Kortasjá OS

Með hraðri þróun hugbúnaðarlausna til birtingar landupplýsinga á netinu í gegnum kortasjár, verður oft að skipta út eldri kortasjám þar sem virkni þeirra stenst ekki lengur samanburð á markaðnum. Notendur gera sífellt meiri kröfur um betra aðgengi að upplýsingum, ásamt meiri hraða og aukinni nákvæmni í staðsetningum svo eitthvað sé nefnt. Til að bregðast við þessu var efni Orkuvefsjár uppfært til birtingar í nýrri kortasjá OS. Nýja kortasjáin byggir á hugbúnaði frá Loftmyndum ehf. þar sem ein af þremur undirliggjandi grunnmyndum er nákvæm loftmynd af öllu landinu eins og þekkt er í map.is og tugum verkefna sem byggja á sömu veflausn.

Í fyrstu útgáfu nýju kortasjárinnar í desember 2016 voru birtar upplýsingar um borholur, eins og þær koma fram í reglubundnum útgáfum gagnasetta sem byggð eru á gögnum úr Borholuskrá OS. Kortasjáin mun fyrst um sinn einungis birta upplýsingar á íslensku. Helstu gagnaþekjur Kortasjár OS eru: Borholur, virkjanir, nytjavatn, leyfisveitingar, kortasafn OS, yfirlit yfir virkjunarkosti í Rammaáætlun 3, auk nokkurra yfirlitsþekja um fleiri málefni.

Mikilvægur þáttur í vinnslu nýju kortasjárinnar er að þróa leiðir til að auðvelda samskipti með upplýsingar um gögn stofnunarinnar, á fyrsta stigi borholur, en settur hefur verið upp innskráningarflipi þar sem hægt er að koma með ábendingar um staðsetningarhnit þar sem þarf að færa til hnit sem ekki eru á réttum stað af einhverjum ástæðum. Þá er jafnframt mögulegt að senda inn hnitsettar upplýsingar um staðsetningar á borholum sem ekki hafa verið í gagnagrunni OS og jafnframt má senda inn staðsetningarhnit sem vantað hefur í borholuskrána þó ítarlegar upplýsingar séu annars til um holuna. Í febrúar 2017 voru settar fram tvær gagnaþekjur á sviði nytjavatns: vatnsverndarsvæði og grunnvatnshlot.

Jafnframt eru birtar gagnaþekjur fyrir „mörk“, þ.e. núverandi sveitarfélagamörk, eldri gagnaþekja um jarðamörk (svonefnd Nytjalandsgögn sem hafa innbyggða nokkra skekkju) og gagnasett fyrir hreppa á Íslandi eins og þeir voru þegar þeir voru flestir árið 1950. Á næstunni munu ný uppfærð gagnasett birtast í Kortasjá Orkustofnunar.