Gagnasöfn
Orkustofnun hefur aflað margvíslegra gagna um orkurannsóknir og orkunýtingu landsins á löngum tíma. Stór hluti þeirra gagna sem hafa orðið til í starfsemi Orkustofnunar er stafrænn og vistaður í gagnagrunnum og/eða landupplýsingakerfum. Í þeim breytingum sem orðið hafa á stofnuninni í gegnum árin hefur verið reynt að tryggja að þau gögn sem unnin hafa verið fyrir opinbert fé séu aðgreind og stefnt er að því að upplýsingar um slík gagnasöfn verði opnar öðrum á netinu.
Borholuskrá
Leitarvalmynd Borholuskrár
Þekktasti gagnagrunnur Orkustofnunar er án efa Borholuskrá, en í hana eru skráðar upplýsingar um yfir 15 000 borholur, boraðar allt frá árinu 1904. Valdar upplýsingar úr skránni hafa verið settar fram á vefsíðu Orkustofnunar og þar er mögulegt að sjá afmarkaða þætti úr Borholuskránni og leita eftir nokkrum efnisatriðum. Einnig er mögulegt að skoða í Kortasjá OS staðsetningu á þeim borholum sem skráðar hafa verið með staðsetningarhnitum. Nánar...
Talnaefni
Orkustofnun safnar tölulegum gögnum um ýmsa þætti orkumála, svo sem um vinnslu, innflutning, notkun og verð á orku og um vissa þætti í rekstri orkumannvirkja. Auk þess eru varðveittar á stofnuninni ýmsar aðrar upplýsingar tengdar orkubúskap þjóðarinnar. Flestar töflur uppfærast árlega. Nánar...
Stafrænar landupplýsingar
Stafrænum landupplýsingagögnum Orkustofnunar má í meginatriðum skipta í annars vegar gagnagrunna með staðtengdum gögnum og hins vegar stafræn gagnasett sem unnin eru í landupplýsingakerfum. Kort á pappírsformi eru geymd í Kortasafni eða Teikningasafni stofnunarinnar. Þeir kortaflokkar sem Orkustofnun ber faglega ábyrgð á hafa verið skannaðir í hárri upplausn og verið dreift til notkunar á rastaformi hjá mörgum stofnunum. Framsetning og birting kortagagnanna eða upplýsinga um þau fer síðan annað hvort fram á vefsíðu OS eða í Kortasjá OS . Nánar...
Kortasafn
Leitarvalmynd fyrir Orkugrunnkort og Jarðkönnunarkort
Kortasafn Orkustofnunar samanstendur annars vegar af kortum sem orðið hafa til í starfsemi stofnunarinnar og hjá forvera hennar Raforkumálaskrifstofunni og hins vegar af kortum sem aflað hefur verið frá ýmsum aðilum hér á landi og erlendis. Safnið skiptist í fjóra meginflokka: Orkugrunnkort, Jarðkönnunarkort, kort í skýrslum OS og Íslandskort útgefin af öðrum. Nánar...
Teikningasafn
Leitarvalmynd fyrir Teikningasafn Orkustofnunar
Teikningasafnið inniheldur rúmlega 38.000 heimildir (1924-2001) sem unnar voru á vegum teiknistofu stofnunarinnar og forvera hennar. Leitarvalmyndin inniheldur sex leitarbæra skráningarþætti og tengla inn í ítarlegra skráningarform. Nánar...