Orkuvefsjá

Orkuvefsjá skjámyndOrkuvefsjá hefur tekið við hlutverki Gagnavefsjár sem birtingarstaður upplýsinga um staðtengjanleg gögn af Íslandi sem Orkustofnun ber ábyrgð á. Unnið hefur verið að því að yfirfara og uppfæra þau gögn Gagnavefsjár sem birt hafa verið í vefsjánni og eru á ábyrgð Orkustofnunar og flytja þau yfir í annað hugbúnaðarumhverfi til birtingar á Netinu. Þá er unnið að því að byggja upp á Orkustofnun ný landræn gagnasöfn á fleiri sviðum en hingað til, en birting upplýsinga um þau verður í Orkuvefsjá.

Ástæðurnar fyrir þessum breytingum voru meðal annars þær að hugbúnaður Gagnavefsjár þarfnaðist uppfærslu. Þegar ákvörðun var tekin um breytingarnar höfðu tveir upphaflegir samstarfsaðilar af fjórum í Gagnavefsjárverkefninu (Vatnamælingar, sem áður voru hluti Orkustofnunar en nú innan Veðurstofu Íslands og Umhverfisstofnun), dregið sig út úr því, en stofnanirnar hættu að viðhalda gögnum sínum í Gagnavefsjá þar sem þau áttu að birtast í Náttúruvefsjá. Eftir stóðu þau gögn sem stjórnsýsluhluti Orkustofnunar og ÍSOR höfðu séð um. Hluti þeirra átti einnig að birtast í Náttúruvefsjá og þurfti að yfirfæra þau á annað form um leið og þau voru endurskoðuð.

Búnaður

Orkuvefsjá nýtir hugbúnaðarlausn (Flashmap) sem þróuð var af hugbúnaðarfyrirtækinu Gagarín vegna verkefnis um Náttúruvefsjá, en gerð þess búnaðar var upphaflega styrkt af Rannís og síðan af Verkefnisstjórn um íslenska upplýsingasamfélagið og Orkustofnun. Hugbúnaðarlausnin þróaðist innan samstarfsverkefnis fyrirtækja og stofnana á nokkurra ára tímabili. Í framhaldi af Náttúruvefsjárverkefninu lét Orkustofnun þróa hugbúnaðinn enn frekar og var sú útgáfa hans notuð í Landgrunnsvefsjá. Sú lausn liggur jafnframt til grundvallar í Orkuvefsjá. Við hönnunina hefur verið lögð áhersla á einfalda og notendavæna lausn sem auðveldar bæði innskráningu og miðlun samræmdra upplýsinga um gögn frá ólíkum aðilum. Í vefsjánni eru til staðar eiginleikar eins og þysjun, tilfærsla á skjá, prentun, mælikvarði og staðsetningarhnit, auk þess sem mögulegt er að færa til þekjur í lista (Virk lög) til að draga fram ólík áhersluatriði. Vefsjáin gefur kost á að miðla ýmiss konar upplýsingum eins og fróðleik, lýsigögnum og ítarefni, þar sem vísað er til annars efnis með tenglum í efni á vefsíðu Orkustofnunar sem og hjá öðrum aðilum. Í hugbúnaðinum eru möguleikar til að birta upplýsingar á fleiri tungumálum og var ensk útgáfa vefsjárinnar opnuð samhliða þeirri íslensku. Framsetning gagna miðast við notkun viðmiðunar ÍSN93.

Gögn

Orkuvefsjá birtir bæði vektor gagnasöfn og rastamyndir sem aðgengilegar eru gegnum vefþjónustur, ásamt fróðleik, lýsigögnum og ítarefni. Í upphafi var áherslan lögð á gögn um raforkuver, notkun jarðhita (gróðurhús, fiskeldi, iðnaður og sundlaugar) og upplýsingar um kort unnin vegna orkurannsókna og orkuframkvæmda auk vatnafars- og jarðfræðikorta stofnunarinnar. Síðar hafa bæst við gögn um nytjavatn, borholur og leyfisveitingar á vegum Orkustofnunar. Einu utanaðkomandi gögnin eru SPOT heildargervitunglamynd af Íslandi, en Orkustofnun hefur samið um notkun hennar við Landmælingar Íslands. Þá birtast tvær hæðarmyndir sem unnar hafa verið fyrir Orkustofnun hjá Íslenskum orkurannsóknum. Bæði Landgrunnsvefsjá og Orkuvefsjá eru hvor um sig í tveimur útgáfum. Önnur er opin á Netinu, en hin er notuð til að þróa gagnaþekjur og prófa útlit áður en þau gögn sem teljast tilbúin eru birt almenningi. Í innri vefsjánum er jafnframt efni sem eingöngu er ætlað til nota í daglegum störfum starfsmanna OS.

Þegar Gagnavefsjá var aflögð lokaðist aðgangur að upplýsingum um staðsetningu á borholum sem þar hafði verið. Ekki reyndist viðunandi að opna sömu gagnaþekjuna í Orkuvefsjá á þeim tíma, þar sem skekkja í ýmsum eldri hnitum kom mun skýrar í ljós á nákvæmari myndgrunni. Ákveðið var að setja tímabundið upp vefsvæði til að notendur utan  stofnunarinnar gætu skoðað staðsetningar á borholum eins og þau hafa verið sett í grunninn, en þau birt án ábyrgðar. Stofnunin vinnur nú að yfirferð á eldri hnitum og að söfnun nýrra. Mögulegt er á vefsíðu OS að leita í skrá um alla borstaði og hægt er nú að finna upplýsingar um staðsettar borholur í Orkuvefsjá.

