Landshlutakort - 1:25 000
Verkefni um samræmda kortagerð í lok síðustu aldar
Samræmd kortagerð á Íslandi í mælikvarða 1:25 000 hófst fyrir rúmum þremur áratugum, en kortaraðir af landinu höfðu fram að því verið í ólíkum mælikvörðum, blaðskiptingum og vörpunum. Nokkrar stofnanir hófu á þessum tíma samstarf undir forystu Landmælinga Íslands um samræmda kortagerð í þessum mælikvarða og urðu í þeirri vinnu meðal annars til ýmis grunnkort, en auk Landmælinga Íslands sem stóðu að gerð margvíslegra kortgrunna og gáfu út staðfræðikort, urðu til gróður- og jarðakort hjá Náttúrufræðistofnun, vatnafarskort, berggrunnskort og jarðgrunnskort hjá Orkustofnun og einnig grunnkort hjá Landsvirkjun. Margháttuð sérhæfð vinna í þessum verkefnum fór fram hjá Verkfræðistofunni Hnit hf.
Blaðskipting kortaflokksins í mælikvarða 1:25 000 gerði ráð fyrir um 730 kortarömmum. Byggt var á Gauss/Krüger vörpun þar sem blaðskipting fylgir lengdar- og breiddarbaugum og þekur hvert kort 15´ austur vestur, en 7´30´´ norður suður.
Við skráningu kortasafns Orkustofnunar á árunum 2011-2012 og með birtingu upplýsinga um kortasafn stofnunarinnar á netinu urðu til í gagnagrunni upplýsingar sem gerðu það kleift að ná utan um það verkefni að birta í sérstakri kortasjá upplýsingar um öll kort sem vitað er að til hafi orðið í mælikvarða 1:25 000 á árabilinu 1984-2000. Niðurstaðan af því er að nú er talið að flokknum tilheyri um 63 útgefin kort og 101 grunnkort á ýmsum stigum, alls 164 kort.
Afrakstur kortaverkefnisins í mælikvarða 1:25 000 hafði ekki áður verið tekinn saman á einn stað eins og gert var í tilraunaverkefni Orkustofnunar þar sem allar upplýsingar um þekkt kort voru settar fram í kortavefsjá, en þar var gefin yfirsýn yfir þetta merkilega og áhugaverða verkefni í kortasögunni. Tilraunakortasjánni hefur nú verið lokað en upplýsingarnar úr henni hafa verið færðar í þessa kortasjá.
Aðgreinanlegir kortaflokkar innan málaflokksins eru hér taldir vera alls 11 að tölu, þ.e. fimm flokkar útgefinna korta og sex flokkar óútgefinna grunnkorta. Flokkar útgefinna korta eru: Staðfræðikort (LMÍ), Gróður- og jarðakort (RALA/NST), Berggrunnskort (OS), Jarðgrunnskort (OS) og Vatnafarskort (OS). Flokkar óútgefinna korta eru: Grunnkort Orkustofnunar, Grunnkort Landsvirkjunar, Grunnkort RALA/Náttúrufræðistofnunar, Grunnkort Landmælinga Íslands, Grunnkort Army Map Service (AMS) og Tilraunakort af Ölfussvæði
Kortaflokkurinn í mælikvarða 1:25 000 er líklega einn margbreytilegasti kortaflokkurinn hér á landi, hvað varðar flækjustig fyrir framsetningu í kortasjá. Hann er eitt skýrasta dæmið um kortaflokk sem lítið sem ekkert hefur verið birt um opinberlega til þessa fyrir utan skýrslur tilraunaverkefnis umhverfisráðuneytisins á tímabilinu 1992-1994. Mikilvægt er að saga kortaflokksins verði tekin saman og að hann fái viðurkennt heiti. Efni þessarar kortasjár auk annars efnis á Orkustofnun um kort og kortagerð í mælikvaðrða 1:25 000 er ákveðinn grunnur að sögulegri samantekt auk upplýsinga úr skýrslum sem til urðu í fyrrnefndu tilraunaverkefni umhverfisráðuneytisins. Meiri upplýsingar um verkefnið má einnig finna hjá Landmælingum Íslands og í skjalasöfnum annarra stofnana sem þátt tóku í því. Hugsanlegt er að enn leynist fleiri filmur og grunnkort einhvers staðar á stofnunum. Með þeirri framsetningu sem hér er orðin aðgengileg má í skilgreindum farvegi bæta við skrám og myndum af fleiri kortum.
