Kortasjár
Í kortasjám Orkustofnunar er veitt aðgengi að upplýsingum um staðtengd gögn sem stofnunin vinnur og varðveitir. Tveimur eldri kortasjám, Gagnavefsjá og Náttúruvefsjá var lokað í desember 2011, en þær voru upphaflega unnar innan Orkustofnunar í samstarfi við aðrar stofnanir hér á landi. Þremur eldri kortasjám Orkustofunar til viðbótar var lokað í nóvember 2019, en þær eru: Orkuvefsjá, Landgrunnsvefsjá og Kortavefsjá 1:25000. Núverandi kortasjár Orkustofnunar eru : Kortasjá OS, Landgrunnssjá og Kortasjá fyrir kortasafn OS.
Kortasjá OS
Kortasjá Orkustofnunar var opnuð á netinu í desember 2016. Henni er annars vegar ætlað er að birta uppfærðar upplýsingar um landræn gögn sem sýnd hafa verið í Orkuvefsjá og hins vegar um ýmis ný landupplýsingagögn. Kortasjáin byggir á notkun hugbúnaðar frá Loftmyndum ehf. þar sem ein af þremur undirliggjandi grunnmyndum er nákvæm loftmynd af öllu landinu eins og þekkt er í map.is og tugum verkefna sem byggja á sömu veflausn.
Landgrunnssjá
Landgrunnssjá er kerfi til innskráningar, utanumhalds og miðlunar upplýsinga um gögn sem tengjast landgrunni Íslands og Orkustofnun hefur umsjón með. Kortasjáin gerir fjölbreyttar upplýsingar um gögn varðandi landgrunnið aðgengilegri á veraldarvefnum, en þar eru m.a. upplýsingar um leyfisveitingar Orkustofnunar, rannsóknasvæði, hafsbotnsgögn og upplýsingar um gögn frá leiðöngrum á Drekasvæðinu og annars staðar á íslensku hafsvæði. Kortasjánni er meðal annars ætlað að auðvelda þeim sem vilja fá upplýsingar um svæði sem hafa verið rannsökuð að finna hvaða gögn eru til, hver aflaði þeirra og hvernig, hvenær gagnaöflunin fór fram og hvar er mögulegt að fá aðgang að gögnunum. Landgrunnssjáin leysir af hólmi eldra vefverkefni Orkustofnunar, Landgrunnsvefsjá (2009-2019).
Kortasafn OS - Kortasjá
Orkustofnun hefur sett upp sérstaka kortasjá fyrir kortasafn stofnunarinnar og má þar sjá upplýsingar um öll kort sem Orkustofnun hefur
staðið að. Kortasafn Orkustofnunar samanstendur annars vegar af kortum sem
orðið hafa til í starfsemi stofnunarinnar, með samstarfsaðilum og hjá forvera
hennar, Raforkumálaskrifstofunni, og hins vegar af kortum sem aflað hefur verið
frá ýmsum aðilum hér á landi og erlendis. Kortaflokkar á ábyrgð Orkustofnunar
(Orkugrunnkort og Jarðkönnunarkort) hafa verið skráðir sérstaklega, kortin
skönnuð í góðri upplausn og útbúin leitarvalmynd fyrir þau á vefsíðu
stofnunarinnar. Upplýsingar um kortaflokka Orkustofnunar má finna í Kortasjá OS og í sérstakri kortasjá fyrir Kortasafn OS. Þar eru einnig birtar
upplýsingar um kort í mælikvarða 1:25 000, en Orkustofnun vann ásamt fleiri
stofnunum að gerð og útgáfu þeirra korta.