Kortasafn OS – Kortasjá
Orkustofnun hefur sett upp sérstaka kortasjá fyrir kortasafn stofnunarinnar og má þar sjá upplýsingar um öll kort sem Orkustofnun hefur
staðið að. Kortasafn Orkustofnunar samanstendur annars vegar af kortum sem
orðið hafa til í starfsemi stofnunarinnar, með samstarfsaðilum og hjá forvera
hennar, Raforkumálaskrifstofunni, og hins vegar af kortum sem aflað hefur verið
frá ýmsum aðilum hér á landi og erlendis. Kortaflokkar á ábyrgð Orkustofnunar
(Orkugrunnkort og Jarðkönnunarkort) hafa verið skráðir sérstaklega, kortin
skönnuð í góðri upplausn og útbúin leitarvalmynd fyrir þau á vefsíðu
stofnunarinnar. Upplýsingar um kortaflokka Orkustofnunar má finna í Kortasjá OS og í sérstakri kortasjá fyrir Kortasafn OS. Þar eru einnig birtar
upplýsingar um kort í mælikvarða 1:25 000, en Orkustofnun vann ásamt fleiri
stofnunum að gerð og útgáfu þeirra korta.
Kortaflokkarnir tveir sem eru á ábyrgð Orkustofnunar eru annars vegar Orkugrunnkort gefin út af Raforkumálaskrifstofunni og arftökum hennar (1958-1998); Orkustofnun, Landsvirkjun og Rarik og síðan Jarðkönnunarkort (jarðfræðikort og vatnafarskort), gerð á vegum Orkustofnunar, ÍSOR og Vatnamælinga (1972-2003). Kortagerð OS í mælikvarða 1:25 000 á tímabilinu 1986-2000 sem fellur innan þessara tveggja flokka, var jafnframt hluti af stærra samhengi í kortagerð Landmælinga Íslands, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins / Náttúrufræðistofnunar, Landsvirkjunar og Orkustofnunar í anda samhæfingar kortavinnslu í þeim mælikvarða.
Skráningu Orkugrunnkorta og Jarðkönnunarkorta í sérstakan gagnagrunn lauk á árinu 2011, en í skránni koma fram fjölmargir skráningarþættir sem tengjast kortunum. Með tengingu á gagnagrunni og staðsetningargögnum í landupplýsingakerfi varð mögulegt að birta upplýsingar um reiti sem kortin sýndu og sýna í kortasjám á netinu. Þannig var hægt að smella á reit, fá fram upplýsingar (lýsigögn) um kortið og kalla síðan fram skannaða mynd af kortinu. Nokkur atriði úr skránni yfir Orkugrunnkort og Jarðkönnunarkort hafa nú verið gerð leitarbær á vefsíðu Orkustofnunar.
Ný kortasjá fyrir kortasafn Orkustofnunar var unnin í samstarfi við ráðgjafafyrirtækið Alta. Hugmyndin um verkefnið þróaðist að hluta til úr verkefni um Orkuvefsjá og síðan tilraunaverkefni um birtingu upplýsinga í kortasjá um kort í mælikvarða 1:25 000, en þau byggðu bæði á eldri hugbúnaði sem orðinn var tæknilega úreltur. Kortavefsjá 1:25 000, var tilraunaverkefni sem byggði á sömu hugmyndafræði og Landgrunnsvefsjá og Orkuvefsjá Orkustofnunar, en sjárnar höfðu áður þróast út frá verkefni um Náttúruvefsjá. Tilraunaverkefnið var unnið árið 2014 innan Orkustofnunar þar sem flest gögnin voru þegar til.
Helsta markmið með kortasjánni fyrir kortasafnið er að veita áfram aðgang að öllu því efni sem eldri kortasjár gáfu, en með mun betra aðgengi og hugbúnaðarlegri virkni. Þremur kortasjám Orkustofnunar sem byggðu á eldri hugbúnaði (Orkuvefsjá, Landgrunnsvefsjá og Kortavefsjá 1:25 000) hefur nú verið lokað á netinu. Sem fyrr er mögulegt í kortasjánni að kalla fram hluta úr þekjum með blaðskiptingum kortaflokka og fá fram upplýsingar um kort, auk þess að ná fram mynd af hverju korti. Þá eru ítarefni, fróðleikur og lýsigögn sett fram með svipuðum hætti og í eldri kortasjám. Eitt af markmiðunum er jafnframt að sýna margbreytileika kortaflokkanna innan Orkugrunnkorta og Jarðkönnunarkorta og síðan jafnframt ólíka þætti korta í mælikvarða 1:25 000. Sá kortaflokkur var stórmerkilegt samstarfsverkefni unnið á vegum nokkurra íslenskra stofnana á síðustu tveimur áratugum 20. aldar. Þá er kortasjárverkefninu ætlað að sýna afrakstur samstarfs á sviði kortagerðar milli OS og annarra stofnana í þessu samhengi, en jafnframt gaf verkefnið þann möguleika að vekja athygli á mikilvægi bættrar framsetningar upplýsinga um ólíkar kortategundir (útgefið / óútgefið) í sömu kortasjánni. Þessi ólíku form gagna falla undir mismunandi lög hvað varðar varðveislu og skráningu, en aðeins útgefin kort eru skráð miðlægt hjá Landsbókasafni (án staðsetningarhnita).
Eldri upplýsingar um Kortavefsjá 1:25 000
Skjámyndir af Kortavefsjá 1:25 000