Íslenskar kortasjár

Íslenskar kortasjár hafa birst á netinu í rúma tvo áratugi. Fyrsta stóra kortasjáin er talin hafa verið Borgarvefsjá á vegum Reykjavíkurborgar.  Um og eftir aldamótin kom síðan fram fjöldi sértækra kortasjáa frá ýmsum aðilum, þar á meðal Gagnavefsjá Orkustofnunar. Kortasjárnar hafa komið og farið og líklega eru fáar eða engar þeirra sem birtust fyrstu tíu árin enn birtar í sömu virkni og útliti og í upphafi. Nokkrar kortasjár eru hins vegar birtar á upphaflegri vefslóð en með algerlega nýjum hætti. Hugbúnaðurinn á netinu úreldist mjög hratt svo sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir þurfa að endurmeta stöðuna og skipta út hugbúnaði eða útgáfum hugbúnaðar með tiltölulega reglulegu millibili.  

Vefgáttin „landakort.is“ var opnuð á netinu í mars 2007. Hún hefur meðal annars veitt beinan aðgang á forsíðu í tengla fyrir allar þekktar kortasjár á Íslandi. Opnar kortasjár eru á annað hundrað hér á landi og innri kortasjár sem aðeins eru opnar innan stofnana, sveitarfélaga og fyrirtækja eru án efa lítið færri. Það hefur enginn opinber aðili það hlutverk að skrá og hafa heildaryfirsýn yfir íslenskar kortasjár eða halda úti upplýsingavef eins og landakort.is, en vefurinn er í einkaeign og rekinn án styrkja.

Landakort.is   Pistlar af vefnum "landakort.is" um verkefni sem tengjast Orkustofnun