í raforkunotkun. Auk þess er hlutfallslega mikil raforkuvinnsla úr jarðhita, mikil orkunotkun við fiskveiðar og í samgöngum og meiri þörf á orku til húshitunar en víða annars staðar vegna veðurfars. Um 15% af frumorku sem notuð er í landinu er flutt inn, en 85% er innlend, endurnýjanleg orka. Hlutur hverrar orkutegundar í frumorkunni hefur breyst í tímanna rás og undir liðnum uppruni orku er sýnt hvernig notkunin hefur þróast frá árinu 1940.

Helstu orkutegundir

Helstu orkutegundir eru vatnsorka, jarðhiti, olía og kol. Fram undir miðja síðustu öld var mór notaður en vægi hans í frumorku var hverfandi. Kol voru stærstur hlutur frumorku fram yfir seinni heimsstyrjöld en kolanotkun fór síðan minnkandi vegna aukinnar olíunotkunar í síldarvinnslum og vaxandi nýtingu jarðhita til húshitunar. Notkun kola hefur síðan farið vaxandi frá lokum áttunda áratugar síðustu aldar, aðallega vegna notkunar járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga.

Stærstur hluti frumorku í dag er jarðhitinn og er hann stærri en hlutur hinna orkutegundanna samanlagður. Notkun jarðhita hefur aukist mjög hratt bæði á áttunda áratug síðustu aldar en einnig á síðusta áratug með aukinni nýtingu á jarðhita til raforkuvinnslu.

Útreikningur á frumorku

Að jafnaði er nauðsynlegt að umbreyta frumorku í form sem hentar betur til endanlegrar notkunar, eins og t.d. rafmagn. Við þessa umbreytingu tapast hluti orkunnar en einnig við flutning og dreifingu hennar. Þannig endar aðeins hluti af frumorkunni sem nýtanleg orka hjá notendum. Þegar frumorkunotkun er fundin út frá gögnum um nýtta orku eru notaðar staðlaðar reikniaðferðir sem ýmsar alþjóðastofnanir hafa sammælst um. Þegar raforka er framleidd með vatnsafli reiknast frumorkan jöfn raforkuvinnslunni. Frumorka jarðvarma er skilgreind sem sú orka sem losnar úr jarðhitavökva á leið hans úr upphafsástandi í viðmiðunarástand, sem er við 15°C og 1 bara.