Eldri kortasjár OS

Gagnavefsjá

(Lokað í desember 2011)

gagnavefsja_skjamynd

Gagnavefsjá birti upplýsingar um valið efni úr gagnagrunni Orkustofnunar (OS), en OS (áður Raforkumálaskrifstofan) hefur safnað gögnum um orkulindir landsins í meira en hálfa öld. Vefsjáin, sem var bæði á íslensku og ensku, var opnuð á netinu í mars árið 2004 og voru aðilar að verkefninu: orkumálasvið OS, Vatnamælingar OS og Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), sem höfðu árið áður verið formlega skildar frá OS, en síðar bættust við gögn frá Umhverfisstofnun. Vatnamælingar sem nú eru hluti Veðurstofu Íslands og Umhverfisstofnun hættu að uppfæra  gögn til birtingar í Gagnavefsjá og fóru að nýta Náttúruvefsjá í þeim tilgangi. Gagnavefsjá vék fyrir Orkuvefsjá OS, en þar birtust eingöngu gögn sem voru á ábyrgðarsviði OS samkvæmt núgildandi lögum.

Nánar

Náttúruvefsjá

(Lokað í desember 2011)

natturuvefsja_skjamynd

Náttúruvefsjá var samstarfsverkefni nokkurra stofnana þar sem markmiðið var að veita aðgang að upplýsingum úr landfræðilegum gagnasöfnum um náttúru Íslands. Vefsjáin birtist fyrst á netinu í október 2008 og þar voru margbreytileg gögn frá ólíkum aðilum um eðli íslenskrar náttúru á landi, sjó og vatni gerð aðgengileg innan sömu vefsjárinnar. Undirbúningsverkefni fyrir Náttúruvefsjá var styrkt af Rannís, en kostnaður við vinnslu verkefnisins var greiddur til helminga af verkefnisstjórn um íslenska upplýsingasamfélagið og Orkustofnun, auk framlags hugbúnaðarfyrirtækisins Gagarín sem þróaði hugbúnaðinn. Forræði og ábyrgð á Náttúruvefsjá var hjá Vatnamælingum Orkustofnunar og fylgdi verkefnið yfir til Veðurstofu Íslands í ársbyrjun 2009. 

Nánar

Orkuvefsjá

(Lokað í nóvember 2019)

                                                                                                                                                                                    ovs_skjamynd1Orkuvefsjá tók í júní 2010 við hlutverki Gagnavefsjár sem birtingarstaður upplýsinga um staðtengjanleg gögn um Ísland í málaflokkum sem voru á ábyrgð Orkustofnunar. Unnið hafði verið að uppfærslu gagnasafna stofnunarinnar og vinnslu lýsigagna fyrir þau. Helstu gagnaflokkar í Orkuvefsjá voru á sviði raforku, jarðhita og nytjavatns, auk þess sem ítarlegar upplýsingar voru um borholur, eldri kortaflokka Orkustofnunar og leyfisveitingar á vegum stofnunarinnar. Vefhugbúnaður var sá sami og notaður var í Landgrunnsvefsjá. Hluti þess efnis Orkuvefsjár sem var í kaflanum Kortasafn var settur fram með lítið eitt öðrum hætti í tilraunaverkefninu Kortavefsjá – 1:25 000, þar sem jafnframt voru birtar upplýsingar um kort í mælikvarða 1:25 000 frá þremur öðrum stofnunum. Meginhluti efnis kortasjárinnar var birtur bæði á íslensku og ensku. Ný Kortasjá OS hefur tekið við hlutverki Orkuvefsjár.

Nánar     

Landgrunnsvefsjá

(Lokað í nóvember 2019)

Landgrunnsvefsjá veitti aðgang að upplýsingum um gögn sem tengdust landgrunni Íslands, en það var einkum efni frá Drekasvæðinu er varðaði útboð á sérleyfum til rannsókna og vinnslu á hafsbotni. Sýnd voru reitakerfi fyrir útboðssvæði, yfirlit yfir hafsbotnsgögn og margvíslegar upplýsingar um gögn úr leiðöngrum. Kortasjánni var meðal annars ætlað að auðvelda þeim sem vildu fá upplýsingar um leyfissvæði að finna hvaða gögn voru til, af hvaða svæðum, hver aflaði þeirra og hvernig, hvenær gagnaöflunin fór fram og hvar var mögulegt að fá aðgang að gögnunum. Kortasjáin var opnuð í ársbyrjun 2009 og var  efni hennar birt bæði á íslensku og ensku. Ný Landgrunnssjá hefur tekið við hlutverki Landgrunnsvefsjár.

Nánar

Kortavefsjá 1:25 000

(Lokað í nóvember 2019)

Kortavefsjá 1:25 000, var tilraunaverkefni sem byggði á sömu hugmyndafræði og Landgrunnsvefsjá og Orkuvefsjá Orkustofnunar, en sjárnar höfðu áður þróast út frá verkefni um Náttúruvefsjá. Tilraunaverkefnið var unnið árið 2014 innan Orkustofnunar þar sem flest gögnin voru þegar til og með leyfi frá Gagarín ehf til notkunar hugbúnaðar frá fyrirtækinu. Gagnaframsetning var með sama hætti og í kortasafnshluta Orkuvefsjár þar sem hægt var að kalla fram hluta úr þekjum með blaðskiptingum kortaflokka og fá fram upplýsingar um kort, auk þess að ná fram mynd af hverju korti. Þá voru ítarefni, fróðleikur og lýsigögn sett fram á sama hátt og í fyrrgreindum kortasjám stofnunarinnar. Helstu markmið með tilraunaverkefninu um kortavefsjá 1:25 000 voru að sýna fram á gagnsemi þess að geta skoðað í gegnum kortasjá upplýsingar um margvísleg íslensk kort, staðsetningar og svæðin sem þau ná yfir. Jafnframt að sýna hvernig hægt væri að fá yfirsýn yfir flókna kortaflokka og samspil kortagagna af ólíkri gerð og uppruna í einni og sömu kortasjánni. Þá var einnig markmiðið að sýna margbreytileika kortaflokksins í mælikvarða 1:25 000, en hann var stórmerkilegt samstarfsverkefni unnið á vegum nokkurra íslenskra stofnana á síðustu tveimur áratugum 20. aldar. Hægt er að skoða kortin í  Kortasjá OS og í sérstakri sjá fyrir kortasafn OS.   

Nánar