Nýtingarleyfi leiðbeiningar

Umsókn um nýtingarleyfi

Umsóknareyðublað um nýtingarleyfi á jarðhita

Rammi nýtingarleyfis er skilgreindur í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1998 en þar segir eftirfarandi:

Nýtingarleyfi samkvæmt lögum þessum felur í sér heimild til handa leyfishafa til að vinna úr og nýta viðkomandi auðlind á leyfistímanum í því magni og með þeim skilmálum öðrum sem tilgreindir eru í lögum þessum og ráðherra telur nauðsynlega.

Þá segir í um nýtingarleyfi í 17. gr. laga nr. 57/1998 að við veitingu nýtingarleyfa skal þess gætt að nýting auðlinda í jörðu sé með þeim hætti að tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða, nýting auðlindanna sé hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og tekið sé tillit til nýtingar sem þegar er hafin í næsta nágrenni. Telji leyfisveitandi að umsækjandi um nýtingarleyfi uppfylli ekki þessar kröfur getur hann synjað um nýtingarleyfi eða sett sérstök skilyrði í nýtingarleyfi af þessu tilefni.

Um upplýsingar í umsóknum um nýtingarleyfi vísast til þess sem áður hefur komið fram varðandi umsóknir um rannsóknarleyfi, að breyttum breytanda. Til viðbótar skulu í umsókn koma fram upplýsingar um áætlaðan nýtingarhraða eða nýtingarmagn á þeirri auðlind sem sótt er um heimild til nýtingar á. Þá skal í umsókn getið um kaup vátrygginga, eða hvort slík trygging er til staðar, vegna hugsanlegrar skaðabótaábyrgðar leyfishafa.

Orkustofnun skal við leyfisveitinguna taka tillit til mats á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar og fullnaðarúrskurðar stjórnvalda þar um.

Ákvæði um upplýsinga- og tilkynningaskyldu leyfishafa

Þetta atriði tekur til þeirra þátta sem rakin eru í 21, 22 og 23 gr. laga nr. 57/1998.  Orkustofnun er eftirlitsaðili með nýtingarleyfum jarðhita og er leyfishafa gert að senda Orkustofnun a.m.k. árlega skýrslu um jarðhitavinnsluna og hvernig jarðhitaauðlindin bregst við vinnslu. Heppilegt er að þessi skilyrði séu rækilega tilgreind í nýtingarleyfi.

Eftirlit með vinnslu og greiðsla kostnaðar af eftirliti

Samkvæmt 21. gr. laga nr. 57/1998 er Orkustofnun gert að annast eftirlit með vinnslusvæðum jarðhita. Lögin kveða ekki nánar á um hvernig haga skuli greiðslu fyrir þetta eftirlit né hvernig haga skuli verðlagningu á þessu eftirliti. Það er skoðun Orkustofnunar að heppilegast væri að leyfishafi greiddi fyrir kostnað af eftirliti beint til eftirlitsaðila og að upphæðir og greiðslufyrirkomulag væri nákvæmlega tilgreint í nýtingarleyfi.

Málsmeðferð umsóknar

Ferlið er þannig að viðkomandi aðili sækir um leyfi til Orkustofnunar. Orkustofnun sendir þá umsóknina, af því gefnu að allar upplýsingar liggi fyrir í umsókn, til umsagnar lögbundinna umsagnaraðila. Umsagnir eru því næst kynntar umsækjenda og honum eftir atvikum boðið að koma á framfæri athugasemdum um framkomnar umsagnir. Á grundvelli umsóknar, umsagna og athugasemdum umsækjenda um þær tekur Orkustofnun ákvörðun um útgáfu leyfis eða synjunar um leyfi. Ef leyfið er veitt fer Orkustofnun með eftirlit með leyfinu og skipar hún ábyrgðarmann með því og fer jafnfram fram á að leyfishafi geri slíkt hið sama.

Samkvæmt 3. mgr. 33. gr. laga, nr. 57/1998, sæta stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar er lúta að veitingu, endurskoðun og afturköllun rannsóknar- eða nýtingarleyfa samkvæmt lögum þessum kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina.