Um gagnasett í Landgrunnsvefsjá
Hafsbotnsgögn og rannsóknir - Almennar upplýsingar
Örnefni umhverfis Ísland
Örnefni með útliti [2115] *
Örnefni er sérnafn sem á við vissa einingu í landslagi eða landsvæði. Fyrir hafið eru bæði til örnefni sem eiga við ákveðin hafsvæði og sem eiga við landslagseinkenni á hafsbotninum. Dæmi um þetta er Húnaflói en það lýsir svæðinu sem um er að ræða, en Húnaflóaáll á við um hafsbotninn.
Á landgrunninu eru til fjöldi örnefna sem sjómenn hafa notað í gegnum aldirnar yfir þær veiðislóðir sem þeir sækja. Þegar tuttugasta öldin gekk í garð og skip og bátar urðu betri var farið að sækja dýpra og urðu þá til ný örnefni á nýjum slóðum, enn lengra frá landi. Á fáförnum hafssvæðum vantar því oft örnefni til að lýsa landslaginu á hafsbotninum.Til að koma á nafngiftum sem hægt er að vísa til, t.d. við rannsóknir á hafsbotni, eru fornar bókmenntir Íslendinga nýttar með svipuðum hætti og Norðmenn hafa gert. Þó er í mörgum tilvikum einnig tekið mið af landslagi og landformum á hafsbotninum. Þar sem sett eru nöfn sem virðast framandi er reynt að tengja þau með einhverju móti við landslag svæðisins. Mörg nafnanna eru fengin úr norrænni goðafræði og hafa því alþjóðlega skírskotun, einkum hjá þeim þjóðum sem tala germönsk mál. Forðast er að nota nöfn manna síðari tíma, nema þar sem þau eru til fyrir. Örnefnin fyrir Drekasvæðið byggja á Völsungasögu, enda er Fáfnir í Völsungasögu frægasti drekinn í íslenskum fornsögum. Örnefnin fyrir Ægisdjúp byggja á norrænni goðafræði.
*[Númer í hornklofa sýna lýsigagnafærslur um síðustu útgáfur gagnasetta í lýsigagnagrunni Orkustofnunar]
Örnefnapunktar [2117]
Á landgrunninu eru til fjöldi örnefna sem sjómenn hafa notað
í gegnum aldirnar yfir þær veiðislóðir sem þeir sækja. Þegar tuttugasta öldin
gekk í garð og skip og bátar urðu betri var farið að sækja dýpra og urðu þá til
ný örnefni á nýjum slóðum, enn lengra frá landi. Á fáförnum hafssvæðum vantar
því oft örnefni til að lýsa landslaginu á hafsbotninum.Til að koma á nafngiftum
sem hægt er að vísa til, t.d. við rannsóknir á hafsbotni, eru fornar bókmenntir
Íslendinga nýttar með svipuðum hætti og Norðmenn hafa gert. Þó er í mörgum
tilvikum einnig tekið mið af landslagi og landformum á hafsbotninum. Þar sem
sett eru nöfn sem virðast framandi er reynt að tengja þau með einhverju móti
við landslag svæðisins. Mörg nafnanna eru fengin úr norrænni goðafræði og hafa
því alþjóðlega skírskotun, einkum hjá þeim þjóðum sem tala germönsk mál.
Forðast er að nota nöfn manna síðari tíma, nema þar sem þau eru til fyrir.
Örnefnin fyrir Drekasvæðið byggja á Völsungasögu, enda er Fáfnir í Völsungasögu
frægasti drekinn í íslenskum fornsögum. Örnefnin fyrir Ægisdjúp byggja á
norrænni goðafræði.
