Birting gagna úr borholuskrá í kortasjá

Til þess að geta birt upplýsingar um borholur í kortasjám þurfa staðsetningarhnit þeirra að vera þekkt. Upplýsingar úr borholuskrá voru lengi vel ekki birtar í skrám á netinu, en valdar upplýsingar um helming holanna í skránni mátti finna í Gagnavefsjá. Gert hefur verið átak í því að safna hnitum af þeim borholum þar sem engin hnit hafa verið  færð inn og jafnframt er verið að vinna að því fá ný hnit, þar sem eldri staðsetningarhnit sem borist hafa frá ýmsum aðilum í skrána, hafa ekki reynst nægilega nákvæm. Tilgangur birtingar útdráttar úr borholuskránni á vefsíðu OS er meðal annars að auka aðgengi að upplýsingum, auðvelda öflun nánari gagna, en markmiðið er að fylla betur í eyður, uppfæra eldra efni og fjölga síðan efnisþáttum til birtingar, sem nú hefur verið gert (2015).

Með bættum myndgögnum (gervitunglagögn og loftmyndir) til framsetningar staðtengdra upplýsinga í kortasjám, kemur skýrar fram vandamál sem ekki sást með sama hætti þegar almennari kortgrunnar voru notaðir eins og t.d. var í Gagnavefsjá, en það er ónákvæmni eða skekkja margra eldri hnita. Samhliða öflun nýrra staðsetningarhnita er unnið að því að yfirfara gæði eldri hnita og afla fleiri ljósmynda af borstöðum.

Takmarkið er að almennar upplýsingar um allar borholur á Íslandi verði skoðanlegar í Orkuvefsjá, ásamt mynd af borstað. Markmiðið er að gefa yfirsýn á landsvísu, en tekið gæti nokkurn tíma að ná því marki. Borholuskráin er gagnagrunnurinn sem allt byggist á, þar eru allar upplýsingar færðar inn og síðan teknar út í töflur vegna birtingar. Ef notendur þurfa ítarlegri upplýsingar en fram koma á vef OS eða í Orkuvefsjá þarf að hafa samband við stofnunina. Tekið skal fram að sértækar upplýsingar í borholuskránni og tengdum gagnagrunnum byggja í einhverjum tilfellum á gögnum frá aðilum sem kostað hafa boranir og rannsóknir og getur OS ekki látið slíkar upplýsingar af hendi án leyfis þeirra.