Stafrænar landupplýsingar
Landfræðilegum gögnum Orkustofnunar, þ.e. þeim sem eru á stafrænu formi, má í meginatriðum skipta í þrennt: gagnagrunna með staðtengdum gögnum, stafræn gagnasett sem unnin eru í landupplýsingakerfum og rastagögn sem sýna skönnuð kort úr flokkunum Orkugrunnkort og Jarðkönnunarkort.
Gagnagrunnar
Þekktasti gagnagrunnur Orkustofnunar, þar sem fram koma staðtengd gögn, er án efa Borholuskrá. Aðrir grunnar svipaðrar gerðar eru flestir notaðir við kerfisbundna söfnun og innskráningu upplýsinga um orkumál af ýmsum toga eða aðra málaflokka sem stofnunin ber lagalega ábyrgð á. Grunnarnir eru einnig notaðir við gerð og framsetningu landrænna gagnasetta meðal annars á sviði jarðhita, raforkuvinnslu, nytjavatns og fyrir upplýsingar um leyfi sem útgefin eru af Orkustofnun.
Stafræn gagnasett - Vektor gögn
Opið aðgengi að landfræðilegum gögnum byggir mjög á því að til verði vel skilgreind, skipulögð og samhæfð landræn gagnasett (e. spatial data sets), sem birta má meðal annars í kortasjám (e. geoportals) af ýmsu tagi á netinu. Gagnasett Orkustofnunar birtast í Landgrunnsvefsjá og Kortasjá OS og er jafnframt miðlað til annarra notenda vegna notkunar í landupplýsingakerfum þeirra.
Upplýsingar um gögnin birtast einnig í kortasjánum í formi svonefndra lýsigagna (e. metadata). Orkustofnun hefur byggt upp eigin lýsigagnagrunn, sem tekur mið af alþjóðlegum stöðlum, en hann er gerður fyrir landræn gögn á stofnuninni, gömul sem ný. Efni úr grunninum er meðal annars notað til að færa upplýsingar inn í önnur lýsigagnaverkefni og lýsigagnavefi eins og Landupplýsingagátt LMÍ, sem birtir heimildir á landsvísu um landræn gagnasöfn frá stofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum. Á sama hátt flyst efni úr Landupplýsingagátt með reglubundnum hætti inn í INSPIRE Geoportal, sem er samræmd lýsigagnagátt á sviði landupplýsinga fyrir öll lönd Evrópu.
Lýsigagnagrunnur OrkustofnunarStafræn rastagögn
Kortasafn Orkustofnunar samanstendur annars vegar af kortum sem orðið hafa til í starfsemi stofnunarinnar og hjá forvera hennar Raforkumálaskrifstofunni og hins vegar af kortum sem aflað hefur verið frá ýmsum aðilum hér á landi og erlendis.
Stofnunin stóð um áratuga skeið fyrir öflugri kortavinnslu, upphaflega mest á sviði tækni- og framkvæmdakorta (Orkugrunnkort) og síðar jafnframt á sviði jarðfræði- og vatnafarskorta (Jarðkönnunarkort), en mörg Jarðkönnunarkortanna voru gefin út og markaðssett. Með tilkomu stafrænnar vinnslu í landupplýsingakerfum var hluti eldra efnis á þessu sviði færður yfir á vektor form vegna landupplýsingavinnslu auk þess sem nýjustu gögnin urðu til á stafrænu formi. Með aðgreiningu ÍSOR og Vatnamælinga frá Orkustofnun á sínum tíma og stjórnsýslulegri tilfærslu verkefna frá OS, á stofnunin ekki ein umráðarétt yfir þessum stafrænu vektorgögnum.
Stærstu kortaflokkar safnsins, Orkugrunnkort og Jarðkönnunarkort alls um eitt þúsund titlar, hafa verið skannaðir í hárri upplausn og verið dreift á rastaformi (tiff) til notkunar á mörgum stofnunum. Birting rastamynda (jpg) af kortum og aðgengi annarra upplýsinga um þau er síðan annað hvort á vefsíðu OS eða í Kortasjá OS.
Almennt um landræn gögn
Gögnum má í meginatriðum skipta í tvo grunnflokka eftir því hvort þau eru í eðli sínu staðtengjanleg eða ekki. Landrænum (staðtengjanlegum) gögnum má síðan skipta í þrjá meginflokka: fjarkönnunargögn, kortagögn og töluleg rannsókna- eða stjórnsýslugögn. Stærstur hluti gagnasafna Orkustofnunar er í síðastnefnda flokknum, en nokkuð er einnig til af kortagögnum, einkum frá fyrri tíð. Form gagnanna er annaðhvort hefðbundið (pappír/filmur) eða stafrænt (rasti, vektor, texti/tölur). Gagnlegt er að gera greinarmun á stafrænum skrám annars vegar og hins vegar stærri gagnasöfnum (gagnaflokkum/gagnasettum) þar sem skráðar eru ýmsar nánari upplýsingar um hin stafrænu gögn (landræn lýsigögn / e. spatial metadata ). Sömu gögnin eru hins vegar oft til á ólíku formi og eru af mismunandi gerð, eins og sjá má á skýringarmynd.