Hafsbotnsgögn
Hafsbotnsgögn og rannsóknir: Almennar upplýsingar úr Landgrunnsvefsjá
Segulmælingar
Aldur hafsbotnsins [2109]
Hafsbotnsskorpan er aðallega frá jarðsögutímabilunum Krít, Tertíer og Kvarter en einnig má finna lítil svæði frá Júratímabilinu, t.d. við jaðra úthafsslétta Atlantshafsins og í NV Kyrrahafi. Aldursákvörðun á elstu núverandi hafbotnskorpu er um 165 milljón ár, en talið er að ekki sé að finna eldri hafsbotnskorpu en 200 milljón ára gamla. Hafsbotnskorpan er ávallt að endurnýja sig vegna iðustreymis í möttli Jarðar. Ný hafsbotnsskorpa verður til við úthafshryggina á meðan eldri hafsbotnsskorpan eyðist í niðurstreymisbeltum við meginlandsjaðra.
Aldursgögn af hafsbotni sem finna má í vefsjánni var safnað af GPlate verkefninu. GPlates verkefnið samanstendur af alþjóðlegum hópi vísindamanna og sérmenntuðum forriturum sem starfa við EarthByte Project og Norsku jarðfræðistofnunina. Markmið GPlate verkefnisins er að koma á samvirkni yfir gögn um jarðskorpuhreyfingar og tölvuþjónustu fyrir þau gögn til hagnýtra rannsókna sem og grunnrannsókna. Landakortið af aldri hafsbotnsins sýnir aldurinn á hafsbotnsskorpunni milli elstu staðfestu segulfrávikanna og meginlandsskorpunnar, leiðrétt vegna jarðfræðilegs mats á aldri óvirku jaðra meginlandsskorpunnar. Mjög lítill hluti hafsbotnsskopunnar er eldri en 125 milljón ár, sem sjá má á bláa svæðinu. Næstum allur sá hluti hefur þrýsts niður í möttulinn um niðurstreymisbeltin og bráðnað þar.
Segulfrávik (Norður Atlantshaf) [2111]
Kanadíska jarðfræðistofnunin (GSC, nú NRCan) safnaði í gagnagrunn öllum gögnum um segulfrávik sem mæld höfðu verið á Norðurslóðum. Tilgangurinn var að þróa stafrænan gagnagrunn með segulfrávikum til að hægt væri að túlka flekahreyfingar á Norðurslóðum og í Norður-Atlantshafi.
Þyngdarmælingar
Bouguer (Ísland) – Þyngdarfrávik [2107]
Bouguer þyngdarfrávikin á íslenska landgrunninnu byggja á samantekt frá 1995 á opinberum gögnum safnað með skipum á tímabilinu 1967 til 1985. Á svæðum þar sem of lítið var til af skipamælingum eða gæði gagnanna of slök var stuðst við gervitunglagögn.
Þyngdarfrávik (Norður Atlantshaf) [2113]
Gögnunum var safnað með gervihnettinum ERS-1 af Evrópsku
geimrannsóknastofnuninni og Geosat gervihnetti Bandaríska sjóhersins.
Þyngdargögnin sýna fram á og styðja kenninguna um gliðnun hafsbotnsins, sem er
lykilatriði í landrekskenningunni.
Dýptargögn
Norður Atlantshaf – Hæðar- og dýptarþekja [2105]
Í alþjóðlega gagnasafninu SRTM30 plus v/4.0, er að finna hæðarpunkta bæði á landi og hafsbotni með 30 sekúndna (u.þ.b. 1 km) millibili. Gögnin eru samansafn ýmissa mælinga. Á landi er um að ræða mælingar sem byggja á radarmælingum frá gervitunglum. Hafsbotnsgögnin byggja bæði á mælingum á þyngdarsviði yfir hafinu með gervitunglum og dýptarmælingum frá skipum. Dýptarmælingarnar eru notaðar til að kvarða líkanið sem beitt er til að umreikna þyngdarmælingarnar yfir í dýpi (Smith & Sandwell, 1997). Fyrir Norður-heimskautssvæðið er gagnasafnið byggt á IBCAO gagnagrunninum (Jakobsson o.fl., 2008).