Aðdragandi kortagerðar 1:25 000
Samræmd kortagerð á Íslandi í mælikvarða 1:25 000 hófst fyrir rúmum þremur áratugum, en kortaraðir af landinu höfðu fram að því verið í ólíkum mælikvörðum, blaðskiptingum og vörpunum. Danir höfðu á fyrrihluta 20. aldar kortlagt allt landið í mælikvarða 1:100 000 og auk þess suður- og vesturhluta landsins í 1:50 000. Bandaríkjamenn höfðu um miðja öldina kortlagt allt landið á 300 kortblöðum í 1:50 000 og síðar átt samstarf við Íslendinga um endurgerð þeirra korta, en það verkefni dagaði uppi á níunda áratugnum þegar rúmur helmingur nýs 200 blaða kortaflokks hafði komið út. Á fjögurra áratuga tímabili á seinni hluta 20. aldar unnu stofnanir í orkugeiranum (Raforkumálastjóri (síðar) Orkustofnun, Landsvirkjun og RARIK) að kortagerð í mælikvörðum 1: 20 000 sem og í stærri mælikvörðum af afmörkuðum svæðum á hálendi landsins, alls yfir 700 titlar. Rannsóknastofnun landbúnaðarins vann að gerð gróður- og jarðakorta í mælikvörðum 1: 40 000 og 1:20 000 og Orkustofnun vann að gerð jarðfræði- og vatnafarskorta í ýmsum mælikvörðum. Fjölmörg grunnkort urðu til af ýmsum gerðum þannig að kortrammar skarast verulega milli þekja á ákveðnum landsvæðum. Á áttunda og níunda áratugnum unnu síðan Landmælingar Íslands að myndkortagerð hundraða titla af suðvesturhorni landsins í mælikvarða 1:10 000. Í kjölfar þessara verkefna, þar sem þörf fyrir samræmdan kortagrunn af landinu kom sífellt sterkar í ljós, náðist samstaða margra stofnana um að leggjast á eitt um að Íslendingar eignuðust nýjan samstæðan kortgrunn í mælikvarða 1:25 000, sem mætti nýta við margs konar kortagerð (staðfræðikort, gróður- og jarðakort, vatnafarskort og jarðfræðikort svo eitthvað sé nefnt). Þessi vinna fór af stað hjá ýmsum stofnunum hér á landi, en dagaði uppi á tíunda áratugnum einkum þar sem stuðningur fékkst ekki hjá stjórnvöldum til að fjármagna verkefnið, sem hefði alls byggt á um 730 kortrömmum. Í tengslum við hugmyndafræði verkefnisins var unnið gríðarmikið starf í svonefndu tilraunaverkefni í kortagerð á vegum umhverfisráðuneytisins 1992-1994, en þar störfuðu tugir starfsmanna allra helstu stofnana og fyrirtækja sem unnu að einhvers konar kortagerð í landinu, í níu vinnuhópum og skiluðu um tveimur tugum lokaskýrslna.
Kortavefsjá 1:25 000 á Orkustofnun - Tilraunaverkefni um kortavefsjá
Helstu markmið með tilraunaverkefni Orkustofnunar (2014) um kortavefsjá 1:25 000 voru:
1) að sýna fram á gagnsemi þess að geta skoðað í gegnum kortasjá upplýsingar um margvísleg íslensk kort, staðsetningar og svæðin sem þau ná yfir.
2) að sýna hvernig hægt væri að fá yfirsýn yfir flókna kortaflokka og samspil kortagagna af ólíkri gerð og uppruna í einni og sömu kortasjánni.
3) að sýna margbreytileika kortaflokksins í mælikvarða 1:25 000, en hann var stórmerkilegt samstarfsverkefni unnið á vegum nokkurra íslenskra stofnana á síðustu tveimur áratugum 20. Aldar.
4) að vekja athygli á nauðsyn þess að skrá og birta í kortasjá heimildir um kortaflokka og kortagerð Íslendinga, með það að markmiði að hægt verði að skrifa síðar kortasögu Íslands á lýðveldistímanum.
Kortavefsjáin var tilraunaverkefni sem byggði á sömu hugmyndafræði og Landgrunnsvefsjá og Orkuvefsjá Orkustofnunar, en sjárnar höfðu áður þróast út frá verkefni um Náttúruvefsjá. Tilraunaverkefnið var unnið innan Orkustofnunar með leyfi frá Gagarín ehf til notkunar hugbúnaðarins Flashmap 2.0 frá fyrirtækinu. Gagnaframsetning var með sama hætti og í kortasafnshluta Orkuvefsjár þar sem hægt var að kalla fram hluta úr þekjum með blaðskiptingum kortaflokka og fá fram upplýsingar um kort, auk þess að ná fram mynd af hverju korti. Þá voru ítarefni, fróðleikur og lýsigögn sett fram á sama hátt og í fyrrgreindum vefsjám stofnunarinnar.
