Landgrunnsvefsjá


Landgrunnsvefsjá er kerfi til innskráningar, utanumhalds og miðlunar upplýsinga um gögn sem tengjast landgrunni Íslands, og þá fyrst um sinn einkum Drekasvæðinu. Vefsjáin gerir fjölbreyttar upplýsingar um gögn varðandi landgrunnið aðgengilegri á veraldarvefnum, en þar eru m.a. sýnd reitakerfi fyrir rannsóknasvæði, hafsbotnsgögn og upplýsingar um gögn frá leiðöngrum á Drekasvæðinu. Vefsjánni er meðal annars ætlað að auðvelda þeim sem vilja fá upplýsingar um leyfissvæði fyrir sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetna að finna hvaða gögn eru til, af hvaða svæðum, hver aflaði þeirra og hvernig, hvenær gagnaöflunin fór fram og hvar er mögulegt að fá aðgang að gögnunum. Til fróðleiks eru í vefsjánni birtir stuttir kaflar til að gefa fyllri upplýsingar um svæðið og gögn sem þar hefur verið aflað.

Búnaður

Landgrunnsvefsjá nýtir hugbúnaðarlausn (Flashmap) sem þróuð var af hugbúnaðarfyrirtækinu Gagarín vegna verkefnis um Náttúruvefsjá, en undirbúningsverkefni vefsjárinnar var upphaflega styrkt af Rannís og verkefnið sjálft síðan greitt af  Verkefnisstjórn um íslenska upplýsingasamfélagið  og Orkustofnun. Hugbúnaðarlausnin þróaðist í samstarfsverkefni fyrirtækja og stofnana á nokkurra ára tímabili. Við hönnunina hefur verið lögð áhersla á einfalda og notendavæna lausn sem auðveldar bæði innskráningu og miðlun samræmdra upplýsinga um gögn frá ólíkum aðilum. Í vefsjánni eru til staðar eiginleikar eins og þysjun, tilfærsla á skjá, prentun, mælikvarði og staðsetningarhnit, auk þess sem mögulegt er að færa til þekjur í lista (Virk lög) til að draga fram ólík áhersluatriði. Vefsjáin gefur kost á að miðla ýmiss konar upplýsingum eins og fróðleik, lýsigögnum og ítarefni, þar sem vísað er til annars efnis með tenglum í gagnatöflur og efni á vefsíðu Orkustofnunar sem og hjá öðrum aðilum. Landgrunnsvefsjáin er einkum frábrugðin Náttúruvefsjá að því leyti að notað er annað hnitakerfi fyrir gögn byggt á UTM Zone 29 vörpun og WGS 84 viðmiðun.

Gögn

Landgrunnsvefsjá byggir einkum á birtingu vektor gagnaþekja sem unnar hafa verið vegna verkefnisins í samstarfi Orkustofnunar við Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), auk rastamynda sem aðgengilegar eru gegnum vefþjónustur. Um er að ræða þekju með gráðureitum sem sýnir reitakerfi fyrir norðausturhluta íslenska landgrunnsins, afmörkun norðurhluta Drekasvæðisins, reitakerfis innan þess og Jan Mayen samkomlagssvæðið, en síðan eru nokkrar vektorþekjur sem gefa yfirlit yfir gögn úr rannsóknaleiðöngrum á norðurhluta Drekasvæðisins svo sem hljóðendurvarpsmælingar, fjölgeislamælingar, rannsóknarborholur og yfirborðssýni. Í gegnum rastaþjónustu má kalla fram þekjur sem sýna litaskiptar myndir gerðar eftir gagnasöfnum með dýptargögnum, einnig er rastaþjónusta með örnefnum af landgrunninu og hafsvæðunum kringum Ísland.

 

Hafsbotnsgögn og rannsóknir: Almennar upplýsingar úr Landgrunnsvefsjá

Upplýsingar um gagnasett sem birtust í Landgrunnsvefsjá