Landgrunnssjá

Landgrunnssjá er kerfi til innskráningar, utanumhalds og miðlunar upplýsinga um gögn sem tengjast landgrunni Íslands og Orkustofnun hefur umsjón með. Kortasjáin gerir fjölbreyttar upplýsingar um gögn varðandi landgrunnið aðgengilegri á veraldarvefnum, en þar eru meðal annars upplýsingar um rannsóknasvæði, hafsbotnsgögn, leyfisveitingar Orkustofnunar og upplýsingar um gögn frá leiðöngrum á Drekasvæðinu og annars staðar á íslensku hafsvæði. Kortasjánni er meðal annars ætlað að auðvelda þeim sem vilja fá upplýsingar um svæði sem hafa verið rannsökuð að finna hvaða gögn eru til, hver aflaði þeirra og hvernig, hvenær gagnaöflunin fór fram og hvar er mögulegt að fá aðgang að gögnunum.

Landgrunnssjá leysir af hólmi eldra vefverkefni Orkustofnunar,  Landgrunnsvefsjá (2009-2019). Nýja Landgrunnssjáin nýtir hugbúnaðarlausn frá ráðgjafafyrirtækinu Alta, en eldri hugbúnaður Landgrunnsvefsjár sem reynst hafði vel fyrstu árin var orðinn úreltur á margan hátt og bauð ekki upp á tæknilega möguleika sem nýjar kortasjár hafa. Hugbúnaðurinn er mjög aðgengilegur og nær upphafskortið yfir stórt svæði á Norður-Atlantshafi. Í valmynd fyrir efnisflokka kortasjárinnar eru vísanir í almennar upplýsingar á vefsíðu OS um gögnin og gerð þeirra og sama er að segja um vísun í lýsigögn með ítarlegum upplýsingum fyrir hverja gagnaþekju.

Með Landgrunnssjá fæst yfirlit yfir ýmis gögn sem aflað hefur verið innan íslenskrar efnahagslögsögu. Kortasjánni er ætlað að birta sambærileg gögn og birtust í eldri Landgrunnsvefsjá, en með nýrri framsetningu og breyttri virkni. Sem fyrr er byggt á miðlun upplýsinga um fjölbreytileg gögn af íslenskum hafsvæðum. Yfirflokkar gagnanna í Landgrunnssjá eru fimm: örnefni, mörk og reitir, hafsbotnsgögn, rannsóknir og leyfisveitingar. Kaflinn um leyfisveitingar mun birtast fljótlega, en til stendur að upplýsingar úr nýjum gagnagrunni Orkustofnunar um leyfisveitingar sem verið er að taka í gagnið verði tengdar inn í Landgrunnssjá og þar megi fá upplýsingar um öll leyfi sem Orkustofnun hefur veitt á hafsvæðum við landið frá árinu 2008.

Í kortasjánni má fræðast um ýmis örnefni á hafsvæðum og hafsbotni kringum Ísland, einkum nöfn austan og norðaustan við landið, en mörg þeirra eru nýyrði sem gefin voru í tengslum við undirbúning leyfisveitinga á Drekasvæðinu. Birtar eru gagnaþekjur með gráðureitum sem sýna reitakerfi fyrir norðausturhluta íslenska landgrunnsins, afmörkun norðurhluta Drekasvæðisins, reitakerfis innan þess og Jan Mayen samkomulagssvæðið. Megingögnin eru síðan ýmsar vektorþekjur sem gefa yfirlit yfir gögn úr rannsóknaleiðöngrum á norðurhluta Drekasvæðisins svo sem hljóðendurvarpsmælingar, fjölgeislamælingar, rannsóknarborholur og yfirborðssýni. Þá má kalla fram þekjur sem sýna tvær litaskiptar myndir gerðar eftir gagnasöfnum með dýptargögnum og með því að smella á þær má fá fram dýptartölur á þeim hafsvæðum.

Frekari upplýsingar um hafsbotnsgögn og rannsóknir ásamt nánari skýringum við gagnasett má síðan finna á vefsíðu OS. Á næstu misserum er stefnt að því að auka verulega við birtingu margvíslegra gagna og annarra upplýsinga í Landgrunnssjá.

Hafsbotnsgögn og rannsóknir. Almennar upplýsingar úr Landgrunnsvefsjá

Upplýsingar um gagnasett í Landgrunnsvefsjá

Nánari upplýsingar á vef Orkustofnunar um eldra verkefni - Landgrunnsvefsjá