Í Orkuvefsjá voru upphaflega birtar gagnaþekjur sem sýndu reitaafmörkun allra þeirra korta sem Orkustofnun hefur staðið að vinnslu og útgáfu á. Teljast þau annars vegar til Orkugrunnkorta og hins vegar til Jarðkönnunarkorta. Kortagerð OS í mælikvarða 1:25 000 á tímabilinu 1986-2000 sem fellur innan þessara tveggja flokka, var jafnframt hluti af stærra samhengi í kortagerð Landmælinga Íslands, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins / Náttúrufræðistofnunar, Landsvirkjunar og Orkustofnunar í anda samhæfingar kortavinnslu í áðurnefndum mælikvarða. Þar sem blaðskipting kortaflokksins var til á OS þótti áhugavert að reyna að ná utan um öll kort flokksins í þessum mælikvarða, en það hafði aldrei verið gert áður. Auk leyfis til notkunar hugbúnaðar frá Gagarín voru fengnar skannanir af staðfræðikortum frá Landmælingum Íslands og gróðurkortum frá Náttúrufræðistofnun. Í framhaldinu var tilraunaútgáfa sett upp á innra kerfi OS. Enginn utanaðkomandi kostnaður féll á verkið sem vannst á stuttum tíma af starfsmönnum OS. Afraksturinn varð Kortavefsjá 1:25 000, hugsuð sem tilraunaverkefni til að sýna afrakstur samstarfs á sviði kortagerðar milli OS og annarra stofnana í þessu samhengi, en jafnframt gaf verkefnið möguleika til að vekja athygli á mikilvægi framsetningar upplýsinga um ólíkar kortategundir (útgefið / óútgefið) í sömu kortasjánni. Þessi ólíku form gagna falla undir mismunandi lög hvað varðar varðveislu og skráningu, en aðeins útgefin kort eru skráð miðlægt hjá Landsbókasafni (án staðsetningarhnita). Þegar tilraunaverkefnið hafði verið aðgengilegt á innra kerfi OS í hálft annað ár, komu fram óskir um að opna aðgengi að því út á netið, sem var gert á fyrrihluta árs 2016. Upplýsingar um kort Orkustofnunar hafa annars verið birtar í Orkuvefsjá og var sú birting hin opinbera miðlun upplýsinga um kortaflokka OS allt þar til ný kortasjá stofnunarinnar leit dagsins ljós. Tilraunavefsjáin gaf hins vegar til kynna að ýmis tækifæri gætu falist í samstarfi margra stofnana á þessu sviði varðandi kortafloka í fleiri mælikvörðum og í mögulegri þróun samfélagslegra verkefna um birtingar upplýsinga um kort í kortasjám.
Útgefin og óútgefin kort í mælikvarða 1:25 000
Prentuð kort 1:25 000
Landmælingar Íslands hófu útgáfu prentaðra staðfræðikorta í mælikvarða 1:25 000 af suðvesturlandi árið 1984 og komu alls 17 kort út af þeim landshluta, en síðar komu út 6 kortblöð af Austurlandi. Rannsóknastofnun landbúnaðarins og síðar Náttúrufræðistofnun stóðu fyrir útgáfu gróðurkorta í mælikvarða 1:25 000 á árabilinu 1984-1990, fyrst af svæðum í Þingeyjarsýslum 9 kort, þá 11 kortblöð af Snæfellsnesi og loks 8 kortblöð á suðvesturlandi. Gróðurkortin urðu því alls 28 talsins. Orkustofnun gaf á tímabilinu 1992-2000 út alls 12 kort í mælikvarða 1:25 000 af Reykjavík og nágrenni; fjögur berggrunnskort, fjögur jarðgrunnskort og fjögur vatnafarskort, þ.e. fjórir kortrammar með þremur mismunandi kortum úr hverjum, þar sem sama grunnkortið var notað fyrir framsetningu á þremur mismunandi þemakortum. Útgefin kort í mælikvarða 1:25 000 í þessum kortaflokki eru því 63 talsins.
Óútgefin kort 1:25 000
Hugmyndafræði kortagerðarinnar í mælikvarða 1:25 000 gerði ráð fyrir að til yrðu kortgrunnar sem mætti samnýta fyrir gerð á margvíslegum kortum til útgáfu hjá ólíkum stofnunum, eins og raunin varð á með þau 63 kort sem út komu á pappírsformi. Grunnkortin úr þessum kortaflokki sem til eru á filmum eða litaprufum eru 101 talsins. Þau eru mjög mismunandi að gerð og á ýmsum stigum, allt frá tiltölulega hráum hæðargrunnum yfir í að vera grunnkort með skýringum og mismunandi framsetningu á upplýsingum um vatnafar. Þá urðu til fjögur tilraunakort af Ölfusi, í útliti staðfræðikorta unnin fyrir Landmælingar Íslands hjá verkfræðistofunni Hnit, en kortin voru unnin á tölvutæku formi og sett fram sem litaprufur, en urðu aldrei formlegar útgáfur.
Óútgefin kort hafa verið flokkuð í eftirtalda flokka: Grunnkort Orkustofnunar, Grunnkort Landsvirkjunar, Grunnkort RALA/Náttúrufræðistofnunar, Grunnkort Landmælinga Íslands, Grunnkort Army Map Service (AMS) og Tilraunakort af Ölfussvæði.