Leiðbeiningar vegna umsóknar um leyfi til að stunda raforkuviðskipti.

Leyfi Orkustofnunar þarf til þess að stunda raforkuviðskipti. Slíkt leyfi felur hvorki í sér sérleyfi né önnur sérréttindi til handa leyfishafa.

Dreifiveita þarf ekki leyfi til að selja raforku á starfssvæði sínu en telst sölufyrirtæki með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja nema sérstaklega sé mælt fyrir um annað í raforkulögum eða reglugerð um framkvæmd raforkulaga. Leyfi til að stunda raforkuviðskipti má hvorki framselja né setja til tryggingar fjárskuldbindingum nema með leyfi Orkustofnunar.

Leyfi til að stunda raforkuviðskipti verður aðeins veitt sjálfstæðum lög- og skattaðila. Umsækjandi skal sýna fram á fjárhagslegan styrkleika til að efna skuldbindingar vegna starfseminnar. Sölufyrirtæki skal hafa eigið fé sem nemur að lágmarki kr. 15.000.000.

Sölufyrirtæki skal gera áætlun til 36 mánaða í senn um umfang orkusölu og hvernig það muni útvega raforku til þess að standa við orkusölusamninga. Slík áætlun skal fylgja umsókn um leyfi. Orkustofnun getur krafist þess að sölufyrirtæki setji fram tryggingu er taki mið af áætluðu umfangi orkusölu.

Leyfi skal veitt á grundvelli umsóknar sem skal metin á hlutlægan og gagnsæjan hátt. Orkustofnun skal á grundvelli framlagðra gagna meta hvort umsækjandi uppfylli skilyrði fyrir veitingu leyfis. Telji Orkustofnun svo ekki vera skal stofnunin synja um veitingu leyfis eða binda leyfið skilyrðum sem hún telur nauðsynleg í þessu sambandi. Synjun um veitingu leyfis skal rökstudd.

Fyrir leyfi til að stunda raforkuviðskipti skal greiða 50.000 kr. og skal gjaldið greitt við móttöku leyfis.

Ef leyfishafi fer ekki að skilyrðum raforkulaga, reglugerðar um framkvæmd raforkulaga, skilyrðum leyfisins eða öðrum heimildum skal Orkustofnun veita honum skriflega aðvörun og hæfilegan frest til úrbóta. Ef leyfishafi sinnir ekki aðvörun Orkustofnunar innan tilgreindra tímamarka getur stofnunin afturkallað leyfið eða breytt því. Ef um alvarleg brot eða vanrækslu er að ræða eða ljóst er að leyfishafi getur ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt leyfinu getur Orkustofnun þó afturkallað það án aðvörunar.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. raforkulaga sæta stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar samkvæmt lögunum kæru til iðnaðarráðherra. Kæra til ráðherra skal vera skrifleg og skal hún borin fram innan 30 daga frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.