Orkuvefsjá

ovs_skjamynd1(Lokað í nóvember 2019)

Orkuvefsjá tók við hlutverki Gagnavefsjár í júní 2010 sem birtingarstaður upplýsinga um staðtengjanleg gögn af Íslandi sem Orkustofnun ber ábyrgð á. Unnið var lengi að því að yfirfara og uppfæra þau gögn Gagnavefsjár sem birt hafa verið í vefsjánni og eru á ábyrgð Orkustofnunar og flytja þau yfir í annað hugbúnaðarumhverfi til birtingar á netinu. Þá var unnið að því að byggja upp á Orkustofnun ný landræn gagnasöfn á fleiri sviðum en hingað til, en birting upplýsinga um þau var í Orkuvefsjá.

Ástæðurnar fyrir þessum breytingum voru meðal annars þær að hugbúnaður Gagnavefsjár þarfnaðist uppfærslu. Þegar ákvörðun var tekin um breytingarnar höfðu tveir upphaflegir samstarfsaðilar af fjórum í Gagnavefsjárverkefninu (Vatnamælingar, sem áður voru hluti Orkustofnunar en nú innan Veðurstofu Íslands og Umhverfisstofnun), dregið sig út úr því, en stofnanirnar hættu að viðhalda gögnum sínum í Gagnavefsjá þar sem þau áttu að birtast í Náttúruvefsjá. Eftir stóðu þau gögn sem stjórnsýsluhluti Orkustofnunar og ÍSOR höfðu séð um. Hluti þeirra átti einnig að birtast í Náttúruvefsjá og þurfti að yfirfæra þau á annað form um leið og þau voru endurskoðuð. Orkuvefsjá hefur nú vikið fyrir Kortasjá OS og verður henni lokað á fyrrihluta árs 2019 vegna úrelts hugbúnaðar.

Búnaður

Orkuvefsjá notaði hugbúnaðarlausn (Flashmap) sem þróuð var af hugbúnaðarfyrirtækinu Gagarín vegna verkefnis um Náttúruvefsjá, en gerð þess búnaðar var upphaflega styrkt af Rannís og síðan af Verkefnisstjórn um íslenska upplýsingasamfélagið og Orkustofnun. Hugbúnaðarlausnin þróaðist innan samstarfsverkefnis fyrirtækja og stofnana á nokkurra ára tímabili. Í framhaldi af Náttúruvefsjárverkefninu lét Orkustofnun þróa hugbúnaðinn enn frekar og var sú útgáfa hans notuð í Landgrunnsvefsjá. Sú lausn lá jafnframt til grundvallar í Orkuvefsjá. Við hönnunina var lögð áhersla á einfalda og notendavæna lausn sem auðveldaði bæði innskráningu og miðlun samræmdra upplýsinga um gögn frá ólíkum aðilum. Í kortasjánni voru til staðar eiginleikar eins og þysjun, tilfærsla á skjá, prentun, mælikvarði og staðsetningarhnit, auk þess sem mögulegt var að færa til þekjur í lista (Virk lög) til að draga fram ólík áhersluatriði. Kortasjáin gaf kost á að miðla ýmiss konar upplýsingum eins og fróðleik, lýsigögnum og ítarefni, þar sem vísað var til annars efnis með tenglum í efni á vefsíðu Orkustofnunar sem og hjá öðrum aðilum. Í hugbúnaðinum voru möguleikar til að birta upplýsingar á fleiri tungumálum og var ensk útgáfa vefsjárinnar opnuð samhliða þeirri íslensku. Framsetning gagna miðaðist við notkun viðmiðunar ÍSN93.

Gögn

Orkuvefsjá birti bæði vektor gagnasöfn og rastamyndir sem aðgengilegar voru gegnum vefþjónustur, ásamt fróðleik, lýsigögnum og ítarefni. Í upphafi var áherslan lögð á gögn um raforkuver, notkun jarðhita (gróðurhús, fiskeldi, iðnaður og sundlaugar) og upplýsingar um kort unnin vegna orkurannsókna og orkuframkvæmda auk vatnafars- og jarðfræðikorta stofnunarinnar. Síðar bættust við gögn um nytjavatn, borholur og leyfisveitingar á vegum Orkustofnunar. Einu utanaðkomandi gögnin voru SPOT heildargervitunglamynd af Íslandi, en Orkustofnun samdi um notkun hennar við Landmælingar Íslands. Þá birtust tvær hæðarmyndir sem unnar voru fyrir Orkustofnun hjá Íslenskum orkurannsóknum. Bæði Landgrunnsvefsjá og Orkuvefsjá voru hvor um sig í tveimur útgáfum. Önnur er opin á netinu, en hin var notuð til að þróa gagnaþekjur og prófa útlit áður en þau gögn sem töldust tilbúin voru birt almenningi. Í innri vefsjánum var jafnframt efni sem eingöngu var ætlað til nota í daglegum störfum starfsmanna OS.

Þegar Gagnavefsjá var aflögð lokaðist aðgangur að upplýsingum um staðsetningu á borholum sem þar hafði verið. Ekki reyndist viðunandi að opna sömu gagnaþekjuna í Orkuvefsjá á þeim tíma, þar sem skekkja í ýmsum eldri hnitum kom mun skýrar í ljós á nákvæmari myndgrunni. Ákveðið var að setja tímabundið upp vefsvæði til að notendur utan  stofnunarinnar gætu skoðað staðsetningar á borholum eins og þau hafa verið sett í grunninn, en þau birt án ábyrgðar. Stofnunin hefur unnið að yfirferð á eldri hnitum og að söfnun nýrra. Mögulegt er á vefsíðu OS að leita í skrá um alla borstaði og hægt er nú að finna upplýsingar um staðsettar borholur í Kortasjá OS, eins og önnur landupplýsingagögn stofnunarinnar.


Skjámyndir af Orkuvefsjá (íslensk útgáfa)

Skjámyndir af Orkuvefsjá (ensk útgáfa)