Orkugrunnkort

orkugrunnkort1

Upp úr miðri síðustu öld hófst á vegum Raforkumálaskrifstofunnar vinna við landmælingar og kortagerð vegna rannsókna fyrir virkjanir á hálendi Íslands og síðan framkvæmdir vegna þeirra.  Eftir að Raforkumálaskrifstofan var lögð niður hélt verkefnið áfram á vegum Orkustofnunar, en einnig hjá Landsvirkjun og Rafmagnsveitum ríkisins (RARIK). Kortagerðin stóð síðan yfir fram undir síðustu aldamót eða í fjóra áratugi (1958-1998), en mælingar fóru einkum fram á vegum Landmælingadeildar Orkustofnunar undir stjórn Gunnars Þorbergssonar. Kortin byggðu á loftmyndum frá Landmælingum Íslands, en endanleg vinnsla kortanna var að mestu unnin hjá eftirtöldum fyrirtækjum: Forverk, Hnit, Svenska kraftkontoret, VIAK og Wideröe. Um er að ræða grunnkort sem einkum var ætlað að sýna hæðarlínur, hæðarpunkta og vatnafar, en alls eru þekktir 755 titlar úr þessum kortaflokki.

Flest kortanna voru gerð í þremur mælikvörðum 1:20 000, 1:5000 og 1:2000. Nokkuð var síðan gert af kortum 1:25 000, en minna í 1:50 000 og 1:10 000, aðeins eitt kort er í 1:100 000.  Þessi tegund korta hefur af ýmsum verið nefnd tæknikort (e. Plans), en þau voru ekki gefin út í eiginlegum skilningi heldur fjölfölduð á filmur og pappír í nokkrum eintökum. Af þeirri ástæðu er m.a. ekki vitað nákvæmlega hvort öll kortin eða afbrigði þeirra eru til á Orkustofnun, en reynt hefur verið að fá lánuð kort til skönnunar þar sem vitað hefur verið um tilvist þeirra annars staðar. Kortaflokkur þessi er hér nefndur Orkugrunnkort, en sá hluti hans sem gerður var á vegum Raforkumálastjóra og Orkustofnunar hefur í daglegu tali verið nefndur OS kort. Hnitakerfið, sem flest kortin voru teiknuð í, var fengið með hornsannri keiluvörpun Lamberts með 65° breiddarbauginn sem snertibaug keilu og ellipsóíðu. Y-ásinn er samsíða 18° hádegisbaugnum til norðurs, en skurðpunkturinn með 65° breidd og 18° lengd hefur hnit X=500.000 og Y=500.000. X- ásinn hefur vestlæga stefnu. Hvert yfirlitskort 1:20 000 nær yfir 16 km stefnu X-áss og 10 km stefnu Y-áss.

Nokkrir efnisþættir úr kortaskrá fyrir Orkugrunnkort og Jarðkönnunarkort hafa verið gerðir leitarhæfir á vefsíðu stofnunarinnar. Með því að smella hér er hægt að leita að upplýsingum um kortin eftir nokkrum leiðum:
Leit í kortaflokkum Orkustofnunar
Nánar um fjölda Orkugrunnkorta eftir mælikvörðum

Skráning og aðgengi

Lýsigögn fyrir Orkugrunnkort byggja á skráningu upplýsinga af kortunum sjálfum og efni úr skýrslu Gunnars Þorbergssonar (1988),  Kortaskrá Orkustofnunar. Skráningartexti sem sleginn var inn í kortabrunn OS (skráningarkerfi kortasafns OS) var færður yfir í gagnagrunn þar sem upplýsingar voru samstilltar og bætt við ítarlegri gögnum sem kortabrunnurinn er ekki hannaður fyrir. Þekjur sem sýna hornpunkta kortblaða voru síðan uppfærðar í ArcInfo landupplýsingakerfi og voru þær ásamt skránum úr gagnagrunninum notaðar til að búa til formskrár vegna framsetningar í Orkuvefsjá.  Samhliða þessu ferli voru Orkugrunnkortin skönnuð í hárri upplausn (tiff), en í kortasjánni er mögulegt að skoða léttar útgáfur mynda (jpg) af þeim í tengslum við skráningarspjald hvers korts. Öll kortin hafa verið prentuð út á pappír vegna notkunar í kortasafni OS. Búið er að skila frumfilmum kortanna til framtíðarvarðveislu í Þjóðskjalasafni Íslands, ásamt hágæðaskönnunum af kortunum og gagnagrunnstöflum sem þeim tengjast.  Kortin eru nú skoðanleg í tveimur kortasjám: Kortasjá OS og  Kortasjá fyrir Kortasafn OS.