Mælikvarðar og fjöldi orkugrunnkorta

Orkugrunnkort, sem unnin voru á tímabilinu 1958-1998, eru talin vera 755 talsins, flest í mælikvarða 1:20 000, 1:5000 og 1:2000, en einnig í 1:25 000, 1:50 000, 1:10 000 og 1:100 000. Í þekjum í kortasjá eru sýnd ytri mörk kortblaða, en ekki þekja kortlagðra svæða innan reita. Kortin hafa verið skönnuð í hárri upplausn (tiff) en minni myndir (jpg) eru tengdar við töflur og má skoða í ítarefni. Gagnasafn um þennan kortaflokk var fyrst unnið á OS árið 2010.

OGK  1:2000

Þekkt kort í mælikvarða 1:2000 eru 234 talsins: Raforkumálastjóri/Orkustofnun: 68, Landsvirkjun: 161 og RARIK: 5. Kortin eru flest af virkjanasvæði Þjórsár og Tungnaár og af Blöndusvæðinu, einnig úr Skagafirði og af  Kröflusvæðinu. Flest kortanna eru með eins meters hæðarlínubili. Mögulegur fjöldi ramma innan yfirlitskorts (1:20 000) er 100 í þessum mælikvarða.

OGK  1:5000

Þekkt kort í mælikvarða 1:5000 eru 219 talsins: Raforkumálastjóri/Orkustofnun: 160, Landsvirkjun: 37 og RARIK: 22. Kortin eru flest af virkjanasvæði Þjórsár og Tungnaár, vatnasvæði Kárahnjúkavirkjunar og af Blöndusvæðinu, einnig af nokkrum stöðum á Suðurlandi, úr Skagafirði og af  Kröflusvæðinu. Mögulegur fjöldi ramma innan yfirlitskorts (1:20 000) er 16 í þessum mælikvarða. Kortin eru með allt að eins meters hæðarlínubili.

OGK  1:20 000

Þekkt kort í mælikvarða 1:20 000 eru 235 talsins: Raforkumálastjóri/Orkustofnun: 227, Landsvirkjun: 7 og RARIK: 1. Kortin sýna stóran hluta miðhálendis Íslands og stór svæði í byggð, einkum á Suðurlandi, en auk þess þekja kortin stór svæði á Vestfjörðum. Flest kortanna eru með fimm metra hæðarlínubili.

OGK 1:25 000

Þekkt orkugrunnkort í mælikvarða 1:25 000 eru 50 talsins, þ.e. 11 frá Orkustofnun og 39 frá Landsvirkjun. Þau sýna hluta svæðisins frá Kili í vestri að Vatnajökli í austri og eru flest af vatnasvæði Þjórsár og Tungnaár, auk þriggja kortblaða suðvestan Síðujökuls. Kortin byggja á blaðskiptingu korta 1:25 000 sem sammælst var um að nota hér á landi á níunda áratug síðustu aldar, en þar er miðað við að hvert kort sýni fjórðung þess svæðis sem sást á kortblöðum í mælikvarða 1:50 000 (kortaflokkur DMA C761). Hvert kortblað nær því yfir áttunda hluta úr breiddargráðu (7'30'') og fjórðung úr lengdargráðu (15'). Hæðarlínubil er yfirleitt fimm metrar.

OGK  Aðrir mælikvarðar

Tugur korta fellur utan reitakerfa og blaðskiptinga. Þessi kort eru í ýmsum stærðum og mælikvörðum og gerð bæði á vegum Raforkumálastjóra/Orkustofnunar og Landsvirkjunar. Stærsta kortið er af virkjunarsvæðum á Norð-Austurlandi (1:100 000), þá er kort af Tungnaársvæðinu (1:50 000) og nokkur kort, samsett úr fleirum, af nágrenni Búrfellsvirkjunar, Þórisvatns og Kröflu (1:20 000 og 1:25 000). Þá eru kort í mælikvarða 1:10 000 úr Seyðisfirði og af  Suðurfossá á Barðaströnd.