Kortavefsjá 1:25 000

Í Orkuvefsjá eru birtar gagnaþekjur sem sýna reitaskiptingu allra þeirra korta sem Orkustofnun hefur staðið að vinnslu og útgáfu á. Teljast þau annars vegar til Orkugrunnkorta og hins vegar til Jarðkönnunarkorta. Kortagerð OS í mælikvarða 1:25 000 á tímabilinu 1986-2000 sem fellur innan þessara tveggja flokka, var jafnframt hluti af stærra samhengi í kortagerð Landmælinga Íslands, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins / Náttúrufræðistofnunar, Landsvirkjunar og Orkustofnunar í anda samhæfingar kortavinnslu í áðurnefndum mælikvarða. Þar sem blaðskipting kortaflokksins var til á OS þótti áhugavert að reyna að ná utan um öll kort flokksins í þessum mælikvarða, en það hafði aldrei verið gert áður. Fengið var leyfi til notkunar hugbúnaðar frá Gagarín og fengnar skannanir af staðfræðikortum frá Landmælingum Íslands og gróðurkortum frá Náttúrufræðistofnun. Í framhaldinu var sett upp á innra kerfi OS tilraunaverkefni um kortavefsjá sem nýtti sama vefsjárhugbúnað og hinar tvær kortasjár OS. Enginn utanaðkomandi kostnaður féll á verkið sem vannst á stuttum tíma af starfsmönnum OS. Afraksturinn er Kortavefsjá 1:25 000, hugsuð sem tilraunaverkefni til að sýna afrakstur samstarfs á sviði kortagerðar milli OS og annarra stofnana í þessu samhengi, en jafnframt gefur verkefnið möguleika til að vekja athygli á mikilvægi framsetningar upplýsinga um ólíkar kortategundir (útgefið / óútgefið) í sömu kortasjánni. Þessi ólíku form gagna falla undir mismunandi lög hvað varðar varðveislu og skráningu, en aðeins útgefin kort eru skráð miðlægt hjá Landsbókasafni (án staðsetningarhnita). Þegar tilraunaverkefnið hafði verið aðgengilegt á innra kerfi OS í hálft annað ár, komu fram óskir um að opna aðgengi að því út á netið, sem var gert á fyrrihluta árs 2016. Þar sem allar upplýsingar um kort Orkustofnunar eru birtar í Orkuvefsjá er sú birting hin opinbera miðlun upplýsinga um kortaflokka OS. Tilraunavefsjáin gefur hins vegar til kynna að ýmis tækifæri gætu falist í samstarfi margra stofnana á þessu sviði varðandi kortafloka í fleiri mælikvörðum og í mögulegri þróun samfélagslegra verkefna um birtingar upplýsinga um kort í kortasjám  undir stjórn lykilsafna landsins (Landsbókasafns og Þjóðskjalasafns), en varðveislu- og skráningarmál falla undir þau samkvæmt lögum. Gögn um kort Orkustofnunar eru því tilbúin til afhendingar fyrir slík kortasjárverkefni, verði þau að veruleika. Raunveruleg frumgögn hafa þegar verið afhent söfnunum.
Kortavefsjá 1:25 000

Veggspjöld

Vefsjár og gögn Orkustofnunar
Aðgengi að Orkugrunnkortum í Orkuvefsjá
Veggspjöldin voru birt á málþingi um varðveislu landfræðilegra gagna sem haldið var í Þjóðarbókhlöðunni 23. september 2010 og á ráðstefnunni “Landupplýsingar 2010” sem haldið var í Turninum, Kópavogi, 23. október 2010.

Tengiliðir og nánari upplýsingar

Gögn og efni: Þorvaldur Bragason, thorvaldur.bragason (hjá) os.is

Fyrirvarar og takmarkanir

Gögn, sem eru útbúin af Orkustofnun og birt í vefsjám, voru unnin á hverjum tíma á sem nákvæmastan hátt. Orkustofnun firrir sig samt sem áður ábyrgð vegna gæða gagnanna, áreiðanleika og nákvæmni þeirra. Af þeirri ástæðu firrir Orkustofnun sig bótaskyldu vegna notkunar á vefsjám, hvort sem hún stafar af  göllum eða takmörkunum á gögnum eða af notkun, meðhöndlun eða túlkun á gögnum. Sama á við um gögn útbúin af þriðja aðila og birt í vefsjám. Umsjónar- og ábyrgðaraðilar vefsjáa geta hvenær sem er gert lagfæringar og/eða breytingar á þeim.

© Öll afritun eða endurdreifing á hugbúnaði eða gögnum eins og þau birtast í vefsjám er óheimil án samþykkis umsjónar- og ábyrgðaraðila vefsjánna. Þar sem birt eru gögn annarra stofnana eða fyrirtækja þarf leyfi þeirra.