Jarðkönnunarkort

JarðkönnunarkortJarðfræði- og vatnafarskort Orkustofnunar sem unnin hafa verið á liðnum áratugum, hafa stundum verið nefnd Jarðkönnunarkort (JKK) og er það heiti notað hér. Kortin eru af ótal gerðum, flest í flokkunum jarðfræðikort, berggrunnskort, jarðgrunnskort, jarðhitakort og vatnafarskort. Í þessum kortaflokki eru yfir 180 kort unnin á síðastliðnum fjórum áratugum í mælikvörðum allt frá 1:5000 til 1:2 000 000, rúmur þriðjungur þeirra er formlega útgefinn, þ.e. kort prentuð í prentsmiðju, en meirihlutinn er hins vegar útprentaður á tölvuprentara (plotter) eða ljósritaður. Kortin hafa í mörgum tilfellum verið unnin sem fylgigögn með rannsóknaskýrslum.  Í lögum um skylduskil til Landsbókasafns Íslands er gerður skýr greinarmunur á þessum tegundum heimilda, aðgreindum eftir útgáfuformi, en aðeins útgefnu kortin eru skilaskyld og skráð hjá Landsbókasafni og koma fram í opinberum skrám. Óútgefnu kortin flokkast sem skjöl og tilheyra skjalasafni OS, en þar með falla þau undir lög um Þjóðskjalasafn Íslands eins og skjöl opinberra aðila. Tölvuútprentuð kort hafa verið skráð hjá Orkustofnun á sama hátt og prentuð útgefin kort. Kortin hafa öll verið skönnuð og eru til bæði á tiff og jpg formi.

Orkustofnun hefur lagt áherslu á að veita aðgang á Netinu að upplýsingum um kort sem gerð hafa verið á vegum stofnunarinnar (eða verið unnin í samstarfi við aðra). Í Kortasjá OS er gerð tilraun til framsetningar upplýsinga um þennan kortaflokk sem er margbreytilegri og í raun flóknari í framsetningu en aðrir íslenskir kortaflokkar, bæði vegna mismunandi mælikvarða, óreglulegra blaðskiptinga og ólíkra efnisflokka innan sama kortaflokksins. Jarðkönnunarkort í mælikvarða 1:25 000 voru á sínum tíma unnin á Jarðkönnunardeild Vatnsorkudeildar OS, en önnur kort í þessum flokki voru ýmist unnin á Jarðhitadeild eða Vatnsorkudeild OS. Uppfærsla kortanna og vinnsla fer nú fram hjá starfsmönnum ÍSOR. Í Orkuvefsjá eru birtar upplýsingar um kort gerð fram til ársins 2003, en þá varð ÍSOR til sem sjálfstæð stofnun.

Nokkrir efnisþættir úr kortaskrá fyrir Orkugrunnkort og Jarðkönnunarkort hafa verið gerðir leitarhæfir á vefsíðu stofnunarinnar. Með því að smella hér er hægt að leita að upplýsingum um kortin eftir nokkrum leiðum: Leit í kortaflokkum Orkustofnunar

Helstu heimildir við skráningu Jarðkönnunarkorta voru: Freysteinn Sigurðsson o.fl. (1996): Jarðfræðikortlagning á Orkustofnun [Greinargerð OS], Árni Hjartarson (2003): Skrá yfir jarðfræðikort OS (stór litprentuð kort) [Óútgefin kortaskrá birt á eldri vefsíðu OS], Guðrún S. Jónsdóttir (2007): [Óútgefin kortaskrá og landupplýsingaþekja með reitum korta í skránni].