Drekasvæði – Dýptarmynd [2101]
Með tilkomu hafrannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar, árið 2000, réðst Hafrannsóknastofnun í viðamikið verkefni er varðar kortlagningu hafsbotnsins innan landhelgi/efnahagslögsögu Íslands. Skipið er búið fjölgeisladýptarmæli (e. Multibeam Echo Sounder) af gerðinni Simrad EM300 (30 kHz, 2°x2°). Með mælinum er hægt að kortleggja hafsbotninn af mun meiri nákvæmni en með hefðbundnum dýptarmæli. Tækið hentar best á 100-3000 m dýpi. Upplýsingar fást um lögun og gerð hafsbotnsins með nákvæmum dýptarlínu-, sólskugga-, þrívíddar- og botngerðarkortum.
Jan Mayen hryggur [2103]
Norðmaðurinn Tor Åkermoen skrifaði cand scient ritgerð
(1989) þar sem lýst er jarðlögum Jan Mayen hryggjarins. Í ritgerðinni er meðal
annars unnið úr hljóðendurvarpsmælingum sem til voru af svæðinu, einkum á
mælingunum frá 1985 (JM-85). Samsetning jarðlagastaflans var síðan notuð til að
rekja þróunarsögu Jan Mayen hryggjarins og hún tengd við landrek, þ.e.
opnunarsögu Norður-Atlantshafsins.
Leyfisveitingar
Sérleyfi 2114/01 [2119, 2121, 2123]
Leyfi til rannsókna og vinnslu á kolvetni eru sérleyfi og veitt í kjölfar útboðs í samræmi við ákvæði laga nr. 13/2001. Slík leyfi eru veitt til allt að 12 ára en heimilt er að framlengja þau til allt að tveggja ára í senn. Hámarksgildistími leyfis til rannsókna skal þó ekki vera lengri en 16 ár. Að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru fyrir rannsóknum á leyfishafi forgangsrétt á framlengingu leyfisins til vinnslu kolvetnis í allt að 30 ár.
Mörk og reitir
Gráðureitir [2131]
Til að hægt sé að vísa til ákveðinna reita í tengslum við leyfisveitingar á íslenska landgrunninu hefur norðausturhluta þess verið skipt upp í gráðureiti þar sem hver reitur afmarkast af lengdar- og breiddarbaugum með einnar-gráðu millibili. Númer hvers gráðureits er fjögurra stafa; fyrstu tvær tölurnar eru breiddargráðan í suðaustur horni gráðureitsins, en seinni tölurnar tvær eru lengdargráðan í þessu sama horni - núll er sett á undan í þeim tilfellum sem lengdargráðan er eins stafa tala. Á undan númeri gráðureitsins kemur IS, til að tilgreina að gráðureiturinn sé innan íslensku lögsögunnar. Dæmi: IS6708.
Reitir [2125]
Gráðureitunum innan Drekasvæðisins er skipt upp í 12 minni reiti. Hverri breiddargráðu er skipt í fjögur hólf sem hvert er 15 mínútur að breidd. Hverri lengdargráðu er skipt í þrjú hólf sem hvert er 20 mínútur að lengd. Númer hvers reits samanstendur af númeri gráðureitsins, svo kemur skástrik (/), og að lokum kemur númer innri reitsins (tveggja stafa tala), en þau teljast hækka frá vestri til austurs og frá norðri til suðurs - byrja í einum uppi í norðvesturhorni gráðureitsins. Dæmi: IS6708/10.
JM samkomulagssvæði [2127]
Samningur var gerður milli Íslendinga og Norðmanna árið 1981 þar sem skilgreint var sameiginlegt nýtingarsvæði á landgrunni beggja landanna. Auk réttar til nýtingar á 75% af olíulindum á eigin hluta samnýtingarsvæðisins, veitir samkomulagið hvoru landi um sig rétt til 25% hlutdeildar í olíuvinnslu á þeim hluta svæðisins sem liggur á landgrunni hins landsins. Nýr samningur um kolvetnisauðlindir sem liggja yfir markalínur og bókun um samnýtingarsvæðið voru undirrituð af Íslendingum og Norðmönnum þann 3. nóvember 2008.
