Gagnavefsjá


gagnavefsja_skjamynd(Lokað í desember 2011 - Orkuvefsjá tók árið 2010 við hlutverki Gagnavefsjár varðandi gögn Orkustofnunar, en nú birtast þau í Kortasjá OS )

Orkustofnun (áður Raforkumálaskrifstofan) hefur safnað gögnum um orkulindir landsins í meira en hálfa öld. Árið 1989 hófst skráning slíkra gagna í gagnagrunn stofnunarinnar. Gagnavefsjá var opnuð á netinu í mars 2004 og hafði upphaflega það hlutverk að auðvelda aðgang að efni úr grunninum. Aðilar að verkefninu voru orkumálasvið Orkustofnunar, Vatnamælingar sem þá voru hluti stofnunarinnar og Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) sem nýlega höfðu verið skildar frá henni, auk þess sem síðar bættust við gögn frá Umhverfisstofnun. Vatnamælingar, sem nú eru hluti Veðurstofu Íslands og Umhverfisstofnun, hættu að uppfæra gögn til birtingar í Gagnavefsjá og fóru þess í stað að nýta hugbúnað Náttúruvefsjár í þeim tilgangi.

Búnaður

Gagnavefsjá notaði hugbúnað frá ESRI, en allar þekjur voru sóttar í gagnagrunn með ArcSDE (Spatial Database Engine) þar sem byggt var á ArcIMS (Internet Map Server). Samstarfsaðili um búnað var Samsýn, umboðsaðili ESRI á Íslandi.

Gögn

Í Gagnavefsjá var veittur aðgangur að gögnum um orkulindir, orkubúskap, orkunotkun og aðrar rannsóknir um náttúrufar landsins sem aflað hafði verið fyrir almannafé. Einnig var veittur aðgangur að gögnum sem stofnanirnar höfðu aflað fyrir verkkaupa en í þeim tilfellum hafði verið gefið samþykki til birtingar. Meðal efnis voru upplýsingar um vatnasvið, vatnshæðarmælakerfi, rennslismælistaði og annað tengt fall- og stöðuvötnum. Upplýsingar voru gefnar um jarðhitasvæði, borholur, sýnatökustaði og efnagreiningar og þar mátti einnig finna gögn tengd orkuvinnslu. Þá voru birtar þekjur yfir friðlýst svæði og náttúruminjaskrá, auk hæðarlína og vatnafars.

Gagnavefsjá byggði á hugbúnaði sem ekki er lengur uppfærður (eftir 2006) af framleiðanda. Orkustofnun hafði greitt kostnað við rekstur vefsjárinnar og þar sem gögn annarra voru ekki lengur uppfærð vegna birtingar þar, lá fyrir að stofnunin yrði með tímanum að færa birtingu upplýsinga um þau gögn sem eru á ábyrgðarsviði hennar og setja í Orkuvefsjá. Hugmyndin var að þegar Gagnavefsjáin yrði lögð af, myndi efni hennar verða gert aðgengilegt í öðrum vefsjám allt eftir stefnu stofnananna og ábyrgðarsviði, en einnig hafði áhrif að nákvæmni undirliggjandi gagna í vefsjám leiddi til þess að fara varð vel yfir öll eldri staðsetningarhnit til dæmis vegna birtingar ofan á myndgrunnum.

Efnisflokkar í Gagnavefsjá voru:

Vatnafar: Vatnshæðarmælar, rennslismælistaðir, aflagðir vatnshæðarmælar, veðurstöðvar Vatnamælinga, flóðagreindir vatnshæðarmælar, vatnasvið, dýptarkort, ár, vötn og jöklar (Veðurstofan).

Jarðfræði: Virkar og útkulnaðar megineldstöðvar og öskjurimar, nútímahraun, gosbelti og aldur jarðlaga (ÍSOR).

Jarðhiti: Borholur, hverir og laugar, viðnámsmælingar, jarðhitasvæði  háhiti – yfirborðsummerki, rannsóknasvæði háhita og jarðhitakort (Orkustofnun og ÍSOR)

Orkunýting: Sundlaugar, hitaveitur, vatnsveitur, virkjanir, varaafl, heimarafstöðvar og lón í rekstri (Orkustofnun).

Vatnsorkukostir: Stöðvarhús, stíflur, göng, skurðir, lón, vindatlas og mælistöðvar (Orkustofnun).

Náttúruvernd: Friðlýst svæði, náttúruminjaskrá og náttúruverndaráætlun (Umhverfisstofnun).

Staðfræðigögn: Þéttbýli, jarðamörk, örnefni, hæðarlínur og vegir (Aðrir).

Varðveisla heimilda um Gagnavefsjá

Engar reglur eru til um afritun og varðveislu á útliti vefsjáa svo vitað sé eins og hefð hefur skapast um varðandi hefðbundnar vefsíður á netinu. Hugbúnaður vefsjáa og fjölbreytileiki gagna getur gert það erfitt að afrita og þar með varðveita heimildir um vefsjár. Varðveisluhlutverk á þessu sviði ætti að vera hjá lykilsöfnum landsins.

OS hefur reynt að tryggja að heimildir séu til um útlit og virkni Gagnavefsjár, með nokkuð víðtækri afritun á ýmsum tegundum skráa og gagna, auk þess sem útgáfur gagnaþekja eru m.a. varðveittar sem formskrár (shp). Með því að smella á sýnishorn af útliti einstakra kafla Gagnavefsjár hér má fá hugmyndir um framsetningu efnis, eins og það birtist síðast. Nánari upplýsingar: os (hjá) os.is

Skjámyndir af Gagnavefsjá (íslensk útgáfa)

Skjámyndir af Gagnavefsjá (ensk útgáfa)