Landrænn lýsigagnagrunnur OS

Til þess að halda utan um landræna gagnaflokka og gagnasett er nauðsynlegt að upplýsingar um gögnin séu vel skráðar. Við skráninguna verða til gögn um gögn eða svonefnd lýsigögn, en við sérhverja uppfærslu gagnasetts þarf nýja lýsigagnafærslu. Orkustofnun setti á árinu 2012 upp sérstakan lýsigagnagrunn til þess að tryggja stöðlun, samræmi og yfirsýn yfir öll lýsigögn fyrir landrænar upplýsingar á stofnuninni. Gögn í grunninum eru í þremur meginefnisflokkum:

  • „Landsþekjandi“ gagnasett sem falla undir hugmyndafræði INSPIRE
  • Gögn um landgrunn Íslands, fyrst um sinn einkum frá Drekasvæði

Skráningarþættirnir í grunninum taka mið af þremur lýsigagnastöðlum, þ.e. „kjörnum“ (e. metadata cores) efnisatriða úr alþjóðlegum lýsigagnastöðlum. Alls eru í lýsigagnagrunni OS 40 skráningarþættir, nokkrir þeirra eru sameiginlegir í öllum kjörnunum þó þeir hafi ekki nákvæmlega sama heiti og skilgreiningu en aðrir eru sérstakir og koma aðeins fyrir í einum kjarna. Um er að ræða eftirtalda staðla:

  • International standard: Geographic information – Metadata. ISO 19115 (22 atriði í kjarna)
  • INSPIRE Metadata Implementing Rules: Technical Guidelines based on EN ISO 19115 and EN ISO 19119 (24 atriði í kjarna)
  • Dublin Core Metadata Initiative  (15 atriði í kjarna)

Hvatinn að baki verkefninu var í meginatriðum þríþættur:

  • Lög nr. 44/2011 um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar, skylda opinberar stofnanir m.a. til að skrá lýsigögn fyrir öll landræn gagnasett sem falla undir INSPIRE tilskipun Evrópusambandsins og miðla lýsigögnum til birtingar í samræmdu opinberu vefverkefni á netinu (Landupplýsingagátt).
  • Landfræðileg gögn af landgrunninu, einkum Drekasvæði hafa verið skráð á liðnum misserum. Birting upplýsinga um þau í íslenskri og enskri útgáfu Landgrunnsvefsjár hefur kallað á samræmda skráningu og vistun lýsigagna fyrir þessi gagnasett.
  • Fá þurfti samræmda yfirsýn yfir öll eldri landupplýsingagögn á stafrænu formi í fórum stofnunarinnar, en í flokki Jarðkönnunarkorta eru t.d. til á annað hundrað eldri gagnasett á vektor formi. Langtímavarðveisla gagnanna byggir meðal annars á því að til séu staðlaðar upplýsingar um þau og staðsetningu þeirra á tölvukerfinu, en innan tíðar gæti þurft að afrita slík gögn og koma þeim á samræmt varðveisluform vegna skila til Þjóðskjalasafns. Eina skynsamlega leiðin til að halda utan um umræddar gagnaupplýsingar er með skráningu lýsigagna samkvæmt alþjóðlegum stöðlum í gagnagrunn.

Nánari upplýsingar um verkefnið: thorvaldur.bragason (hjá) os.is