Norðurhluti Drekasvæðis [2129]
Norðurhluti Drekasvæðisins er nyrst og austast í íslensku efnahagslögsögunni og liggur norðan 67° norðlægrar breiddar og austan 11°30' vestlægrar lengdar, allt að 200 mílna mörkum íslenska landgrunnsins til norðurs og austurs. Norðurhluti Drekasvæðisins er um 42.700 km² að flatarmáli. Um hluta svæðisins gildir milliríkjasamningur milli Íslands og Noregs frá 1981 um landgrunnið milli Íslands og Jan Mayen og þekur sá hluti 12.720 km² innan þess, eða tæplega þrjá tíundu hluta svæðisins.
Rannsóknir
Hafsbotnsgögn og rannsóknir: Almennar upplýsingar úr Landgrunnsvefsjá
Gervitunglarannsóknir
CGG NPA (2012) – Gagnayfirlit [2133]
Fugro NPA (nú CGG) vann úr gervitunglagögnum frá
Drekasvæðinu árið 2012. Um er að ræða 27 túlkaðar ratsjármyndir yfir
útboðssvæðið. Á myndunum greindust samtals 132 olíuflekkir. Þéttleiki
flekkjanna er ekki ósvipaður og finnst á nærliggjandi olíusvæðum við Noreg.
Endurteknar myndir á sama svæði styrkja greininguna í tilfellum þar sem flekkir
sjást á sama stað á mismunandi tímabilum.
Yfirborðssýni
A11/2010 (2010) – Gagnayfirlit [2137]
Leiðangur á Árna Friðrikssyni árið 2010 á vegum Orkustofnunar og norsku Olíustofnunarinnar (NPD) á Drekasvæðið í samvinnu við Hafrannsóknastofnunina. Kjarnasýnum var safnað á völdum stöðum á Drekasvæðinu.
AKU15 (1973) – Gagnayfirlit [2135]
Leiðangur á vegum rússnesku Vísindastofnunarinnar (Academy of Sciences of the USSR) á rannsóknaskipinu Akademik Kurchatov árið 1973. Tilgangurinn með leiðangrinum var að rannsaka jarðfræði hafsbotnsins umhverfis Ísland.
JMRS11 (2011) – Gagnayfirlit [2139]
Haustið 2011 skipulögðu TGS og Volcanic Basin Petroleum Research sýnatökuleiðangur á Drekasvæðið á skipinu Sermilik II í samræmi við leitarleyfi sem TGS hlaut 9. september 2011. Meginmarkmið leiðangurins var að safna sýnum úr setlögum sem ná til yfirborðs í hlíðum hryggja á svæðinu og var í þessu tilfelli byggt á túlkun á línu JM-17-85.
Borholur
DSDP borholur (1970) [2141]
Djúpsjávarborunarverkefnið (Deep Sea Drilling Project, DSDP) var hið fyrsta af þremur alþjóðlegum rannsóknaátökum til að bora rannsóknarholur á hafsbotni til vísindalegra rannsókna. DSDP hófst árið 1966. Að því loknu hófst hafborunarverkefnið (Ocean Drilling Program, ODP) árið 1985, sem breyttist svo í samþætta hafborunarverkefnið (Integrated Ocean Drilling Program, IODP) árið 2003.
DSDP borholur (1974) [2143]
Djúpsjávarborunarverkefnið (Deep Sea Drilling Project, DSDP) var hið fyrsta af þremur alþjóðlegum rannsóknaátökum til að bora rannsóknarholur á hafsbotni til vísindalegra rannsókna. DSDP hófst árið 1966. Að því loknu hófst hafborunarverkefnið (Ocean Drilling Program, ODP) árið 1985, sem breyttist svo í samþætta hafborunarverkefnið (Integrated Ocean Drilling Program, IODP) árið 2003.
DSDP borholur (1976) [2145]
Djúpsjávarborunarverkefnið (Deep Sea Drilling Project, DSDP) var hið fyrsta af þremur alþjóðlegum rannsóknaátökum til að bora rannsóknarholur á hafsbotni til vísindalegra rannsókna. DSDP hófst árið 1966. Að því loknu hófst hafborunarverkefnið (Ocean Drilling Program, ODP) árið 1985, sem breyttist svo í samþætta hafborunarverkefnið (Integrated Ocean Drilling Program, IODP) árið 2003.
ODP borholur (1993) [2147]
Hafborunarverkefnið (Ocean Drilling Program, ODP) var annað af þremur alþjóðlegum rannsóknarátökum til að bora rannsóknarholur á hafsbotni til vísindalegra rannsókna. ODP hófst árið 1985. Forveri ODP var Djúpsjávarborunarverkefnið (Deep Sea Drilling Project, DSDP), sem hófst árið 1966. ODP breyttist í Samþætta hafborunarverkefnið (Integrated Ocean Drilling Program, IODP) árið 2003.
ODP borholur (1995) [2149]
Hafborunarverkefnið (Ocean Drilling Program, ODP) var annað af þremur alþjóðlegum rannsóknarátökum til að bora rannsóknarholur á hafsbotni til vísindalegra rannsókna. ODP hófst árið 1985. Forveri ODP var Djúpsjávarborunarverkefnið (Deep Sea Drilling Project, DSDP), sem hófst árið 1966. ODP breyttist í Samþætta hafborunarverkefnið (Integrated Ocean Drilling Program, IODP) árið 2003.
Hljóðendurvarpsmælingar
BGR-75 (1975) – Gagnayfirlit [2151]
Leiðangur á vegum þýsku stofnunarinnar Bundesanstalt für Geowissenschaften und Rohstoffe (BGR). Þetta var einn af þremur leiðöngrum sem farið var í á árunum 1974-1976 til að rannsaka jarðfræði Norður-Atlantshafsins. Verkefninu var stýrt af Karl Hinz. Í BGR-75 leiðangrinum var safnað 2,815 km af hljóðendurvarpsmælingum á stóru svæði í Íslandshafi.
BGR-76 (1976) – Gagnayfirlit [2153]
Leiðangur á vegum þýsku stofnunarinnar Bundesanstalt für Geowissenschaften und Rohstoffe (BGR). Þetta var einn af þremur leiðöngrum sem farinn var á árunum 1974-1976 til að rannsaka jarðfræði Norður-Atlantshafsins. Verkefninu var stýrt af Karl Hinz. Í BGR-76 leiðangrinum var safnað 8.909 km af hljóðendurvarpsmælingum á stóru svæði í Norður-Atlantshafi.
RC2114 (1978) – Gagnayfirlit [2155]
Leiðangur á vegum jarðvísindastofnunar Columbia háskólans í New York (LDEO). Tilgangur leiðangurins var að nota margrása hljóðendurvarpsmælingar og bylgjubrotsmælingar til að rannsaka samsetningu jarðskorpunnar á landgrunni Noregs og í Noregs- og Íslandshöfum. Leiðangursstjórar í leiðangrinum voru John Diebold og Peter Buhl. Rannsóknirnar voru skipulagðar af Paul Stoffa og Manik Talwani og fjármagnaðar af vísindasjóði Bandaríkjanna (NSF).
J-79 (1979) – Gagnayfirlit [2157]
Leiðangur sem var skipulagður og fjármagnaður af Norsku Olíustofnuninni en Geophysical Company of Norway (GECO) sá um leiðangurinn og allar þær mælingar sem gerðar voru. Tilgangurinn var að rannsaka setlög á norðurhluta Jan Mayen hryggjarins með jarðeðlisfræðilegum mæliaðferðum s.s. hljóðendurvarps-, bylgjubrots-, þyngdar- og segulmælingum. Fyrsti leiðangur NPD á svæðið með búnaði til hljóðendurvarpsmælinga. Leiðangursstjóri var Kristian Kolbjørn.
JM-85 (1985) – Gagnayfirlit [2159]
Leiðangurinn var samstarfsverkefni Íslendinga og Norðmanna samkvæmt ákvæðum milliríkjasamnings þjóðanna og kostaður af Norðmönnum en í beggja þágu. Mælingar voru gerðar suður af Jan Mayen, yfir neðansjávarhryggnum sem gengur suður frá eynni og nefnist Jan Mayen hryggurinn. Tilgangurinn var að rannsaka setlög á svæðinu með jarðeðlisfræðilegum mæliaðferðum s.s. hljóðendurvarps-, bylgjubrots-, þyngdar- og segulmælingum.
UiO-86 (1986) – Gagnayfirlit [2161]
Leiðangur á vegum jarðvísindastofunar Háskólans í Óslo á rannsóknarskipinu Håkon Mosby. Áhersla var lögð á svæðið austan megin við Jan Mayen hrygg.
JM-88 (1988) – Gagnayfirlit [2163]
Leiðangurinn var samvinnuverkefni Íslendinga og Norðmanna. Tilgangurinn var gera nánari hljóðendurvarpsmælingar á litlu svæði á suðurhluta Jan Mayen hryggjarins. Niðurstöður úr fyrri leiðangrinum (JM-85) bentu til að jarðfræði þessa svæðis væri áhugavert m.t.t. mögulegrar olíumyndunar. Grundvallarmarkmið leiðangursins var að útbúa nákvæmt jarðfræðikort af svæðinu svo hægt væri að velja staði til að bora út frá gögnunum.
IS-JMR-01 (2001)- Gagnayfirlit [2165]
Norska fyrirtækið InSeis hlaut þriggja ára leitarleyfi á norðanverðu Drekasvæðinu frá 19. júlí 2001 og gerði hljóðendurvarpsmælingar þar sama ár. Markmið mælinganna var að afla hljóðendurvarpsgagna af mun betri gæðum en voru til fyrir svæðið. Þessi gögn eru til sölu hjá Spectrum.
ICE-02 (2002) – Gagnayfirlit [2167]
Fyrirtækið TGS-NOPEC hlaut eins mánaðar leitarleyfi norðaustur af Íslandi í apríl/maí 2002 og safnaði 808 km af hljóðendurvarpsmælingum á leyfistímabilinu. Mjög slæmt veður var meðan leiðangurinn stóð yfir, en það tókst að gera mælingar í nokkra daga þegar veðrið lægði. Leiðangursstjóri var John Rutherford.
OBS-JM-06 (2006) – Gagnayfirlit [2169]
Leiðangurinn var samvinnuverkefni jarðvísindastofnanna Háskólans í Bergen og Háskólans í Kiel (Geomar) á Jan Mayen hrygginn. Leiðangurinn var hluti af stærra verkefni á vegum NFR-Petromaks sem ber titilinn Jan Mayen micro-continent - Searching for new knowledge on prospectivity, basin evolution and sediment provenance og var því verkefni stjórnað af Rolf-Birger Pedersen. Rannsóknirnar fóru fram með jarðeðlisfræðilegum mæliaðferðum s.s. hljóðendurvarps-, þyngdar- og segulmælingum.
WI-JMR-08 (2008) – Gagnayfirlit [2171]
Fyrirtækið Wavefield Inseis hlaut þriggja ára leyfi til leitar að kolvetni 13. júní 2008 og hóf skip fyrirtækisins, Malene Østervold, hljóðbylgjumælingar innan viku eftir að leyfið var veitt. Markmið mælinganna var að rannsaka betur áhugaverð fyrirbæri í jarðlögunum og fá þéttari og nákvæmari gögn frá fyrra mælingasvæði. Sérstök áhersla var lögð á að ná mælingum á jarðlögum neðan basaltlaganna á svæðinu.
Fjölgeislamælingar
A8-2008 – Gagnayfirlit [2173]
Rannsóknir á Drekasvæðinu Í júní 2008 var farinn 18 daga leiðangur á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar á rs. Árna Friðrikssyni á norðurhluta Drekasvæðis. Markmiðið var að kortleggja svæðið með fjölgeisladýptarmælingum, gera straummælingar og þjónusta straummælinga- og veðurdufl. Rannsóknirnar eru liður í því að afla almennra upplýsinga um svæðið fyrir iðnaðarráðuneytið vegna leitar á olíu og gasi.